31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

15. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Úr því að jeg hefi ekki getað orðið samferða háttv. meðnefndarmönnum mínum um þetta mál, verð jeg að gera grein fyrir afstöðu minni með nokkrum orðum.

Jeg get ekki fallist á, að frv. þetta verði samþykt. Eins og kunnugt er, var í byrjun þings í fyrra ætlast til, að gjald þetta fjelli niður, eins og önnur útflutningsgjöld, en er leið á þingið, leist stjórninni svo illa á fjárhagshorfur ríkisins fyrir árið 1922, að hún fól fjhn. að bera fram frv. um framlenging á þessu 1% gjaldi af öllum útfluttum afurðum fyrir árið 1922. Nefndin tók málið að sjer, og náði það fram að ganga með litlum atkvæðamun, og datt þó engum í hug þá, að um annað eða meira væri að ræða en að framlengja gjaldið um þetta eina ár.

Að halda þessu gjaldi við er beinlínis á móti yfirlýstri stefnu þingsins, sem er að hverfa frá hinum óbeinu sköttum og að hinum beinu og að leggja ekki á framleiðsluna.

Mjer dettur ekki í hug að neita, að ríkið hafi fulla þörf tekna, en jeg held fram, að það megi ekki fyrst og fremst líta á það í þessu máli. Í illu árferði verður fyrst og fremst að líta á, hvað framleiðslan þolir, og ekki ganga svo nærri henni að hún lamist. Auk þess er hagur ríkissjóðs alls eigi eins slæmur og margir halda fram. Skuldirnar hafa að vísu aukist síðustu árin, en sem betur fer eru horfur á, að verstu tímarnir sjeu nú hjá liðnir og að ríkisbúskapurinn fari aftur að bera sig sæmilega. Gjöldin eiga að minka samfara dýrtíðinni.

Jeg skal geta þess, að allar líkur eru til, að tekjuskatturinn hjer í Reykjavík muni nema ¾ milj. kr. á ári, þrátt fyrir hversu ilt var í ári í fyrra. En nú er útlit fyrir miklu betra árferði í ár, og þó er tekjuskatturinn ekki áætlaður meira en 800000 kr. í fjárlögum 1923. Geta menn því sjeð, að allar líkur eru til, að skatturinn fari ekki alllítið fram úr áætluninni, þar sem útlit er fyrir, að hann muni nema alt að þeirri upphæð á þessu ári í Reykjavík einni. Mætti gera sjer von um, að skatturinn fyrir árið 1923 nemi talsvert á 2. milj. króna.

En ef móti vonum kynni að ára illa á þessu ári, þá þola atvinnuvegirnir því síður frekari álögur.

Í fjárlagafrv. eins og það var samþ. hjer í háttv. deild nam tekjuhallinn ekki meiru en 180000 kr., og þó að megi gera ráð fyrir, að hann heldur aukist en minki í háttv. Ed., eru samt ekki líkur til, að tekjuhalli verði mikill á fjárlögunum. Verði nú þessi upphæð, sem í fyrra nam 350000 kr., bætt við tekjuhallann, mun hann samt ekki nema meiru en um 550000 kr. — Þá virðist samt búskapur ríkissjóðs bera sig sæmilega, því afborganirnar nema 900000 kr., og verður þannig í raun og veru tekjuafgangur eftir alt saman, og vafasamt hvort sæmilegt getur talist að ganga mjög nærri atvinnuvegunum með aukasköttum til að auka þann tekjuafgang. Fyndist mjer nær sanni að fella niður gjaldið fyrir árið 1922 heldur en að framlengja það fyrir árið 1923, því að þótt við megum ekki láta skuldirnar vaxa okkur yfir höfuð, þá megum við heldur ekki lama svo atvinnuvegina til frambúðar, að þeir eigi sjer ekki viðreisnar von, og síst eins og nú stendur á. er hagur ríkissjóðs er alls ekki svo aðfram kominn.

Af þessum ástæðum get jeg ekki fallist á þetta frv., eins og nú er ástatt. Auk þess er á það að líta, að það er langt þangað til hægt er að sjá, hvernig ástandið verður 1923, og á því ári yrði ávalt hægt að lögleiða eitthvert gjald, sem kæmi í stað þessa og ekki væri rent blint í sjóinn með.