24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Mál þetta er ekki mjög flókið og þarfnast því lítillar framsögu, enda er flest þessu viðvíkjandi tekið fram í nefndarálitinu.

Jeg get ekki neitað því, að undirbúningurinn undir þetta frv. er æðilítill. Hafa sýslunefndirnar í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu engar tillögur gert um þetta mál.

Álít jeg því, að umsögn sýslubúa yfirleitt sje enn ekki fengin, þótt einstakir menn hafi látið þessa ósk sína í ljósi. Þetta mælir því frekar á móti því, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Svo er og annað, sem mælir móti skiftingunni. Það er, að íbúatalan er langtum meiri í Austur-Húnavatnssýslu; munar þar fullum 7 hundruðum. Þess vegna gæti henni þótt hart að verða að sætta sig við skiftinguna. Það er að vísu satt, að munurinn á íbúatölunni í hinum ýmsu kjördæmum landsins er víða mikill, svo að rangindi þessi eru ekki eins dæmi.

Aðalástæðan fyrir því, að nefndin áleit rjett að samþykkja frv., var sú, að því fylgja meðmæli beggja þingmanna Húnvetninga. Eru þeir báðir úr Austursýslunni, og af því út af fyrir sig vega ummæli þeirra mikið.

Þótt jeg því haldi fram, að undirbúningurinn sje ekki nægilega mikill undir frv., álít jeg rjett að samþykkja það, ef háttv. þm. Húnvetninga vilja ábyrgjast, að ekki komi fram óskir um breytingu aftur úr Austursýslunni.