03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Mjer skildist, að háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) væri annað veifið að andæfa þessu frv. eða vildi ógjarna að það hefði komið fram, vegna þess að gagngerð breyting á kjördæmaskipuninni stæði fyrir dyrum, og þetta frv. yrði þá óbeinlínis henni til tafar; en hinsvegar vildi hann láta kjósendur uppskera sem mest rjettlæti. En það hefir nú verið sýnt, að Húnvetningar eiga fylstu sanngirnis- og rjettlætiskröfu til þess, að þetta frv. nái fram að ganga. Mjer skilst því, að þessi háttv. þm. neiti því í öðru orðinu, sem hann játar í hinu. Annars er þetta mál ofureinfalt og ætti ekki að geta orðið deilumál, enda er jeg ekkert hræddur um, að það komist ekki hindrunarlaust leiðar sinnar, þar sem það hefir nú fengið góðan stuðning frá háttv. þm. Dala. (B. J.) og hæstv. forsrh. (J. M.).