20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Jakob Möller:

Jeg vil leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir út af því, sem nú hefir verið sagt.

Jeg skal þá fyrst taka í streng með háttv. þm. Dala. (B. J.), að jeg álít að hræðsla sú við seðlaútgáfuna, sem hjer hefir bólað talsvert á, sje á misskilningi bygð, og ekki sje hægt að kenna seðlunum um fjárhagsvandræðin.

Jeg veit ekki til, að neinsstaðar hafi verið reynt að fastákveða seðlaútgáfuna, nema á Frakklandi. Og þar reyndist það þó ómögulegt og varð brátt að hækka markið úr 8–9 miljörðum alt upp í 24 miljarða.

Gull hefir nú ekki verið í umferð um langt skeið vegna afleiðinga stríðsins, og meðan það getur ekki verið það, er ekki hægt að fastbinda seðlaútgáfuna við neina ákveðna upphæð. Það er misskilningur, að hægt sje að miða seðlaþörfina við vöruveltuna, sem vitanlega er líka breytileg, og því eigi hægt að vita um fyrirfram. Og auðvitað rangt, að seðlaþörfin minki að sjálfsögðu með viðskiftaveltunni á einu ári.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði, að samanborið við viðskiftaveltuna 1916, ættu 4 milj. í seðlum að nægja nú, en þetta er ekki rjett. Í Danmörku t. d. var viðskiftaveltan 1920 á 5. miljarð, en 1921 á 3. miljarð, en seðlafúlgan minkaði aðeins um 100 miljónir eða nálægt 1/5. Seðlaþörfin fer lítið eftir út- og innflutningi, því að í millilandaviðskiftum eru ekki notaðir seðlar. Það eru innanlandsviðskiftin, sem mestu ráða um það, hve mikla seðla þarf í umferð. Verður það þess vegna aðallega verðlagið innanlands og kaupgjaldið, sem ræður mestu um seðlaþörfina, því að eftir því fer það, hvað mikið af peningum þjóðin hefir og þarf að hafa handa á milli. En það er alkunnugt, að verðlag alment og kaupgjald hefir mjög lítið lækkað enn hjer á landi, og því er þess ekki að vænta, að seðlaþörfin eða seðlaútgáfan hafi minkað stórkostlega.

Þá hefir verið talað um seðlaþörf Íslendinga, borið saman við aðrar þjóðir. En því er svo varið, að við höfum lægri upphæð á mann í seðlum en aðrar Norðurlanda þjóðirnar, og það þó að miðað sje við hámark seðlaútgáfunnar hjer. Í Danmörku voru t. d. hátt á annað hundrað krónur á mann síðastl. ár, en hjer, þegar mest var úti af seðlum, þó neðan við 100 kr. Nú eru á fimta hundrað milj. kr. í umferð af seðlum í Danmörku, hjer rúmar 6 milj. Í Danmörku koma þá enn nokkuð á annað hundr. kr. á mann, en hjer aðeins um 70 eða minna. Í Noregi er seðlaútgáfan nokkru meiri en í Danmörku, en í Svíþjóð nokkru minni, og þó meiri á mann en hjer. Verðlag er þó miklu lægra, að minsta kosti bæði í Svíþjóð og Danmörku, en hjer.

Það lægi því nærri að segja, að seðlaútgáfan hjer væri óeðlilega lítil. Nú er það vafalaust rjett, að sjávarútvegurinn hjer á landi sje gjaldeyrisfrekari en t. d. atvinnuvegir Dana, að minsta kosti suma tíma árs. Þess vegna er mismunur á lágmarki og hámarki seðlaútgáfunnar hjer líka hlutfallslega miklu meiri en í Danmörku. Hinsvegar er landbúnaðurinn mjög spar á seðlana, vegna þess að þar er sem næst um vöruskiftaverslun að ræða.

Er því skiljanlegt, að útkoman verði sú, að gjaldeyrisþörfin verði minni hjer hjá oss en tiltölulega í öðrum löndum. En hinsvegar er engin ástæða til að láta það skelfa sig, þó að talfært sje, að meiri seðlaútgáfu kunni að verða þörf en heimilt er að hafa í umferð á þessu ári samkvæmt lögum frá í fyrra. Og það er með öllu tilgangslaust að einskorða seðlaútgáfuna við fastákveðna upphæð, svo sem jeg og benti á á síðasta þingi, því að komi það í ljós, að meiri seðla verði þörf, þá verður ekki eftir því farið. Og í raun og veru verða það altaf bankarnir, sem hljóta að ráða því, hvað mikil seðlaútgáfan er, vitanlega undir yfirstjórn landsstjórnarinnar. Og þessum aðiljum, sem seðlaútgáfunni ráða, er vafalaust nægilega ljós hættan, sem af of mikilli seðlaútgáfu getur leitt. Finst mjer því óhætt að láta hæstvirta landsstjórn hafa óbundnar hendur í þessu efni. Hinsvegar tel jeg það ekki sjerlega líklegt, að mikið meiri seðlaútgáfu verði þörf á þessu ári en nú er heimilað. Þess ber að gæta, að Landsbankinn hefir ekki haft sína seðla í umferð, en hann getur sett þá í umferð hvenær sem hann vill. Og jeg tel rjett að árjetta orð hv. frsm. nefndarinnar að því er þessa seðla snertir. Það er sem sje einróma álit nefndarinnar, að krónuseðlarnir, sem Landsbankinn gefur út, eigi ekki að teljast með eða vera innifaldir í þeim 750000 kr., sem Landsbankinn hefir útgáfurjett á. Krónuseðlana ber aðeins að skoða sem skiftimynt, sem ekkert komi við seðlaútgáfunni.

Þá skal jeg og geta þess, að mjer er kunnugt um það, að báðir bankamir eru ánægðir með brtt. nefndarinnar.

Eitt atriði vildi jeg enn minnast á, sem mjer fanst hv. þm. Borgf. (P. O.) ekki skilja rjett. Hann vildi halda því fram, að það hefði verið sett í lög á síðasta þingi, að Íslandsbanki skyldi greiða gjald af 62,5%, til þess að koma í veg fyrir misskilning. Þetta er ekki rjett. Þetta var ekki þannig ákveðið í því skyni aðeins, heldur jafnframt í því skyni, að bankinn yrði að greiða gjaldið af þessum ákveðna hluta seðlaútgáfunnar, eins þó að hann hefði gullforða nægan til að tryggja alla seðlana. Það er rjett, að misskilningur hefir verið um það, hvernig málmtryggingin skyldi samsett. Því hefir verið haldið fram, að nægilegt væri að safna inneign í erlendum bönkum, þótt sú inneign stæði ekki í rjettu hlutfalli við gullforðann, eftir því sem stendur í ákvæðum frá 1905, sem sje að tryggingin skyldi vera ¾ málmur og ¼ inneign í erlendum bönkum. Að því lýtur nefndarálitið, er tekur það fram, að inneign í erlendum bönkum, umfram það, sem lögákveðið er, geti ekki komið til greina sem seðlatrygging, þegar reiknað er gjaldið til ríkissjóðs. Jeg held að eins og þetta er orðað í frv., verði það ekki misskilið. Hinsvegar mun dómur skera úr deilunni, sem um þetta er frá fyrri tíð. Málið er þegar hafið, þótt ekki muni vera enn langt á veg komið. Lög frá síðasta þingi ákveða, að Íslandsbanki megi ekki hafa meira en 8 miljónir kr. í seðlum í umferð 31. okt. þ. á. Til þess tíma hefir hann óbundnar hendur og má hafa eins mikið af seðlum í umferð og hann vill. En það er engin ástæða til að óttast þá seðlaútgáfu hans, því að samkvæmt brtt. nefndarinnar á ekki að vera hægt að fela honum frekari seðlaútgáfu (yfir 8 milj.) eftir 31. okt. Hann verður því að hafa vaðið fyrir neðan sig. En yrði meira af seðlum í umferð hjá honum 31. okt. en 8 milj., þá verður vitanlega að fara varlega í það að láta hann innkalla þá seðla.

Það væri áreiðanlega skaðlegt að hindra seðlaútgáfuna eða setja skorður fyrir, að hægt yrði að fullnægja þörfum. Slíkt gæti orðið atvinnuvegunum til meira tjóns en þótt hún væri dálítið framyfir brýnar þarfir. Seðlaútgáfan skaðar ekki fyr en þá að farið er t. d. að nota seðlana til að halda uppi fyrirtækjum, sem ekki geta borgað sig. En slíkt er í rauninni ekki rjett að kenna seðlaútgáfunni. Lánveitingar til slíkra fyrirtækja geta verið misjafnlega ráðnar, en sje þar óvarlega farið að, þá er fyrst og fremst óvarlegri bankastjórn um að kenna, og getur vitanlega orðið stórtjón að slíku, þó að seðlarnir sjeu fullkomlega í hófi.