24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg þarf ekki að fjölyrða mikið um þetta litla frv. Það er fram borið af okkur þm. samkv. áskorunum á þingmálafundum úr báðum sýslunum. Ástæður með frv. taka fram þau rök, sem það byggist á, í fyrsta lagi er það sanngirniskrafa, sem þetta hjerað á, jafnt öðrum sýslum, sem fjárhagslega hefir verið skift og eru orðin einmenningskjördæmi, og á hinn bóginn leggur það engar hindranir í götu, hvaða kjördæmaskipun sem upp yrði tekin af þingi eða stjórn á sínum tíma. Virðist því ekki neitt því til fyrirstöðu, að mál þetta nái fram að ganga, og naumast frá nokkurri hlið haft á móti því.

Jeg skal að vísu geta þess, að skifting þessi er miðuð beinlínis við sýslumót, enda þótt nokkur munur sje á mannfjölda.

Og þó að í fljótu bragði virðist að sami sje atvinnureksturinn í báðum sýslunum og hagsmunir beggja aðilja líkir, þá er það þó ekki alveg rjett. Það eru ýms mál, er sýslur þessar hafa meðferðis og eiga ekki samleið. Að minsta kosti mun eitt það mál nú í uppsiglingu, er knýja mun fram þá nauðsyn, að hvor sýslan leggi kapp á að hafa sinn þingmann búsettan hjá sjer, og þó það ætti að vera hægt án þess að skifta kjördæminu, þá er þó hitt áreiðanlega tryggara, eins og reynslan hefir sýnt. Eins og stendur eru báðir þm. búsettir í annari sýslunni. Er þessi breyting því ekki bygð á öðru en hagsmunalegri skifting sýslnanna.

Vænti jeg því, að frv. þetta nái fram að ganga. Og af því að svipuð mál eru þegar fram komin og önnur líklega á leiðinni, mun rjett þykja að vísa því til nefndar, og geri jeg það þá að till. minni, að því verði vísað að umr. þessari lokinni til allsherjarnefndar.