27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta litla frv. er til þess fram borið að skjóta á frest um eitt ár að gera endanlega ákvörðun um seðlaútgáfu í landinu, vegna þess að tími vanst ekki til að athuga það mál nánar. Er þetta gert í samráði við Landsbankann og með hans samþykki, enda er ekki líklegt, að mikla seðlaútgáfu þurfi umfram það, sem nú er heimilað, og þá aðeins skamman tíma af árinu, en þá getur stjórnin gert þær ráðstafanir, er hentastar þykja, þó þannig, að sá banki, sem tæki slíka seðlaútgáfu að sjer, hafi ekki gróða af. Þetta ákvæði er sett til þess að halda niðri seðlamergðinni, því að eins og allir vita er það hættulegt, að hún sje aukin meira en það, sem viðskiftaþörfin krefst minst.

Hitt aðalatriði frv. er að lina í nokkru afgjaldsákvæði Íslandsbanka af seðlunum, vegna þess að það er ekki sanngjarnt, að hann greiði fult gjald af málmtrygðum seðlum, enda er öllum betra, að seðlarnir sjeu málmtrygðir, og ætti því ekki að rýra þá hvöt, er bankinn hefir til þess. Hitt þótti heldur ekki rjett, að bankinn hefði ekki neitt fyrir útgáfukostnað seðlanna og áhættu við að lána þá út. Eru honum því ætluð 2%–1% fyrir prentunarkostnað og 1% fyrir áhættu. En til þess þó, að nokkuð kæmi á móti þessari linun, hefir bankinn lofað að setja niður forvöxtu sína um 1% um leið og lögin ganga í gildi. Ætti því heldur að hraða fyrir frv., svo þetta mætti sem fyrst komast í framkvæmd.

Í sambandi við þetta vil jeg taka það fram, að stjórnin hefir ákveðið að kaupa ekki hluti í Íslandsbanka; þó er það að engu gildandi fyrir næstu stjórn, og hefir hún óbundnar hendur í því máli.

Jeg vona, að frv. þessu verði vel tekið og legg til, að því verði að aflokinni þessari umræðu vísað til fjárhagsnefndar eða viðskiftamálanefndar, hvort sem háttv. deild vill fremur. Mjer stendur á sama hvor nefndin er.