03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

15. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Hv. frsm., þm. Ak. (M. K.). þarf jeg yfirleitt engu að svara. Ræður hans í þessu máli hafa komið furðu lítið við efnið og farið að mestu fyrir ofan garð og neðan. Hann hefir í raun og veru alls ekkert reynt til að rjettlæta þetta gjald eða hrekja það, sem jeg hefi fundið því til foráttu. Heldur ekki tekist að sýna þörfina fyrir það. — Það eina, sem hann hefir sagt í þá átt að rjettlæta gjaldið, er það að það mundi láta nærri, að ekki kæmi nema 15 kr. gjald á hvern meðalmótorbát, og var þetta þó ekki nema ágiskun. En spurningin verður þá, hversu lengi má bæta 15 kr. við skattabyrðina hjá hverjum einstaklingi, og því vildi jeg óska að háttv. þm. svaraði. Háttv. þm. Str. (M. P.) tók af mjer ómakið að svara háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Var alt tal hans vandræðayfirklór til þess að reyna að breiða yfir, hversvegna hann greiði ekki atkv. móti útflutningsgjaldinu, eins og hann gerði á síðasta þingi. En sennilegasta ástæðan er sú að það kemur ekki við hans kjördæmi.

Háttv. frsm. (M. K.) sagði, að ef beinu skattarnir yrðu miklir, þá fjelli niður gjaldið á næsta þingi. En það sýnist miklu rjettara að fella það niður nú, en taka það upp aftur þá, ef þörf verður á. En það sýnist alt benda til þess, að fylgismenn skattsins vilji fá hann sem fastan skatt, þótt þeir kynoki sjer við að játa það.