17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

34. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Eins og nál. meiri hl. á þskj. 90 ber með sjer, eru allir nefndarmenn samþykkir efni frv. En meiri hl. þykir ekki þörf á að afgreiða það nú, því að það mundi þá líklega verða numið úr gildi aftur á næsta þingi við endurskoðun allrar löggjafar um bæjarmálefni Reykjavíkur. Eins og getið er um í nál., þá er það mál alt til undirbúnings í bæjarstjórninni, og á þeim undirbúningi að vera lokið á næsta hausti, svo að lagabálkur um það verði lagður fyrir næsta Alþingi.

Það skiftir engu, hvort þessi breyting kemst í lög nú eða á næsta þingi, því að fastanefndir innan bæjarstjórnarinnar eru kosnar annaðhvert ár, og á næst að kjósa þær 1924.

Að öðru leyti hefi jeg engu við að bæta, nema því, að meiri hl. vill vera með því að lögleiða þetta ákvæði sjerstaklega á næsta þingi, ef svo skyldi takast til, að þessi lagabálkur yrði ekki lagður fyrir það þing.