03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, hefir allslhn. athugað og meiri hluti hennar fallist á að mæla með því, að hv. deild samþykki það. Skiftingin, sem frv. þetta fer fram á, er eindregin ósk beggja hluta Húnavatnssýslu. Það hefir verið til umræðu bæði í Vestur- og Austur-Húnavatnssýslu og í báðum stöðum samþykt með öllum greiddum atkvæðum að skora á þingmennina að fylgja þessu fram, og það svo, að breytingin verði komin í kring fyrir næstu kosningar til Alþingis. Ástæðan fyrir því, að báðir hlutar sýslunnar óska skiftingarinnar svo einróma, er sú, að þeir hafa aðskilinn fjárhag og því skiljanlega ýms ólík áhugamál. Þessvegna óska þeir eftir sínum þingmanninum hvor, svo sem títt er um aðrar sýslur með aðskilinn fjárhag, og má í því sambandi benda á Þingeyjarsýslur og Ísafjarðarsýslur. Meiri hluti nefndarinnar hefir því litið svo á, að samþykkja beri þetta frv. óbreytt. Þar sem það er eindregin ósk og vilji kjósendanna, þá er ekki ástæða fyrir löggjafarvaldið að setja sig á móti því, með því að þetta er með öllu útgjaldalaust og engin fjölgun á þingmönnum. Og þótt fyrirkomulag kjördæmaskiftingarinnar um land alt verði athugað og breytt síðarmeir, þá aukast ekkert erfiðleikarnir á væntanlegum breytingum, þótt þetta tvímenningskjördæmi verði gert að tveim sjerstökum kjördæmum.