15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Mál þetta er dálítið vandamál eins og öll þau mál, er lúta að seðlaútgáfu ríkisins. Skoðanir landsmanna og þingsins eru á reiki um það, hvað best sje að gera í þeim málum. Annars er þetta frv. ekki mjög yfirgripsmikið. Það sem öllum nefndarmönnum kom saman um, er það, að 1. málsgr. 1. gr. þurfi að breyta. Nefndin hefir sömuleiðis orðið sammála um 2. gr.gr. er í 3 liðum. Um a- og b-lið er það að segja, að þar er aðeins um orðabreytingu að ræða; aftur á móti er veruleg efnisbreyting á c-lið, þar sem gerð er breyting á því, hvaða forvexti bankinn á að greiða af þeim seðlum, sem hann kynni að gefa út umfram 7 miljónir. Seðlaútgáfan getur orðið hæst 8 milj. kr. og það aðeins til 31. okt. 1922, en frá 31. okt. 1922 til 31. okt. 1923 á bankinn að draga inn þessa 1 milj. Ekki er hægt að segja, hvað bankinn græðir á þessu, því það er á valdi stjórnarinnar, hvernig fer um inndrátt þessarar 1 milj., en þó græðir hann vitanlega eitthvað. Í notum þess, að þetta yrði samþykt, lofar bankinn að færa niður forvexti sína um 1%, svo þar yrði jafnt á komið og fyrir Landsbankanum; en eins og menn vita hefir Íslandsbanki haldið 1% meiri forvöxtum frá því í ágúst í sumar.

Nú höfum við nefndarmenn orðið sammála um að leggja til, að þessi gr. yrði samþykt, því hjer er aðeins um stuttan tíma að ræða, sem Íslandsbanki getur notið þessara hlunninda. En æskilegt væri, að hin hæstv. stjórn sjái um það, að ekki dragist að þessi vaxtalækkun fari fram, og full ástæða til, að það verði um næstkomandi mánaðamót. Enda lítur nefndin svo á, að ekki eigi að þurfa að kaupa þetta af bankanum.

Um þetta höfum við nefndarmenn allir orðið sammála, en frekara samkomulag hefir eigi fengist. Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að 2. málsgr. í 1. gr. verði samþykt, en samkvæmt henni á Landsbankinn að hafa á hendi nýja seðlaútgáfu, ef til kemur.

Jeg aftur á móti legg til, að þessi málsgr. sje látin falla niður og bið háttv. deild að athuga vel áður en hún samþykkir þessa gr., því undir henni er nokkuð komið. Áreiðanlega er þetta eitt af þeim fáu málum, sem tekið verður eftir víðar en á þessu landi.

Jeg vil mæla á móti því, að raskað sje þeim grundvelli, sem lagður var með lögum 31. maí 1921, en hjer er það gert á fleiri en einn hátt. Fyrst og fremst með seðlaútgáfunni að nú á að vera heimild til að auka hana og þeirri aukningu engin þau takmörk sett, sem gagn sje í. Þessu er jeg algerlega mótfallinn. Þá er ákvæðið um að flytja þessa seðlaútgáfu í Landsbankann.

Lög frá 1921 ákveða, að ríkið taki við seðlaútgáfunni jafnóðum og Íslandsbanki sleppir henni. En hjer er verið að reyna að smeygja því inn, að Landsbankinn verði seðlabanki landsins, án þess að það mál sje nægilega athugað af stjórn og þingi. Jeg legg þó ekki dóm á það, hvort hann eigi að verða það eða ekki, en sýnist þó, að á honum sjeu mjög hinir sömu ókostirnir til þessa starfs sem Íslandsbanka. Báðir bankarnir eru spekulationsbankar og fara báðir með mikið sparisjóðsfje, en hvorugt þetta hentar seðlaútgáfustofnun. Jeg vil að hæstv. stjórn sje óbundin um till. sínar á næsta þingi, hvernig seðlaútgáfunni verði heppilegast fyrir komið. Það hefir verið tekið fram af öðrum hjer í deildinni, að engin þörf væri á meiri seðlum en þeim, sem geti verið í umferð samkvæmt gildandi lögum, Íslandsbanki getur í öllu falli til 31. okt. í haust haft samkvæmt lögum 8 milj. í umferð; þar við bætist miljónar, sem Landsbankinn gefur út og þar að auki 300000 kr. í skiftimynt ríkissjóðs. Þetta alt gerir rúmar 9 miljónir króna. Samkvæmt reynslu síðastliðins árs er engin þörf á meiri seðlum, en við það bætist, að mikið verðfall hefir orðið á síðastliðnu ári á mörgum vörum; ætti það ennfremur að draga til muna úr seðlaþörfinni. Jeg legg því til, að hv. deild felli þessa 2. málsgr. 1. gr., og ber fram brtt. þess efnis. Æskilegt væri líka að heyra frekar um ráðstafanir stjórnarinnar viðvíkjandi Íslandsbanka. Þingið hefir ekki frjett, hvort það er tilætlun hæstv. stjórnar að taka hluti í bankanum eða ekki, en það þarf þingið að fá að vita. Ætli stjórnin ekki að gera það, virðast það vera traustsspjöll til bankans, því í lögunum er gert ráð fyrir að svo verði gert, ef stjórnin áliti það tiltækilegt. Í öllu falli má ekki minna vera en að þingið fái að vita, áður en því líkur, hvað hæstv. stjórn hefir gert og ætlar að gera í svo mikilsvarðandi máli.