17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

34. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Jeg vildi ekki vekja langar umræður um þetta mál. Það er svo smátt og ómerkilegt mál, að jeg held, að langar umræður um það hljóti að þreyta háttv. deild. Hjer er sem sje ekki um annað að ræða en það, hvort nú eigi að setja lög, sem ekki geta staðið nema til næsta þings og koma að engum notum á þeim tíma.

Auk þess er það formlega atriði gegn framgangi málsins, að þetta er mál, sem snertir eingöngu Reykjavíkurbæ, en bæjarstjórnin vill ekki afgreiða það. Þegar svo stendur á, er óviðkunnanlegt, að minni hl. hlaupi þegar í stað til Alþingis.

Hv. frsm. minni hl. (Gunn. S.) furðaði sig á, að þetta frv. skyldi ekki hafa fyr komið fram. Jeg skal segja honum af hverju það er. Það er af því, að meiri hlutinn í bæjarstjórninni hefir aldrei beitt minni hlutann rangindum. Í flestum nefndum sitja tveir bæjarfulltrúar með borgarstjóra, en í sumum fjórir. Í flestum þriggja manna nefndum er einn frá minni hl. Ef það væri í öllum, þá væru þeir betur settir en þeir ættu tiltölu á.

Það er ekki rjett, sem háttv. flm. (J. B.) sagði, að það hefði komið tvisvar fyrir, að meiri hlutinn beitti minni hluta ranglæti. Aðeins einn bæjarfulltrúi hefir orðið lítilsháttar útundan, að því er mælt er, núna við seinustu nefndaskipunina, hvort sem það er vegna þess, að búast má við, að hann verði nokkuð forfallaður, eða af öðrum ástæðum.

Jeg skal svo ekki þreyta háttv. deild á lengra máli og vona, að ekki þyki ósanngjarnt að samþykkja rökstuddu dagskrána á þskj. 90.