30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var frv. þetta borið fram hjer í háttv. deild og lagt fyrir allsherjarnefnd.

Nú hefir frv. verið til meðferðar í háttv. Ed. og tekið þar örlítilli breytingu. Stafar hún af því, að hlutbundnar kosningar til Alþingis fara fram um land alt á komandi sumri, og þar af leiðandi telur háttv. Ed. það rjettara að það sjáist í frv., að þessi lög nái ekki að neinu leyti til þeirrar kosningar.

Allsherjarnefnd hefir ekkert að athuga við þessa breytingu, þótt ekki verði sagt, að hún sje beint nauðsynleg, og leggur því til, að frv. verði samþykt eins og það nú liggur fyrir.