24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Björn Kristjánsson:

Jeg hafði ekki búist við því á síðasta þingi, eins mikið og haft var fyrir bankamálunum þá, að nú yrði farið að ræða um sama efni. Þá var gerður fullnaðarsamningur við Íslandsbanka fyrir þann tíma, sem eftir er af seðlarjettartímanum, sem bankastjórnin samþykti og hluthafar þar á eftir samþyktu.

Fult samkomulag var komið á. Og menn muna eflaust eftir því, hvað örðugt var að fá þingið til að gera bankann ánægðan.

Þess vegna verð jeg að álíta það mikla ónærgætni af bankanum og stjórninni að fara að demba þessu máli enn inn í þingið, án þess að gera nokkra greinargerð, svo teljandi sje, fyrir því, að þess sje þörf.

Á jeg þar sjerstaklega við þörfina á meiri seðlaútgáfu en gert er ráð fyrir í lögunum frá síðasta þingi.

Menn geta nú orðið væntanlega greint á milli gjaldmiðilsþarfar og lánsþarfar. Svo mikið hefir verið um það ritað bæði af mjer og öðrum.

Og ef gjaldmiðilsþörfin er athuguð, þá má ganga út frá því, að hún sje um 1/3 minni hjer en í nágrannalöndunum, samanber álit þjóðbankans danska e. 45 1901. Kemur það bæði til af minni efnahag yfirleitt, en þó einkum af því, að við rekum enn víðtæka vöruskiftaverslun, sem fremur hefir aukist en minkað síðan kaupfjelögunum fjölgaði. Þar af leiðir, að mikið er minna um peninga manna á milli til sveita en erlendis.

En í kaupstöðunum má segja, að peningarnir fari jafnharðan inn í bankana og þeir fara út úr þeim.

Það eru aðeins laun embættismanna, sem smátínast inn í bankana aftur á mánaðarfresti, ef þeir þá ekki borga með tjekk.

Alþýðan liggur ekki með peningana heima, svo neinu verulegu nemi, og síst nú.

Ef vjer nú miðum við nágrannalöndin, þá var gjaldmiðilsþörf þeirra í október 1913 og 1921 eins og hjer segir, en miðað er við að 1913 hafi gjaldmiðill að 14 hluta verið í gulli og erlendum gjaldmiðli:

1913 1921

Danmörk: 182 milj. 496 milj.

Svíaríki: 314 — 679 —

Noregur: 144 — 418 —

Sviss: 417 — 941 —

Ísland: 3 — 8,6 —

Menn sjá af þessu, að Ísland hefir 1921 í október haft gjaldmiðil úti álíka mikinn eins og nágrannalöndin hafa haft mest.

En sje miðað við gjaldmiðilsþörfina, þá mun óhætt að segja, að verið hafi um 1/3 meira úti en sönn gjaldmiðils-viðskiftaþörf krafði.

Og það vill svo til, að þetta má sanna með undanfarandi reynslu bankanna sjálfra og reikningum þeirra.

Það er eftirtektarvert, að það má fara mjög nærri um gjaldmiðilsþörfina hjer, er hún er miðuð við verslunarveltuna við útlönd í prósentum.

Að vísu raskast þetta hlutfall dálítið þannig, að prósenturnar lækka, eftir því sem veltan er hærri, ef ekki er gefið of mikið út af seðlunum. Verslunarveltan við útlönd og gjaldmiðilsþörfin var:

Verslunarvelta. Seðlar hæst í umferð

1911 kr. 29700000 2295000 8%

1912 — 31900000 2500000 8%

1913 — 35800000 2855000 8%

1914 — 38900000 2955000 7½%

1915 — 65800000 4620000 7%

En árið 1921 hefir verslunarveltan aldrei getað yfirstigið 62 miljónir. Samkvæmt því getur sönn gjaldmiðilsþörf aldrei orðið 8 miljónir, hvað þá meira, er miðað er við þörfina 1915.

Þrátt fyrir hið lága gengi á íslenskri krónu nú, hefir verð útlendrar vöru stórfallið síðan í fyrra. Allir vita um kol, olíur og salt. Ullarvörur nýinnfluttar eru nú seldar fyrir helmings verð á móts við fyrra ár. Baðmullarvörur miklu lægri en í fyrra. Dýrtíðaruppbót miklu lægri o. s. frv. Alt þetta skapar minni gjaldmiðilsþörf.

Það er eins og menn hjer taki sjer það afskaplega ljett, þó gefið sje út of mikið af óinnleysanlegum seðlum. Og það er af því, að menn hafa lánsþörfina, sanna eða ímyndaða, fyrir augum. Hana verður altaf að seðja, hvernig sem á stendur. Og menn líta á seðlana, þjóðskuldina, sem peninga.

Allir bankafræðingar telja, að hver óinnleysanlegur seðill, sem gefinn er út umfram sanna gjaldmiðilsþörf, eða umfram það, sem þurfa mundi af gulli og silfri til viðskifta innanlands, felli seðlana í verði um jafnmikið og ónauðsynlega er gefið út af þeim. Þannig falla þá seðlarnir í verði ofan í helming, ef helmingi meira er gefið út af þeim en þörf er á. Og þessi skattur er lagður á þjóðina henni óafvitandi og kemur fram sem aukin dýrtíð.

Allir hlutir stíga í verði, og allir vilja „spekulera“, er verðið fer hækkandi. Og eftirspurnin eftir seðlum vex að sama skapi.

Og vitanlega missa seðlarnir traustið erlendis, eins og Íslandsbankaseðlarnir hafa gert.

Menn segja, að seðlarnir hafi ekki áhrif á gengið erlendis eða lánstraustið þar, ef nóg sje framleitt og útflutt til að borga með dægurskuldirnar og aðrar.

Við þetta er ýmislegt að athuga, og eigi nema hálfur sannleikur. Ef allir hlutir og verkalaun, sem nota verður við framleiðsluna innanlands, stíga vegna of mikillar seðlaútgáfu, þá heftist framleiðslan og minkar. Útflutningurinn minkar, það er staðreynd, og aðflutningarnir vaxa, vegna vaxandi kauplystar.

En svo er annað. Sje landinu illa stjórnað að þessu leyti, þá missir það traustið með því að gefa út of mikið af óinnleysanlegum seðlum. Þjóðskuldin vex eðlilega við það, sem bætist við aðrar þjóðarskuldir. Og hvaða þýðingu hefir það þá, þó landið kunni í bili að geta staðið í skilum erlendis, ef erlendir fjármálamenn álíta að peningamál landsins sjeu þannig undirbygð, að það geti komist í verstu kreppu, hvenær sem eitthvað ber út af?

Við höfum ljóst dæmi fyrir okkur.

Að stríðinu loknu voru hjer tvennskonar seðlar í umferð, eins og áður, Landsbankaseðlar og Íslandsbankaseðlar. Landsbankaseðlarnir seldust í Danmörku með 1% afföllum, en Íslandsbankaseðlarnir með um 20% afföllum. Landsbankinn varð því að hætta að láta seðlana vera í umferð, af því að þeir voru stöðugt á ferðinni fram og aftur, og stofnuðu nýja og nýja skuld erlendis í hvert skifti sem þeir voru sendir út. Hvað var nú sem olli þessum verðmun eða gengismun? Landsbankaseðlarnir hjeldust í fullu verði af því, að fjármálamennirnir erlendis vissu, að svo lítið var gefið út af þeim, að Landsbankinn mundi ávalt vera fær um að leysa þá inn, jafnvel þó þeir kæmu þangað oftar en einu sinni á ári. En þvert á móti var álitið á Íslandsbankaseðlunum, af því of mikið var í umferð af þeim, og bankanum því ekki treyst til að geta innleyst þá. Svo er um rúblurnar og mörkin og svo framvegis.

Og samt hugsa sumir menn, að útgáfa óinnleysanlegra seðla hafi ekki áhrif á gengið erlendis. Menn ættu að sjá það af þessu.

Og vel get jeg búist við því, að frumvarp þetta, ef það nær fram að ganga óbreytt, verði til þess að fella seðlana enn meira í verði erlendis.

Í dómum mínum um gjaldmiðilsþörfina byggi jeg vitanlega ekkert á áliti viðkomandi bankastjóra; þeir hugsa um það eitt að græða fyrir stofnunina. Og á upplýsingum þeirra byggir ekkert þing erlendis nje nein stjórn. Það er svo freistandi fyrir bankastjórn að fá seðla að láni hjá þjóðinni, sem bankinn getur grætt á 5–6%, og þegar ofan á það bætist líka, að hún sjálf á að fá ágóðahluta af gróðanum, sem illu heilli hefir slæðst inn í reglugerð bankans og ekki fæst leiðrjett.

En þó jeg vildi byggja á slíkum upplýsingum, þá verður niðurstaðan hin sama.

Seðlar Íslandsbanka 1921 voru sem hjer segir:

Ágúst kr. 7777505.

September kr. 9052205.

Október kr. 8646205.

Nóvember kr. 7771205.

Hæsta seðlaupphæðin var úti í september, um 9 miljónir.

Nú hefi jeg bent á, hvað alt hefir fallið í verði síðan í fyrra. Getur þá nokkur dregið í efa, að 8 miljónir króna verði nægar í haust 31. október. Og þess utan eru Landsbankaseðlarnir, þrír fjórðu milj., sem nú má setja í veltu, er alment gengi er komið á íslenska krónu.

Hvað veldur þessari seðlabeiðni bankans?

Er það til að fá seðla til að spekulera með eins og árin 1917–1921?

Mjer finst bankinn hafa fullreynt sig á því. Og ekkert er það annað en ofbeiting seðlanna, sem komið hefir bankanum og þjóðinni í núverandi fjárhagsástand. Að of mikið kapp var á það lagt að koma seðlunum út og græða á þeim.

Og það sannast ekki á bankanum orðtakið: „Brent barn forðast eldinn“. Því miður.

En eitt gæti verið ástæða, að bankinn óttaðist enn uppþot. En á þá að lækna það með óinnleysanlegum seðlum? Hvar verða takmörkin þá á seðlaútgáfunni? Jeg tel enga ástæðu vera fyrir þeirri hræðslu og tel miklu rjettara af almenningi að hjálpa ríkinu til að styðja bankann með því að flytja sparisjóðsfje sitt aftur í bankann, sem hann hefir mist.

Jeg segi þetta af því að svo er lögákveðið, að bankinn skuli draga inn alla seðla sína á tiltölulega stuttum tíma, því engum seðlabanka á annars að haldast uppi að hafa sparisjóð, eins og jeg hefi haldið fram.

Þess vegna getur hvorugur bankinn þessi tekið við seðlaútgáfunni, er hún losnar; það verður önnur stofnun að gera. Þá þykir sumum hart aðgöngu að láta bankann borga fulla forvexti af síðustu miljóninni; þeim þykir ósköp eðlilegt, að hann þurfi ekki að skila landssjóði 2% af forvöxtunum. Og á þetta að vera fyrir áhættu við útlánin og kostnað. En menn eins og loka augunum fyrir því, að bankinn tekur framlengingargjald, nærri því 1% nú, og aukaþóknun (provision) af ýmsum verslunarviðskiftum. Gróðann má því reikna 3%, og er það nægilegur gróði, þó 1% sje dregið frá fyrir seðlaprentun. Á venjulegum tímum þykir það nægilegur gróði t. d. af uppsegjanlegu sparisjóðsfje, ef vextir af því eru 2% lægri en útlánsvextir.

Með þessum kjörum, er frumvarpið ákveður, er því engin trygging fyrir því, að eigi sje gefið út of mikið af seðlum.

Menn sem sje athuga ekki, hvað er tilgangurinn með þessum skatti á síðustu seðlunum. Það er að tryggja þjóðina fyrir því, að bankinn gefi ekki út síðustu seðlana nema í bráðanauðsyn, svo ekki sje gefið út of mikið. Og það getur verið mikil hjálp fyrir banka að fá smálán til að geta staðið í skilum, jafnvel þótt hann beint tapi á því.

Þess vegna setja löndin ströng ákvæði um þetta efni.

Í seðlabankalögum Noregsbanka var fyrir 1912 fast ákvæði um hvað hann mátti gefa út umfram málmforða. Ef hann þurfti að gefa út meira, varð hann að borga í skatt 6% í ríkissjóð, sem þá mun hafa verið um 1% meira en almennir forvextir bankans. En auk þess varð hann að borga ½%fyrir annan mánuðinn, sem slíkir aukaseðlar voru í umferð, og ½% að auki fyrir næsta byrjaðan mánuð, sem hjelt svo áfram að hækka um ½% fyrir hvern byrjaðan mánuð.

Sömu reglu er fylgt í lögunum 1920.

Í Bandaríkjunum var fyrir 1912, og er sennilega enn, sú regla sett um slíka seðla, að fyrir 1. mánuðinn varð bankinn að borga 5% í ríkissjóð, sem mun hafa verið fylstu útlánsvextir þar, hækkandi um 1% fyrir hvern byrjaðan mánuð upp í 10%.

Sumir seðlabankar verða að takmarka seðlaútgáfuna á þann hátt, að leyfa ekki hluthöfum að fá nema svo og svo mikinn arð, sem altaf er lítill. Afgangurinn rennur í ríkissjóð. En engin takmörk eru sett um þetta í lögum Íslandsbanka, og því verður að velja hina leiðina, sem Norðmenn, Bandaríkin og fleiri nota.

Þessar hugleiðingar mínar miða ekki eingöngu að þessu frumvarpi, heldur til þess að rifja upp fyrir mönnum, hvers beri að gæta þegar gert verður út um hina endanlegu seðlaútgáfu, sem jeg vænti að eigi verði gert fyr en 1924. Og það er auðvitað margs annars að gæta, þegar það verður gert.

Þótt jeg sje alveg á móti því að raska grundvelli fyrra þings í þessu máli, sem var rjett og gætilega lagður, þá er jeg eigi ótilleiðanlegur til að ívilna bankanum enn nokkuð í afgjaldi seðlanna, en þó á annan hátt en gert er í frv.

Að endingu vil jeg benda á athugasemd, sem stóð í dönskum Finanstíðindum nr. 53, 29. september 1920, og hljóðar svo í íslenskri þýðingu:

„Mergð þjóðbankaseðlanna eykst frá mánuði til mánaðar og verðgildi krónunnar fellur eftir sama mælikvarða. Alt sem þarf að brúka stígur vikulega. Það er auma útlitið.

Pappírspeningarnir eru Danmerkur ógæfa nr. 1“.

Þetta er stuttorð lýsing, sönn spegilmynd af of mikilli útgáfu óinnleysanlegra seðla.

Og getum við ekki sagt það sama?

Seðlarnir eru Íslands ógæfa nr. 1, fjárhagslega og siðferðislega tekið.