20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Gunnar Sigurðsson:

Jeg bar fram þá till. í fyrra, að stjórnin hlutaðist til um, að bankarnir lækkuðu vexti. Varð það og skömmu síðar, að Landsbankinn lækkaði vextina, en Íslandsbanki hefir enn ekki gert það. Var stjórninni þó í lófa lagið, þegar hún hljóp undir bagga með bankanum, að láta hann lækka vextina. Jeg ætla ekki að fara neitt ítarlega út í málið að sinni, en verð þó að lýsa yfir því, að jeg er ósammála þeirri grundvallarskoðun háttv. þm. Borgf. (P. O.), að rjettmætt sje að draga seðlana ört inn. Það er að fara úr öskunni í eldinn, þó kunna megi að segja, að of mikið hefði verið gefið út af seðlum. Hv. þm. Borgf. (P. O.) talaði um það, að gróði Íslandsbanka síðustu árin væri í mesta máta óeðlilegur. Ja, það kann að vera, að svo sje, en jeg vil hinsvegar benda háttv. þm. á það, að bankinn hefir einnig orðið fyrir gífurlegu tapi þessi síðustu ár. Annars er jafnan best á slíkum tímum sem þessum að fara ekki óðslega að neinu, en yfirvega alt með gætni. Það er bersýnilegt, að ef nú yrði rasað að því að draga inn seðlana, þá myndi það koma harðast niður á atvinnuvegum landsins; það gæti orðið til að leggja þá á höggstokkinn. Háttv. þm. (P. O.) tók fram, að hann treysti engri stjórn til að hafa í hendi sjer vald til þess að auka seðlaútgáfuna úr því, sem nú er, og mátti heyra af orðum hans, að hann óttaðist, að hún kynni að draga taum bankans. En jeg vil benda þessum háttv. þm. á það, að í frv. stendur, að stjórnin skuli haga seðlaaukningunni þannig, að banki sá, sem tekur útgáfu seðlanna að sjer, hafi hvorki ábata nje halla af henni. Ætti því að vera ástæðulaust að óttast neitt.

Annars held jeg, að ekki sje heppilegt að hrapa að neinum bráðum breytingum á peningamálunum eins og stendur. Atvinnuvegir landsins eru svo háðir Íslandsbanka, að hættulegt getur verið að veikja hann of mikið, úr því þingið á annað borð vildi hlaupa undir bagga með honum. Jeg er því stefnu þessa frv. samþykkur, þótt jeg hins vegar sje því fylgjandi, að peningamálin í heild sinni verði smátt og smátt í framtíðinni færð í gamlar skorður.