21.04.1922
Efri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

18. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg stend hjer upp út af því, að mjer virtist kenna nokkurs misskilnings um það, hvernig beri að skilja 3. gr. Það er bannað öðrum en íslenskum ríkisborgurum að flytja í land og selja síld. Er það hið sama og kemur fram í tilsk. 1872. Hinsvegar hefir það verið skilið svo, að útlendingum sje eigi bannað að flytja í land síldina og selja hana fastakaupmönnum. Þessu hefir eigi verið breytt. Nefndin lítur svo á, að þó að gerður sje fastur samningur af útlendum kaupmönnum um að kaupa alla veiðina, þá verður eigi skoðað sem þeir hafi fast aðsetur hjer, og falla þeir því eigi undir fyrri part greinarinnar. Hefir þannig verið litið á og því þannig framfylgt um þorskveiði, en ekki síldveiði. Tek jeg þetta fram til þess að fyrirbyggja misskilning um þetta atriði.