31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

15. mál, útflutningsgjald

Magnús Guðmundsson:

Það voru ummæli hv. þm. Str. (M. P.), sem komu mjer til að standa upp. Hann kvaðst hafa undrast dirfsku stjórnarinnar að bera þetta frv. fram. Þar er jeg þá sá seki. Jeg gat þess við 1. umr. frv., að án þessa skatts hefði stjórnin ekki getað komist langt með að leggja fjárlagafrv. hallalaust fyrir. En nú tel jeg alveg óþarft að safna skuldum ár eftir ár. Jeg bar þetta því fram sem neyðarúrræði, því að jeg er á móti þessu gjaldi, eins og jeg hefi marglýst fyrir hv. Alþingi.

Annars er þetta frv. að sumu leyti gott sem prófsteinn á sparnaðaralvöru háttv. þm. Þetta gjald verður bersýnilega að haldast uns gjöldin verða lækkuð, og þá sýna háttv. þm., hvað þeim er mikil alvara að losna við það, með því að draga úr útgjöldum ríkisins. Og það er gott að ræða um þetta einmitt nú, þegar hv. deild er að enda við að fella till. um 200 þús. kr. sparnað.

Mjer heyrðist háttv. þm. Str. (M. P.) halda, að áætlunin væri of há. Það er áætlað, að út verði fluttar 100 þús. síldartunnur. Það gerir 300 þús. kr. Og útfluttar sjávarafurðir eru áætlaðar 30 milj. kr. virði. Er þá gjald af þeim önnur 300 þús. kr. Þá er eftir landafurðir og það, sem sjávarafurðir kunna að fara yfir 30 milj. kr., og er þá vel lagt fyrir því, sem þurfa kynni að endurgreiða af síldartollinum.

Þá talaði þessi sami háttv. þm. (M. P) um að verðlauna framleiðslu og útflutning. Jeg játa, að það væri nógu skemtilegt að geta það. En hvar vill háttv. þm. taka fje til þess? Er ekki tekjuskatturinn nógu hár? Eða þá tollarnir? Og ekki má útflutningsgjaldið vera.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) kvað hallann ekki eins mikinn og fjárlagafrv. sýndi. Þetta er rjett, enda hafði jeg bent á það hjer áður. En þess ber og að gæta, að enn vantar fjáraukalög og útgjöld eftir sjerstökum lögum og þingsályktunum. Það er því ekki hægt að segja um, hve vel landsbúskapurinn muni bera sig.