31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

15. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hafði búist við, að jeg þyrfti ekki að mæla með þessu frv., þar sem þörfin á því er svo augljós.

Það hagaði svo til að nefndin, sem hafði þetta mál til meðferðar, var eingöngu skipuð þeim mönnum sem hafa hagsmuna að gæta vegna þeirra atvinnuvega, sem þetta gjald kemur aðallega niður á. Svo það ræður af líkum, að þeir hefðu eftir megni reynt að komast hjá gjaldinu ef þeir hefðu álitið það fært. En við nána athugun komust 4 af 5 nefndarmönnum að þeirri niðurstöðu að hjá því yrði ekki komist.

Jeg verð því að líta svo á, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) leggist ekki á móti frv. í fullri alvöru, enda þætti mjer ekki ósennilegt, að hann tæki dýpra í árinni, ef hugur fylgdi máli.

Það þarf ekki langt mál um ástæðurnar til þessa frv. — Það hefir margsinnis verið tekið fram, að við verðum að skila fjárlögunum með sem minstum tekjuhalla, en verði þetta frv. ekki samþykt, verður hann mikill, enda get jeg ekki sjeð, að þetta 1% gjald sje svo óbærilega hátt, að atvinnuvegirnir geti ekki borið það.

Auk þess má færa rök að því, að einmitt allur fjöldi framleiðenda gerir sjer enga von um, að gjaldið falli niður nú þegar. Hefi jeg næg skilríki fyrir því, að stærstu gjaldendurnir, útvegsmennirnir, búast ekki við, að gjaldið falli niður, að minsta kosti ekki á þessu fjárhagstímabili. Jeg er alls ekki viss um, að þeir kæri sig um, að verið sje að ljetta af þeim sköttum, sem þeir alls eigi hafa kvartað undan.

Annars skal jeg geta þess, að þeir, sem telja vel gerlegt að svifta ríkissjóðinn þessum tekjum, ættu þá að ganga dálítið lengra. Hvað er um síldartollinn? Bæri ekki að athuga, hvort ekki mætti lækka hann, eða jafnvel ljetta honum af með öllu.

Hefði jeg átt von á, að þessum skatti yrði ljett af, hefði jeg komið fram með till. um að ljetta þessum tolli af líka, því satt að segja er mjer ekki ljóst, hvers vegna svo gífurlegur tollur er lagður á þann atvinnuveg, sem ekki stendur í nokkru hlutfalli við verðmæti vörunnar.

Skal jeg svo eigi fara mikið lengra út í þetta mál, af því jeg sje, að margir háttv. þingmenn eru ekki viðstaddir.

En áður en jeg sest niður skal jeg geta þess, að jeg á bágt með að skilja þá menn, sem halda því fram, að þessi 1% skattur sje svo tilfinnanlegur, að hann muni sliga atvinnuvegina; en ekki fer því fjarri, að þeir hinir sömu menn álíti, að sumir aðrir atvinnuvegir geti borið alt að 100% álögur. Á jeg þar við Spánartollinn. — Jeg bið menn að gæta þess að fara ekki út í neinar öfgar í jafnalvarlegu málefni. Þörf ríkissjóðs er mikil, og allur þorri kjósenda kýs miklu heldur að leggja nokkuð á sig en að því að fara á mis við allar verklegar kvæmdir í landinu. Þjóðin kvartar ekki mjög undan álögunum, en henni mundi þykja ilt, ef kyrstaða yrði á öllum framkvæmdunum.