01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

15. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Mjer virtist háttv. þm. Str. (M. P.) vera hálfhræddur um það, að jeg rjeðist á hann, þegar hann væri dauður. En eigi þarf hann því að kvíða, því að hvorki mun jeg óttast hann lífs nje liðinn. Auk þess mun forseti hafa vald og vilja til þess að reisa hann upp frá dauðum, ef þörf krefur.

Jeg hefi nú sem áður litlu að svara. Háttv. þm. Str. kvaðst hafa vænst þess, að jeg hefði svarað betur í fyrri ræðu minni. En það er ekki hans að dæma, hversu mjer hafi tekist, því ekki getur hann talist óvilhallur að því er það snertir. Þá neitaði hann því, að hann hefði komið fruntalega fram eða verið með ásakanir eða aðdróttanir í nokkurs garð. En hann dróttaði ýmsu bæði að fráfarinni stjórn og nefndinni, þótt jeg þykist vita, að þar hafi ekki hugur fylgt máli fremur en vant er. Hann sagðist furða sig á því, að nokkur skyldi bera slíkt fram nú. Og auk þess bar hann nefndinni á brýn, að hún hefði legið óhæfilega lengi á málinu. Þetta verð jeg að kalla aðdróttanir. En ástæðan til þess, að nefndin kom ekki fram með frv. fyr, var sú, að hún vildi vita, hvernig fjárlögin litu endanlega út og haga till. sínum eftir því.

Þá mintist sami háttv. þm. á það, hversu ranglátlega gjald þetta kæmi niður á atvinnurekendur. En það er með það eins og margt annað, að það er mikið undir atvikum komið, hvar og hvernig það kemur niður. Það verður svo oft, að það kemur ekki eingöngu niður á framleiðendunum, og fer það eftir eftirspurn vörunnar á hverjum tíma. Ef eftirspurnin er mikil, getur farið svo, að kaupendur og neytendur vörunnar inni gjaldið af hendi. Þá var það veik mótbára hjá sama háttv. þm., að gjaldið kæmi mismunandi niður á einstök hjeruð. Jeg hygg, að öll hjeruð flytji út nokkurnveginn hlutfallslega eftir fólksfjölda og öðrum ástæðum.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) mintist lítið á málið sjálft eða mínar ástæður. Hann talaði mest um fjárlögin, og ætla jeg ekki að fara inn á það, því það liggur ekki hjer fyrir. Hann var að bera mjer á brýn tvískinnung í þessu máli, er jeg taldi æskilegt að losna við þetta gjald, þótt jeg hinsvegar sýndi fram á, að það væri ekki ósanngjarnt eða óbærilegt. En jeg fæ ekki sjeð, að neitt ósamræmi sje í þessu falið. Það getur verið æskilegt að losna við það, þótt það sje ekki óbærilegt eða órjettlátt.

Til þess að gera sjer ljóst, hversu miklar álögur atvinnuvegirnir geti borið til almennings þarfa, verður að bera saman ástandið fyr og nú, og sjerstaklega taka tillit til hlutfallanna milli framleiðslukostnaðarins og söluverðs varanna. Til slíks samanburðar þarf ennfremur að gera sjer ljóst, hve mikils arðs menn krefjast af atvinnuvegunum til þess að telja að þeir gangi viðunanlega. Þegar vel ljet gerðu menn meiri kröfur en sanngjarnt var til afrakstrar af atvinnuvegunum, og væri margur betur farinn nú en raun er á, ef menn hefðu þá lagt nokkuð af ágóðanum í varasjóð, í stað þess að spila öllu út þangað til komið var á heljarþrömina. Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða þetta frekar, en tel víst, að frv. fái góðan byr í háttv. deild.