20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Magnús Guðmundsson:

Þar sem jeg hafi borið frv. þetta fram, þá tel jeg mig ekki geta hjá því komist að segja nokkur orð út af framkomnum andmælum gegn því.

Jeg kem þá fyrst að því, að háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði í ræðu sinni áðan, að bankinn hafi verið samþykkur ákvæðum þeim í bankamálunum, sem gerð voru í fyrra og nú hefir verið rætt um. Það er satt, að bankinn samþykti þessi ákvæði, en hann var samt sem áður ekki ánægður með þau. Og að hann nokkurntíma gekk að þeim, mun hafa stafað af því, að hann sá, að hann gæti unnið þann halla, sem hann yrði fyrir, upp á annan hátt, sem sje með því að lækka ekki vextina. Jeg verð að kannast við að eðlilegt sje, að bankanum þyki það ósanngjarnt að ætlast er til, að hann borgi fult útlánsgjald af seðlum þeim, sem gulltrygðir eru. Verður líka tæplega annað sagt en að slíkt verði dágóð verslun fyrir landið. Annars hefir bankinn lofað að setja niður vextina um 1%, ef frv. þetta, sem hjer er á ferðinni, verður samþykt. Þetta eru samningar mínir við bankann, og þarf því ekki að tala um þetta sem neina óvissu.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) talaði um það, að bankaráðið hefði átt að láta lækka vextina. Það getur vel verið, en hins vegar verður það ekki talin mín skuld að svo hefir ekki orðið, því að ekki á jeg sæti í bankaráðinu. Annars verður happadrýgst hjer sem víðar, eins og jeg hefi bent á áður, að vera sanngjarn sjálfur, ef maður ætlast til sanngirni af öðrum.

Það er alls ekki tilgangur þessa frv. að auka seðlaútgáfuna, heldur aðeins að sjá um það, að seðla vanti ekki til viðskiftanna. Það er ekki gott að sjá það fyrir, hve fljótt gengur að selja afurðir landsins, en á því veltur að miklu leyti, hve mikið þarf af seðlum. Þykist jeg þess fullviss, að ekki þurfi færri seðla í veltuna hjer á landi hlutfallslega en í öðrum löndum, því rekstur atvinnuvega vorra er bæði kostnaðarmikill og dregst oft lengi að selja afurðirnar. Þetta ber þó ekki að skilja svo, að jeg sje að mæla með aukinni seðlaútgáfu, en hitt dylst mjer ekki, að óráð sje að draga seðlana mjög ört inn aftur, því slíkt gæti auðveldlega valdið stórtjóni atvinnuvegum landsins.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði, að hann tryði engri stjórn til þess að fara með seðlaútgáfuna, og vil jeg þá spyrja háttv. þm. um það, hverjum hann vill þá trúa fyrir þessu. (P. O.: Þinginu). Þingið er að mínu áliti ekki heppilegra til þessa en stjórnin, því að það situr ekki á rökstólum, þegar aukningar þarf helst, en það er á haustin.

En til þessara laga má fyrst grípa eftir að allir aðrir möguleikar eru tæmdir, og jeg býst ekki við, að bankinn muni þurfa á meiri seðlaútgáfu að halda en gert er ráð fyrir í gildandi lögum.

Ágreiningurinn, sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) nefndi, milli landsstjórnarinnar og bankans, er um alt annað efni en þetta frv. En dómurinn um þann ágreining mundi skapa fordæmi um gjaldið til ríkissjóðs yfirleitt.

Það er rjett hjá hæstv. forsætisráðherra (S. E.), að það er gert ráð fyrir, að hann sje formaður bankaráðsins, og liggur því beint við að beina fyrirspurnum til hans, Jeg get tekið undir með hv. þm. Borgf. (P. O.) um, að bankaráðið hefir látið alt of lítið til sín taka, og er það háttv. Alþingi að kenna, eins og hann tók fram. En hvað stoðar að fást um það? Það er alhægt að halda hrókaræður um þetta hjer á þingi, en vextirnir lækka ekki við það. Mjer þykir það því hálfhart að fá ámæli fyrir að flytja þetta frv., sem veldur því, að vextirnir verða settir niður um 1%, og sparar landsmönnum þannig hjer um bil 150000 kr. á ári, gegn því, að ríkissjóður gefi eftir 10–20 þús. á ári. Er jeg þá ámælisverður fyrir að spara landsmönnum þannig á annað hundrað þúsund kr. á ári? Og eru mínar gerðir verri fyrir það, að bankaráðið hefir ekki gert það, sem það átti að gera? Var það ekki skylda mín að sjá um vaxtalækkunina, fyrst bankaráðið gerði það ekki? Jeg lít svo á, og jeg hefi farið þá einu leið, sem fær var fyrir mig, samningaleiðina, og hún hefir hepnast mjer þannig, að jeg hefi fengið 150 þús. á ári handa landsmönnum, gegn 10–20 þús. kr. úr ríkissjóði. Hvort er nú betra að koma þessu í framkvæmd eða halda langar ræður hjer um skyldur bankaráðsins, skyldur, sem Alþingi á sjálft sök á, að ekki hafa verið uppfyltar? Ef hin nýja stjórn getur fengið lækkaða vextina án þessa frv., þá er alt gott, þá má það falla. En jeg fullyrði, að stjórnin geti það ekki. Og verði frv. þetta felt, hefir þingið mikið fje af landsmönnum. Alt tal um óhæfilega seðlaútgáfu er óviðkomandi þessu frv. Annars má geta þess, að það, sem ríkissjóður gefur eftir samkv. frv. þessu, er ekki annað en það, sem bankinn á sanngirniskröfu á, því að hann þarf að hafa eitthvað fyrir áhættu af útgáfu og útlánum seðla, og það er ósanngjarnt, að hann borgi af því, sem gulltrygt er, því að gullið liggur hjá honum vaxtalaust.

Í hinni nýju reglugerð bankans er ákveðið, að einungis þeir menn, sem hjer eru búsettir eða í nágrenninu, geti orðið bankaráðsmeðlimir. Sömuleiðis er kjörtíminn lengdur, svo hann á að vera 12 ár. Með því ynnist, að bankaráðsmennirnir hefðu nánari kynni af ástæðum bankans og meiri hvöt til að skifta sjer af þeim.