31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

15. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Hv. frsm. (M. K.) sagði, að nefndin hefði sjeð, að yrði að samþykkja frv. eftir nákvæma rannsókn. Sú rannsókn hefir víst verið gerð í einrúmi, því að alt fram á þá stundu, sem afstaða var tekin, vissi jeg ekki betur en meiri hluti nefndarinnar væri á móti frv.

Hann kvað það ennfremur aðalrökin fyrir framgangi frv., að þá yrðu fjárlögin nærri tekjuhallalaus. Jeg sýndi aftur á móti fram á, að ekki væri altaf rjett að berjast við að halda fjárlögunum hallalausum. Nú vita allir, að atvinnuvegimir eru lamaðir. Togaraútgerðin stöðvaðist t. d. alllangan tíma á síðasta ári vegna þess, að hún bar sig ekki. — Hvaða bjargráð er þá að hlaða á atvinnuvegina sköttum á skatta ofan? Og hvar á að taka tekjur, svo að ekki verði halli, ef framleiðendur gefast upp?

Það var önnur röksemdin hjá hv. frsm. (M. K.), að framleiðendur hefðu ekki búist við, að gjaldinu yrði ljett af, og að það væri vel þokkað. Mín reynsla er alveg gagnstæð. Það sem jeg til veit, er það jafnóvinsælt hjá þeim, sem við sjóinn búa, og hinum, sem byggja sveitirnar. Í fyrra marðist það fram hjer í þessari hv. deild með eins atkvæðis mun. Svona voru nú vinsældirnar þá. Þó var tekjuhallinn þá um 2 milj. kr., en nú er hann tæplega 1/10 hluti þess. Auk þess hefi jeg þegar sýnt fram á, að enginn raunverulegur halli væri nú, en því gekk háttv. frsm. meiri hl. (M. K.) alveg fram hjá.

Nú hefir hæstv. fyrv. fjrh. (M. G.) stutt mál mitt í þessu efni og vakið athygli á því, að auk afborgana af lánum ríkissjóðs sje ráðgert að leggja í sjóð 100 þús. kr. framlagið til Landsbankans. Það verður því um 1 milj. kr., sem dregst frá gjöldunum, og þó að reikningslegi hallinn á fjárlögunum yrði 550 þús. kr., þá yrði þó í raun og veru 450 þús. kr. tekjuafgangur, auk þess sem tekjurnar væntanlega fara fram úr áætlun (t. d. tekjuskatturinn). Það er því auðvelt fyrir hv. frsm. (M. K.) að skila fjárlögunum tekjuhallalausum, þó að hann felli þetta frv.

Um síldartollinn vil jeg minna háttv. frsm. á, að hann er hjer ekki til umræðu nú, og mun jeg því ekki um hann tala að þessu sinni.

Sama er að segja um Spánartollsmálið; það mun jeg leiða hjá mjer nú.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði valt að treysta tekjuskattinum svo mjög, eða hyggja að hann færi fram úr áætlun. En eftir þeim skýrslum, sem liggja fyrir, mun tekjuskatturinn í Reykjavík einni nema um 700 þús. kr., og er það þó alkunna, að á síðastliðnu ári bar framleiðslan sig afarilla. Það er því engin ástæða til að ætla, að tekjuskatturinn muni reynast minni en áætlað er, heldur áreiðanlega miklu meiri.

Þá gerði háttv. þm. (M. G.) mikið úr þeim gjöldum, sem óáætluð væru, en koma mundu á fjáraukalög. En þau útgjöld hefir þing og stjórn að miklu leyti í hendi sjer að takmarka, og hygg jeg að ekki þurfi að óttast, að þau vaxi oss yfir höfuð, ef viljinn er góður til að spara.

Háttv. sami þm. (M. G.) sagði ennfremur, að þennan skatt mætti afnema á næsta þingi, ef vel gengi. En jeg hygg að háttv. þm. muni ekki láta teygja sig þannig á eyrunum til þess að samþykkja ranglátan skatt þing eftir þing, uns hann er orðinn að föstum skatti. Og það er einmitt til þess að festa ekki þennan skatt í skattakerfinu, að jeg vil láta afnema hann nú þegar.

Í lok ræðu sinnar fanst mjer algerlega slá út í fyrir háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Hann segist þá hafa lofað að falla frá þessu frv., ef þingið sýndi verulega sparnaðarviðleitni. En kvaðst hins vegar ekki hafa orðið slíkrar viðleitni var, og því fylgdi hann enn fram frv. Þessi háttv. þm. (M. G.) lagði fjárlögin fyrir þingið með 200 þús. kr. tekjuhalla. En allar líkur eru á, að það muni fara hjeðan úr deildinni með nokkru minni halla. Þegar hann lagði fjárlögin fram, þá lagði hann áherslu á það, að stjórnin hefði við samningu frv. gengið svo langt í sparnaði, að lengra yrði varla komist. Þingið hefir því verið sparsamara í meðferð fjárlaganna en þessi hv. þm. gat gert sjer vonir um, því ekki gat hann gert ráð fyrir, að þingið mundi mikið spara á fjárlögunum, þegar stjórnin hafði þegar gengið svo langt í þeim efnum, að lengra varð varla komist. Jeg hermi því það loforð upp á þennan hv. þm. (M. G.), að ef þetta þing gerir ekki fjárlögin hallameiri en stjórnin gerði þau, að þá falli hann frá þessu frv.

Jeg held því fram, að alls ekki sje fært að svo stöddu að fara lengra í því að leggja á skatta en að gjöld og tekjur ríkisins standist á. Og er þó oft vafasamt, hvort svo langt eigi að ganga, því margoft mun það þjóðinni hollara, að ríkissjóður safni skuldum í bili, fremur en að kippa til muna úr framleiðslunni vegna aukinna skatta. Jeg hefi heyrt það talið til lofs einstökum mönnum, að þeir stundum leggi svo hart að sjer til þess að geta greitt skuldir sínar, að þeir svelti sig. Það má vera, að þetta sje gott og rjett undir vissum kringumstæðum. En jeg hygg, að enginn bóndi muni svelta sig um bjargræðistímann, til þess að geta greitt skuldir. Það væri algerlega misráðið og mundi koma honum sjálfum í koll, þar sem hann þá yrði ljelegri til vinnunnar. Svipað óhygni finst mjer koma fram í því, ef á að íþyngja atvinnuvegum landsins nú með afarháum sköttum, einmitt meðan þeir berjast í bökkum og um það er að tefla, hvort þeir fái risið undir kostnaðinum.

Hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) talaði um nauðsyn þess að afborga skuldir landsins. Þetta er alveg rjett. En jeg hygg, að í slíku efni þurfi ekki að grípa til neinna örþrifaráða, því að bæði mun hægt að afborga allmikið, þótt þessum skatti sje slept, og ef tekjurnar hrökkva ekki fyrir umsömdum afborgunum, þá er auðvitað hægt að taka lán.

Sami hv. þm. (J. A. J.) hjelt því fram, að ýmsir tekjuliðir fjárlaganna mundu vera of hátt áætlaðir, og tók þar sem dæmi tekju- og eignarskattinn. Jeg hefi nú þegar sýnt fram á, að hann muni fremur vera áætlaður of lágt en of hátt. En ef þetta er alvara þm., þá hefði hann átt að hreyfa því hjer, þegar tekjubálkur fjárlaganna var hjer til umræðu. En sá bálkur hefir verið samþyktur við þrjár umræður, og varla nokkurt atkvæði á móti honum. Hefir það því áreiðanlega verið álit alls þorra þm., að tekjuáætlunin mundi ekki vera of há.