31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

15. mál, útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) mintist á hlutfallið milli beinna og óbeinna skatta. Þessi skattur, sem hjer er um að ræða, verður að teljast til þeirra óbeinu skattanna, sem fyrst ætti að ljetta af.

Þá talaði sami háttv. þm. um, að tekjuskatturinn ætti að vinna upp hallann, sem yrði af tillögu sinni. Nefndi hann, að fyrirsjáanlegt væri, að tekjuskatturinn yrði þetta árið í Reykjavík einni svo mikill, að útflutningsgjaldsins gætti ekki. Þessu hefir verið hreyft áður hjer í hv. deild, en ennþá er aðeins um alveg lausa áætlun að ræða. Það mun að vísu rjett, að skattstjórinn mun vera tilleiðanlegur til að áætla tekjuskattinn hjer 600–700 þús. kr., en það er aðeins lauslegt yfirlit. Það veit enginn enn, hvort hann nemur 600000 kr., hvað þá heldur meiru, og því síður geta menn gert sjer hugmynd um, hve mikil afföll kunna að verða á honum.

Þá er eigi rjett að bera saman árið 1923 við yfirstandandi ár, og það fer ekki vel á því í öðru veifinu að halda fram, að atvinnuvegirnir geti alls eigi borið þennan skatt, en í hinu veifinu að segja, að tekjuskatturinn verði svo mikill, að útflutningsgjalds gerist alls ekki þörf. Því vitanlega er tekjuskatturinn nærri því eingöngu undir því kominn, hvernig atvinnuvegunum farnast.

Jeg get því yfirleitt tekið undir með hv. meiri hl. nefndarinnar, en sýni það sig, að skattsins gerist ekki þörf, er nægur tími til að ljetta honum af á næsta þingi.