20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Forsætisráðherra (S. E.):

Það eru aðeins örstuttar athugasemdir, sem jeg vildi gera á þessu stigi málsins.

Jeg skal þá fyrst taka það fram, að jeg er sammála háttv. þm. Borgf. (P. O.) um það, að útlánsvextir Íslandsbanka eru altof háir. Hefir stjórnin líka þegar tekið þetta til yfirvegunar og mun hún gera alt, sem unt verður, til að láta lækka vextina hið allra bráðasta. Hefi jeg enda talað nýlega um þetta við einn bankastjórann og hann tekið því vel. Er og ákveðið að kalla bankastjórana á fund á morgun til að ræða þetta mál.

Annars skal jeg að öðru leyti ekki fara inn á það, hvað ráðið hefir því, að vextirnir hafa verið svo háir í Íslandsbanka, en að líkindum ræður, að getgáta háttv. þm. Borgf., um að þetta hafi verið gert til þess að jafna tap bankans, sje rjett.

Þá get jeg tekið undir það með hv. þm. Borgf., að óheppilegt sje og óhafandi, að bankaráð Íslandsbanka láti lítið eða ekkert til sín taka, eins og verið hefir fram til síðustu tíma. Af þessu hefir það leitt, að þegar þingið hefir átt að velja þessa fulltrúa sína, þá hefir það ekki tekið eins og skyldi tillit til þeirra eiginleika og þekkingar, sem slíkir menn þurfa að hafa. Jeg skal í þessu sambandi leyfa mjer að benda á það, að þegar bankamálin voru í fyrravetur til umr. í Ed., þá lagði jeg og háttv. þm. Snæf. (H. St.) mikla áherslu á það, að bankaráðið hefði meiri afskifti af bankanum en tíðkast hefði. Hefir skoðun mín á því máli í engu breyst. Jeg lít svo á, að bankaráðið hafi mjög ábyrgðarmikla skyldu að inna af hendi í samráði við stjórn bankans, og er vonandi, að samvinna þeirra komist nú í viðeigandi og viðunandi horf.

Það var aðeins þetta, sem jeg vildi hafa tekið fram, að stjórnin er öll sammála um það, að vextina beri að lækka, og mun gera alt, sem unt er til að það verði sem fyrst.