03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

15. mál, útflutningsgjald

Magnús Pjetursson:

Mjer hafði ekki komið til hugar, að jeg þyrfti að standa upp. En úr því háttv. frsm. (M. K.) hafði ekkert annað fram að færa nú en aðdróttanir í garð okkar, sem ekki höfum skift um skoðun frá í fyrra, þykir mjer hlýða að svara honum fáeinum orðum. Háttv. frsm. (M. K.) skaut því fram, að við myndum berjast á móti frv. vegna þess, að við sæjum fyrir, að það myndi ná fram að ganga. En jeg vil skjóta því til háttv. þdm. — því við þennan þm. er ekki svo gott að koma við rökum, eins og kunnugt er, — hvort ástæða hafi verið til að margir snerust. Alt benti á, að málið hlyti að vera dauðadæmt á þessu þingi, eftir þeim undirtektum, sem það fjekk í fyrra.

Annars er það undarlegt að halda því fram, að við sjeum að leika fyrir kjósendur og slá okkur upp í augum þeirra með því að vera á móti frv., þegar athuguð eru orð háttv. frsm. (M. K.) við 2. umr. þessa máls. Hann sagði þá, að frv. þetta væri í samræmi við vilja þjóðarinnar. Eftir þeirri kenningu ættum við að vera í andstöðu við kjósendur landsins, og þá okkar kjósendur líka. Það er einkennileg rökfimi þetta! Nei, sannleikurinn mun sá, að háttv. frsm. (M. K.) veit, að fjöldinn allur af landsmönnum er á móti þessum rangláta skatti, þó hann hins vegar vilji halda hinu gagnstæða fram, til þess að friða samvisku sína.

Annars er það hart, og stappar nærri ósvinnu að vera með aðdróttanir til þeirra manna, sem snúast ekki eins og snarkringlur í einhverju stefnumáli frá ári til árs, og bera þeim á brýn, að þeir tali eins og kjósendur vilja. Mjer finst háttv. frsm. (M. K.) hafa höggið of nærri þeim, sem snúist hafa frá í fyrra, þegar miðað er við kjósendaviljann, sem hann hjelt fram við 2. umr., og farist því ekki að vera að bregða okkur um kjósendadaður.

En úr því jeg stóð næstur upp á eftir háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), sem varð fyrstur til þess að bera hönd fyrir höfuð sjer af mönnum þeim, sem snúist hafa, þykir mjer rjett að athuga ástæðu hans lítilsháttar.

Jeg vil benda háttv. þm. á það, að ef fullvíst er, að framleiðslan 1922 muni bera sig eða gefa góðan arð, þá getum við rólegir felt frv., því að þá verða beinu skattarnir, sjerstaklega tekjuskatturinn, þess meiri. Ástæða háttv. þm. er því á móti því, sem hann ætlaði sjer að sanna með henni og bendir ótvírætt á það, að óhætt sje að fella frv.