27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Sveinn Ólafsson:

Það er líklega nokkuð snemt að skera upp úr um þetta frv. enn sem komið er, en jeg vil þó með fáeinum orðum láta afstöðu mína í ljós.

Jeg get ekki litið öðruvísi á en hjer sje að ræða um kaupskapartilboð af hálfu Íslandsbanka, sem í raun rjettri hefir ekkert annað að geyma en ívilnanir við bankann. Það er hjer af hendi bankans boðist til að færa niður útlánsvextina gegn þessum ívilnunum. Jeg skal játa, að það er freistandi fyrir þá, sem hafa mikil viðskifti við bankann og sæta illum vaxtakjörum, að ganga að þessu tilboði, en hyggilegast mun vera að hrapa hjer ekki að neinu. Jeg er samdóma háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) í því, að það beri að líta á, hvort ekki megi finna aðrar leiðir til vaxtalækkunar, en þótt það yrði ekki auðið, þá held jeg, að það muni orka mjög tvímælis, hvort rjett sje að ganga að þessum kostum.

Hvað snertir þörfina, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) gat um að væri til að tryggja sjer að nægir seðlar sjeu í veltunni til að fullnægja viðskiftaþörfinni, þá er því að svara, að í lögunum frá 30. maí 1921 er einmitt gert ráð fyrir þessu og stjórninni gefin heimild til að auka við upphæð seðlanna, ef hún reyndist of lág. En það sem jeg vildi þó einkum vekja athygli manna á, er það að það virðist mjög óheppilegt, einmitt á þeim tíma, sem verið er að reyna að hefja gengi íslensku krónunnar, að láta vera meir en hófi gegnir í umferð af þeim gjaldeyri, sem þegar er fallinn í verði og átt hefir svo mikinn þátt í lággenginu. Þrátt fyrir þetta mun jeg þó greiða atkv. mitt með því, að þessu máli verði vísað til nefndar og athugað þar frekar, en vafasamara er, að jeg geti fylgt því að lokum.