27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Jakob Möller:

Jeg vildi spyrja hæstv. stjórn um eitt atriði, sem að vísu kemur líklega eigi því við, hvort lögin frá 31. maí eru í gildi eður eigi, en þó hygg jeg, að geti orðið skiftar skoðanir um það. Þetta atriði er vanefndirnar á því að flytja gullforðann heim. Í lögum þessum er ákveðið, að hann skuli geymdur í Reykjavík, og þingið í fyrra var því mjög eindregið fylgjandi, að hann yrði fluttur heim. En um það veit jeg ekki, hvort stjórnin eða bankinn á hjer sökina. Eigi bankinn hana, er um vanefndir að ræða, sem vafasamt er, hvort ekki yrðu þess valdandi, að lögin yrðu að teljast úr gildi fallin. Hins vegar efast jeg ekki um, að stjórnin vilji þá heldur taka á sig sökina. En hvers vegna hefir gullforðinn ekki verið fluttur heim?

Annars hefi jeg lítið að segja um þetta frv. annað en gott eitt. Sjálfsagt óráðlegt að skipa endanlega um seðlaútgáfuna á þessu þingi; til þess er málið of vandasamt.

Við 2. gr. frv. sýnist mjer jeg kannast. Mun hún talsvert svipuð till. minni í fyrra, sem þá fjekk lítinn byr hjá þinginu og hæstv. stjórn. En þó er hjer lengra farið en jeg gerði.