03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Þórarinn Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að taka það fram, að jeg tel háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) ekki hafa haft neina ástæðu til þess að rísa öndverður við þessari tillögu.

Háttv. þingmaður segir að það sje rjett að beita ranglæti, til þess að fá meira rjettlæti síðar.

Í fyrsta lagi veit hann ekkert, hvort þetta rjettlæti muni fást.

Í öðru lagi vil jeg benda á það, að það var ekkert samræmi í því, sem hann sagði, því hann játaði, að rjett væri að samþykkja alt, sem fram kæmi í þessa átt. Hjer virðist mjer hann sleppa hinum rjetta grundvelli fyrir skoðun sinni, og segir í einu orðinu það, sem hann neitar í hinu.

Jeg mun ekki fallast á, að þessi skifting kjördæmanna, sem fyrir honum vakir, muni ná fram að ganga í skjótu bragði. En hitt er engu að síður augljóst, að þessar mótbárur hans geta ekki að neinu leyti raskað aðalatriðum málsins.

Jeg hygg að þessar mótbárur háttv. þm. Rang. sjeu sprottnar af ástæðum, sem hann lýsti fyrir mjer privat, en þeim vil jeg ekki hreyfa hjer.