04.04.1922
Efri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt. En jeg vildi taka undir það, sem hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl. J.) sagði, að eigi bæri að skilja þessi lög svo, að ríkinu væri með þeim lögð sú skylda á herðar að leita að silfurbergi annarsstaðar, ef það fyndist ekki í Helgustaðafjalli eða gengi þar til þurðar. Því að sú krafa væri í fylsta máta ósanngjörn, og ekki síst eftir þeim upplýsingum, sem háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) gaf, að möguleikarnir fyrir því að finna silfurberg væru mjög víða. Það er því sú mesta fjarstæða að leggja þennan skilning í þessi lög, því að það gæti tæplega talist skylda fyrir ríkið að láta róta um öllum fjöllum þessa lands.

Jeg vil því aftur fyrir hönd nefndarinnar leggja til, að háttv. þm. greiði atkvæði með frv. þessu, í þeirri von, að enginn skilji þetta svo.

Það er víða talað um, að til sje silfurberg, og til dæmis að taka kom maður einn úr Reyðarfirði til mín, áður en jeg fór að heiman, og sagðist hafa fundið silfurberg í sínu landi og vildi láta rannsaka það. Þetta hefir því oft heyrst, að silfurberg væri víða til; en reynslan hefir altaf orðið sú, að það hefir hvergi reynst vera nema í Helgustaðafjalli. Og því hefir jafnvel verið haldið fram, að það væri gengið þar til þurðar. En því verð jeg að mótmæla; um það vita menn ekkert nú, af því ekkert hefir verið að því leitað síðan ríkið hóf þar rekstur sinn.

Göngin, sem grafin voru að námunni, hygg jeg, að hafi eigi verið grafin fyrir þá sök, að Frakkar hafi farið svo illa með hana, heldur af þeim ástæðum, að vatn stóð í námunni mestan hluta ársins, svo eigi var hægt að vinna í henni nema að sumrinu. Varð því að veita þessu vatni burt, svo hægt yrði að vinna í henni alt árið um kring.

Legg jeg svo enn til, fyrir nefndarinnar hönd, að frv. verði samþykt með þeim skilningi, sem jeg þegar hefi tekið fram.