17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

34. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Þegar kosið var í fastar nefndir hjer í háttv. deild í þingbyrjun, komu fram tveir listar, og fjekk annar 13 atkv., en hinn 12. Ef hlutfallskosningu hefði ekki verið beitt, gátu þessir 13 þm. ráðið algerlega nefndaskipun deildarinnar. Og þótt þeir, vegna þingskapa, hefðu ekki getað fullskipað þær eingöngu sínum mönnum, hefðu þeir þó getað ráðið því, hverjir af minni hlutanum væru í hverri nefnd, og þannig gert að engu áhrif minni hlutans í nefndunum. Því að það er nú svo, þótt þm. sjeu vel færir menn og gáfaðir, þá eru þeir þó ekki jafnvígir á alt. Einum lætur betur þetta, öðrum hitt.

Jeg segi þetta til þess að benda á það, hve ranglátt það getur orðið að láta einfaldan meiri hl., jafnvel eins atkvæðis, ráða skilyrðislaust, svo sem verður, ef hlutfallskosningu er ekki beitt. En alt ranglæti hefnir sín. Þess vegna gerir það stjórnarfyrirkomulag, sem vjer búum við, ráð fyrir því, að minni hlutinn vinni með og taki þátt í löggjöfinni, og hafi yfirleitt áhrif á stjórnarstefnu landsins. Annars væri líka mikil hætta á þingræðisfyrirkomulaginu. Þá myndi það vera sem næst bylting í hvert sinn sem flokkaskifting breytist svo, að minni hluti kemst í meiri hluta. En ef minni hluti fær hlutdeild í störfunum, þá gætir áhrifa hans að því skapi, sem hann vex, og þegar hann kemst í meiri hluta, verður aðeins áframhaldandi breyting, en ekkert stökk.

Þetta frv. miðar til þess að fyrirbyggja það, að meiri hlutinn geti beitt minni hlutann þess háttar ranglæti í bæjarstjórn Reykjavíkur, svo sem verið hefir nú tvisvar undanfarið við kosningu fastra nefnda. — Sjálfri er bæjarstjórninni það áreiðanlega hollast, að þvílíku ranglæti sje ekki beitt, og má benda þar á reynsluna í bæjarstjórnarstörfum. Deilur verða langhelst út af gerðum þeirra nefnda, sem minni hlutinn á ekki mann í. Og það er skiljanlegt. Menn tortryggja hverjir aðra, þegar þeir vita ekki allar ástæður, jafnvel þótt óþarft kynni að vera, og margt getur það verið, sem upplýsa má í nefnd, þó ekki sje fært að bera það fram á opnum fundi. En ef minni hlutinn ætti mann í hverri nefnd, gæti hann skýrt flokksmönnum sínum frá, og sparað þannig deilur.

Jeg heyri sagt, að meiri hluti allsherjarnefndar sje með þessu í hjarta sínu, en vilji láta það bíða eftir væntanlegri endurskoðun tilskipunarinnar frá 1872 og allra þeirra lagaákvæða, sem gilda um stjórn kaupstaðarins Reykjavíkur. Sú endurskoðun verður nú ekkert smáræðisverk; skattalög bæjarins og margt fleira blandast þar inn í, og jeg geri ráð fyrir, að það yrði allþykk bók, þegar komið væri í eitt, ásamt skýringum og tillögum til breytingar eða kerfunar. Þótt bæjarstjórninni ynnist nú tími til þessa fyrir næsta þing, og það efast jeg stórlega um, þá virðist mjer ekki líklegt, að Alþingi sæi sjer fært að reka þetta bákn af á einu þingi. Þau hafa stundum tekið fleiri en eitt þing málin, þótt smærri væru. Þá mundi það kosta miklu meira fje og tíma að þurfa að taka þetta upp úr syrpunni á næsta þingi og lögleiða það sjerstaklega, eins og háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) sagði, heldur en að láta það ná fram að ganga nú þegar.

Fordæmi skortir ekki. Þegar bæjarstjórninni þykir liggja á, tekur hún sjerstök atriði út úr og óskar lagasetningar um, enda þótt von sje á heildarendurskoðun. Svo er t. d. um frv. til laga um að leggja Ártún, Árbæ og fleiri jarðir undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Jeg ætla að hlífa háttv. deild við því að fara út í deilur, sem um þetta mál hafa orðið í bæjarstjórninni, enda þótt brjef það frá borgarstjóranum í Reykjavík, sem hv. meiri hl. allshn. prentar í nál. sínu, gefi vinsamlega tilefni til þess. Vona jeg, að háttv. deild skoði sig hafna yfir alt slíkt og líti eingöngu á sanngirnina og samþykki þetta litla frv.