03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

15. mál, útflutningsgjald

Magnús Pjetursson:

Jeg þarf litlu að svara háttv. þm. Ak. (M. K.). Það á við þar gamla máltækið, „klipt er það, skorið er það“, en það eitt vil jeg segja, að kjósendur mínir í Strandasýslu hafa ekkert umboð gefið mjer í þessu máli, sennilega af því, að þeim hefir ekki getað komið til hugar, að slíkt frv. og þetta yrði lagt fyrir þingið. En jeg vil svara háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) nokkru, því að hann var þó með þessu „eintali sálarinnar“ að reyna að verja það fyrir samvisku sinni, hví hann hefði snúist í málinu. Auðvitað fórst honum allólipurlega, sem við var að búast. Aðalástæðan var sú, að hann vildi skila fjárlögunum tekjuhallalausum; en hví var hann þá á móti þessu gjaldi í fyrra, þegar tekjuhallinn var tífaldur við það sem hann nú er?

Háttv. 4. þm. Reykv. (M J.) skaut því inn, hvort tekjuskatturinn mundi koma jafnfljótt inn sem þetta gjald. En háttv. 1. þm. Rang. getur ekki verið að tala um annað en útlitið í ár, svo að tekjuskatturinn verður hærri 1923, beri útgerðin og aðrir atvinnuvegir sig vel í ár. Skatturinn kemur því inn á sama ári og útflutningsgjaldið. — Háttv. 1. þm. Rang. sagðist ekki brjóta „princip“ sitt, en það stappar nú nærri því, ef hann greiðir atkv. móti „principum“ sínum.