15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg hefi litlu við að bæta í þessum umr. og vildi aðeins segja nokkur orð viðvíkjandi ræðu háttv. þm. Húnv. (G. Ó.). Hann benti á, að Landsbankinn væri ekki seðlabanki, heldur færi hann með seðla þá, sem ríkisstjórnin gæfi út. En nú er ætlast til þess, að bankinn verði seðlabanki og gefi út nýja seðla, ótiltekið hve mikið. Þetta er því einkennilegra, þar sem seðlar þeir, sem bankinn hefir frá ríkisstjórninni, eru geymdir undir einhverju fargi og koma ekki í umferð. Það ætti því að sýnast lítil þörf nýrra seðla. Og nú, þegar gengi er komið á íslenska krónu, er lítil nauðsyn til þess að halda seðlunum lengur í bankanum, og má því búast við, að þeir komi í umferð og auki seðlafúlguna. Það virðist því ekki vera seðlaskortur í þessu landi.

Viðvíkjandi ummælum hæstv. fjármálaráðh. (Magn. J.) vil jeg endurtaka það, að jeg tel ekki rjett, að þingið fari að smeygja inn þessu ákvæði, sem hjer er gert. Jeg hefi skýrt frá því svo að enginn hefir hrakið, að ekki er þörf á fleiri seðlum. En til þess að þóknast háttv. meiri hluta get jeg gengið í svipinn inn á þann lítt hugsanlega möguleika, að nauðsynlegt verði að gefa út fleiri seðla. Stjórnin á þá að geta smeygt sjer inn undir lítt hugsað ákvæði þingsins, í stað þess að taka sjálf á sig ábyrgðina. Jeg held, að það verði þó stjórninni fyrir bestu, að þingið gefi henni ekkert undir fótinn í þessu efni. Menn hafa eflaust orðið þess varir, að bankinn þykist stundum að þrotum kominn með seðla, er hann vill komast hjá óvarlegum lánveitingum, en þá hefir verið þrýst að stjórninni af þeim, sem lánin vildu fá. Gæti ekki líkt farið ennþá um þessa stjórn, sem við höfum nú, og slíkar málaleitanir styrkjast við það, að benda má á slíkt ákvæði þingsins.

Þá verð jeg að halda fast við það, að með frv. þessu sje raskað grundvelli laganna frá 1921. Hjer er að ræða um nýja heimild, nýja ótakmarkaða seðlaútgáfu. Seðlaþörfin er mest í sept. og okt., og þá er bankanum heimilt eftir lögum nr. 6, 1921, að hafa úti 8 milj. kr. nú á þessu sumri. En frá 31. okt. og þar til þing kemur næst saman er ekki fyrirsjáanlegt, að þörf sje fleiri seðla en leyfðir eru, því að þeir mánuðir eru yfirleitt ekki seðlafrekir. Það væri þessvegna alveg óhætt að láta þetta bíða til næsta þings. Lögin 1921 eru hjer fullnægjandi og er óþarft að raska grundvallarhugsun þeirra fyr en á þinginu 1923. Á þeim tíma gæti þá stjórnin athugað þetta mál og gert sjer það ljóst, hvaða fyrirkomulag er heppilegast.

Jeg benti á það í upphafi þessa máls, að þetta yrði eitt af þeim fáu málum, sem veitt yrði veruleg athygli, og það ekki síst í erlendum viðskiftaheimi okkar, og jeg vil biðja þing og stjórn að gjalda varhuga við því að auka um of seðlafúlgu landsins. Það væri óvit og verður þjóðinni til óheilla.