08.04.1922
Efri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

15. mál, útflutningsgjald

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Það gladdi mig, að enginn hefir mótmælt því, að frv. um útflutningsgjaldið yrði samþykt. Jeg verð að skýra frá því, að jeg hefi leitað mjer upplýsinga um, hversu mikið þetta útflutningsgjald er, eða hefir verið 1921. Samkvæmt lögum frá því ári átti að greiða útflutningsgjald af síld, sem næmi 386952 krónum. En hið almenna útflutningsgjald hefir numið, eftir þeim skýrslum, sem fram hafa komið, 244344 krónum. En sá galli er á þessari upphæð, að þar er ekki talið með útflutningsgjaldið fyrir Vestmannaeyjar, því að skýrslu um það vantaði. Hefir það líklega verið talsvert mikið, en enginn veit, hvað klukkan er, þar sem hana vantar. Jeg hefi fengið þessar upplýsingar hjá fjármálastjórninni, og er því ekki unt að vefengja þær.

Sjest nú ljóslega, hve ósanngjarnt útflutningsgjaldið er af síldinni, þar sem útflutningsgjaldið af henni er 386952 kr., en alt útflutningsgjaldið, aðeins að frádregnu útflutningsgjaldinu frá Vestmannaeyjum, er ekki meira en 244344 krónur.