17.02.1922
Neðri deild: 3. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1923

Fjármálaráðherra (M.G.):

Um leið og hin háttv. deild nú tekur til meðferðar fjárlagafrv. fyrir árið 1923, langar mig til að fylgja því úr blaði með nokkrum orðum, og skal þá fyrst geta þess, að í þetta skifti leggur stjórnin ekki fyrir Alþingi neitt fjáraukalagafrumvarp fyrir hið líðandi ár, eins og venja hefir verið hingað til. Reyndar geng jeg ekki að því gruflandi, að einhver gjöld koma utan fjárlaganna, er snerta yfirstandandi ár, en þau gjöld verður stjórnin þá að greiða gegn væntanlegri aukafjárveitingu og á sína ábyrgð, en þess skal jeg geta, að ef þessi stjórn situr áfram, sem ekki mun vera tilætlunin, mun verða gætt hinnar ítrustu sparsemi í þeim efnum. Aðalástæðan til, að ekki hefir verið talið rjett að bera fram fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár, er sú, að reynsla undanfarinna ára hefir sýnt, að ef slíkt frv. kemur fram, hlaðast á ríkissjóð stórkostleg gjöld, gjöld, sem nú á síðari árum hafa numið mörgum hundruðum þúsunda króna. Og jeg vona, að stjórninni verði lagt það vel út að vilja ekki þyngja meira á árinu 1922 en gert er með fjárlögunum, er samþykt voru á síðasta þingi, sjerstaklega þegar þess er minst, að tekjuhallinn er áætlaður sem næst 2 milj. kr. á þessu ári. Vera má, að ekki verði hjá því komist að bera einhverjar aukagreiðslur þessa árs undir þingið, en jeg vona, að þær verði sem allra fæstar og smæstar.

Þegar frv. það sem hjer liggur fyrir, var samið, var reynt að spara sem mest, en þó er tekjuhalli á frv., er nemur nærri 200 þús. kr. En jeg fullvissa háttv. deild um, að það er erfitt að klípa mikið á aðra milj. króna af gjöldum þeim, sem áætluð eru 1922, og jeg geng þess ekki dulinn, að margir muni álíta of langt gengið í ýmsum efnum. En nú er ekki annar kostur fyrir höndum en að taka föstum tökum á niðurfærslu gjalda ríkissjóðs. Nú erum vjer á svo alvarlegum tímamótum, að ástandið knýr oss til að athuga, hvar lendir, ef vjer nú samþykkjum fjárlög með verulegum tekjuhalla. Um aukna skatta getur ekki verið að ræða, af því að þjóðin þolir ekki þyngri skattabyrði en á hana er lögð. Ef tekjur og gjöld ríkissjóðsins standast ekki á, er því ekki annað fyrir hendi en lántaka, og jeg þykist ekki þurfa að gefa skýringu um, hvar lendir, ef þeirri aðferð er haldið áfram. Jeg sje því eigi aðra færa leið en þá, að háttv. þingmenn leggist nú á eitt um það, að láta tekjur og gjöld sem næst standast á. Og það skal jeg taka fram, að jeg er fús til samninga um að reyna að draga úr gjöldum þeim, sem stjórnin áætlar í frv. þessu, en mig uggir, að það muni ekki auðvelt, svo að nokkru verulegu muni. Hins vegar mun jeg berjast gegn því eins og jeg fæ orkað, að gjöldin verði aukin í nokkru verulegu. Jeg veit að sönnu, að fram geta komið fjárbeiðnir, sem ilt er að komast hjá, en ef það er með nokkru móti gerlegt að losna við þær, verða þær að bíða. Háttv. þingmenn verða að sýna hina mestu sjálfsafneitun í þessum efnum, enda er jeg þess fullviss, að almenningur þessa lands skilur það vel, að nú er meiri nauðsyn á sparnaði en nokkru sinni áður, og að kjósendurnir muni ekki áfella þingmenn sína, þótt þeir berjist ekki fyrir fjárveitingum til hjeraða sinna. Jeg vona, að sá verði talinn þinggarpur mestur og mætastur, sem glegstan sýnir skilning á því að skilja bráðnauðsynlegar fjárveitingar frá þeim fjárveitingum, sem geta beðið, án tillits til, á hverjum það kemur niður. Verklegar framkvæmdir getum vjer samt ekki alveg lagt á hilluna. Fyrst og fremst þarf að halda við því, sem þegar er til, svo sem húsum, vegum, brúm, símum o. fl. Og illfært er annað en auka nokkuð við, og þá ber að taka það, sem næst liggur.

Gjöldin á árinu 1923 eru eftir frv. þessu áætluð um 8 milj. kr., en þar af er um 1 milj. kr. afborganir á lánum og lagt í ýmsa sjóði, og ef frv. þetta væri samþ. óbreytt og tekjur og gjöld eins og áætlað er, yrði hagur ríkissjóðs 800 þús. kr. betri í árslok 1923 en í byrjun þess árs. En af þessu veitir sannarlega ekki. Af þessum 800 þús. kr. verður að taka væntanlegar aukafjárveitingar 1923 og það, sem gjöldin kunna að fara fram úr áætlun. Og þá verður sannarlega ekki of mikið eftir til þess að standast mögulega tekjurýrnun frá áætlun og til greiðslu upp í halla yfirstandandi og undanfarinna ára. Verði svipuð niðurstaða fjárlaganna, er þau koma frá þinginu og niðurstaða þessa frv., má við það una, ef vel er á haldið, en ef í nokkru verulegu er breytt til hins verra, tel jeg það með öllu óforsvaranlegt, og stjórnin áskilur sjer að beiðast lausnar, ef svo verður gert, því að hún sjer sjer þá eigi fært að bera ábyrgð á fjárhagnum. Jeg vona, að háttv. fjárveitinganefndir skilji það vel, að á þessu þingi veltur mikið á því fyrir land og þjóð, að þær haldi spart á, því að reynslan sýnir jafnan, að tillögur þeirra eru tordræpar. Sjerstaklega finn jeg ástæðu til að snúa máli mínu til fjárveitinganefndar þessarar háttv. deildar og skora á hana að spara, því að þungamiðja meðferðar fjárlaganna liggur í þessari háttv. deild, eins og kunnugt er.

Til samanburðar við þetta frv. skal jeg geta þess, að gjöldin eftir fjárlögum yfirstandandi árs eru áætluð rúmlega 1350000 kr. hærri en í þessu frv. Þessi lækkun gjaldanna hefir fengist með því að draga svo mikið úr hinum ólögákveðnu liðum, sem fært þótti, eins og þegar er tekið fram. En gjöldin hefi jeg áætlað eftir sömu grundvallarreglu og í fyrra, og þá var háttv. fjárveitinganefnd mjög ánægð með þennan mælikvarða, og vænti jeg að svo verði enn. Gjöldin eru því áætluð yfirleitt eins og sennilegast þykir að þau verði, án tillits til hvort frv. í heild lítur betur eða ver út fyrir það, en það hefir stundum áður þótt við brenna, að gjöldin væru áætluð of lágt, til þess að ná jafnvægi í tekjum og gjöldum á pappírnum. Þetta er mikilvægt atriði, og vona jeg, að þessi siður haldist framvegis.

Jeg skal þá eigi fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, en vil víkja með fáum orðum að yfirstandandi ári, því að eftir því sem síðasta þing gekk frá fjárlögunum, er útlitið ekki glæsilegt. Stjórninni hefir jafnvel verið legið á hálsi fyrir, að hún skyldi taka við fjárlögum eins og hinum núgildandi. Og síðastur manna skal jeg verða til að lofa þau fjárlög, en hins vegar fæ jeg ekki skilið, að þau hefðu batnað við það, þótt stjórnin hefði sagt af sjer. Hitt var nær fyrir stjórn, sem eitthvert traust hafði á sjálfri sjer, að beina viðleitni sinni að því að draga úr gjöldum yfirstandandi árs með atfylgi þessa þings, og auk þess vissi jeg, sem hafði samið gjaldaáætlunina, að hún mundi reynast hærri í ýmsu en áætlað var, vegna verðlækkunar, og þetta mun koma á daginn.

Tekjuhallinn yfirstandandi ár er áætlaður um 2 miljónir króna en önnur þessi miljón er afborgun af skuldum, svo hinn raunverulegi tekjuhalli er áætlaður 1 milj. kr. Spurningin verður nú, hvort vjer getum á þessu ári höggvið skarð í þennan halla og má það verða bæði með hækkuðum tekjum og lækkuðum gjöldum. Fyrri leiðina tel jeg útilokaða, eins og jeg hefi tekið fram áður, því að þjóðin rís eigi undir meiri sköttum, eins og árferðið er nú, og það má sannarlega heita gott, ef hinar áætluðu tekjur koma inn en það verð jeg að telja með öllu óvíst, eftir því útliti sem nú er. Þá er hin leiðin að lækka gjöldin. Hana verðum vjer að fara eins langt og auðið er. Eins og kunnugt er var dýrtíðaruppbót áætluð í fjárlögunum þetta ár 120%, en er 94%. Þar munu sparast um 500000 kr. og um 200000 kr. áætla jeg að sparist vegna verðlækkunar á kolum, olíu, gasi og ýmsu, sem þarf til skóla, sjúkrahúsa og annara stofnana ríkissjóðs. En þá vantar um 300000 kr. til að áætlunarjöfnuður fáist, og um 250000 kr. hefir stjórnin hugsað sjer að spara með því að fresta áætluðum símalagningum og vegagerðum, ef þingið tekur ekki fram fyrir hendur henni, og þá vantar lítið á, að reikningslegum jöfnuði sje náð. En það er aðeins reikningslegur eða áætlaður jöfnuður, því að yfir oss vofir samt sú tvöfalda hætta, að tekjurnar bregðist og að ófyrirsjeð gjöld komi. Hið síðara má telja víst og hið fyrra líklegt, svo að jeg væri óhreinskilinn, ef jeg segði, að útlitið fyrir yfirstandandi ár væri bjart. Þvert á móti verð jeg að telja það ískyggilegt, og ef Alþingi sæi sjer fært að draga frekara úr gjöldunum yfirst. ár en jeg hefi bent á, væri það mjög æskilegt. Yfirstandandi ár verður eftir öllu útliti að dæma 3. tekjuhallaárið í röð, og ætti það því að vera öllum þingheimi ljóst, að nú verður að nema staðar á þeirri hálu braut. Jeg tek þetta enn fram til að árjetta það, sem jeg sagði áður, um nauðsynina á að gæta þess vandlega að auka ekki tekjuhallann til muna á fjárlagafrv. því, sem þessi háttv. deild tekur nú til meðferðar. Flestir landsmenn munu nú vera sammála um, að hin mesta nauðsyn sje á sparnaði og margir eru þegar teknir að spara við sig persónulega. Þótt fáir sjeu og það mundi því sóma sjer illa, ef þingið gengur á undan með eyðslusemi og óforsjálni um hag ríkissjóðs. Og eins og jeg mun víkja að síðar, get jeg ekki annað sjeð en að heimta verði af almenningi töluverða sjálfsafneitun á komandi árum, og þar verðum vjer fulltrúar þjóðarinnar að ganga á undan, einmitt með því að sýna hagsýni og sparnað í meðferð og ráðstöfun ríkissjóðsins, þess sjóðs, sem er eign allra landsmanna og oss er trúað fyrir að ráða yfir. Á tímum eins og þeim sem nú standa yfir, höfum vjer blátt áfram ekki siðferðislega heimild til að fara dýpra í vasa landsmanna eftir sköttum en minst verður komist af með, og um aukning skuldanna er alveg það sama að segja.

Eitt af því sem horfir til sparnaðar, er stutt þing og jeg tel það í lófa lagið að hafa þetta þing stutt. Því að engin stórmál liggja nú fyrir, að því er jeg best veit, sem þarfnast bráðrar úrlausnar. Meðferð fjárlagafrv. á ekki að þurfa að taka langan tíma og að lengja þingið vegna annara mála sje jeg ekki, að til tals geti komið.

Þingið mun kosta 3–4 þús. kr. á dag, og það er því ekki lítil upphæð, sem sparast við það, að þingið yrði til dæmis alt að mánuði styttra en í fyrra.

Jeg hefi gert yfirlit yfir tekjur og gjöld síðastliðins árs, eftir því sem hægt er, og skal leyfa mjer að lesa það upp, en tek það jafnframt skýrt fram, að þær tölur sem jeg fer með hjer, eru ekki alveg áreiðanlegar. Því að enn koma fram gjöld, sem heyra til árinu 1921, og tekjuhliðin getur einnig breyst lítið eitt, en verulegur munur verður varla hvorki á tekjum nje gjöldum. Teknayfirlitið er fengið símleiðis frá sýslumönnum, því að fæstir þeirra hafa enn sent ársreikninga sína, og það af gjöldum ársins 1921, sem greitt er í felur og mars þ. á., er ekki talið með í þessu yfirliti.

Til samanburðar set jeg áætlun fjárlaganna um tekjur og gjöld og minni upphæð en 100 krónum er alstaðar slept.

I. Tekjur. Áætlað kr. Varð kr.

1. Ábúðar- og lausafjárskattur 100000 197400

2.Húsaskattur 40000 86500

3. Tekju- og dýrtíðarskattur 500000 846300

4. Aukatekjur 120000 253500

5. Erfðafjárskattur 17000 70300

6. Vitagjald 100000 160700

7. Leyfisbrjefagjöld 8000 12100

8. Gjald af Kínalífselixír 10000 4600

9. Útfhitningsgjald 600000 655300

10. Áfengis- og öltollur 125000 356600

11. Tóbakstollur 400000 395500

12. Kaffi- og sykurtollur 525000 728400

13. Vörutollur 750000 1287100

14. Annað aðflutningsgjald 60000 78000

15. Gjald af konfekt og brjóstsykursgerð 10000 33000

16. Stimpilgjald 450000 1191800

17. Pósttekjur 200000 433500

18. Símatekjur 550000 1117000

19. Eftirgjald eftir jarðeignir ríkissjóðs 18000 60000

20. Tekjur af silfurbergsnámum 100

21. Tekjur af skipum 350000

22. Tekjur af Íslandsbanka 70000 90700

23. Tekjur af Landsbankanum 67500 86500

24. Tekjur af ræktunarsjóði 20000 23200

25. Vextir af bankavaxtabrjefum og útdregin brjef 57000 78000

26. Arður af hlutafje í Eimskipafjelagi Íslands 6000 10000

27. Vextir af innstæðu í bönkum 5000 15600

28. Greiðslur frá Landsversluninni 1100000

29. Óvissar tekjur 23600 347500

30. Tekið af enska láninu 1500000

Samtals 5182200 1129100

II. Gjöld. Áætlað kr. Verð kr.

1. Vextir og afborganir af lánum 948400 2134500

2. Borðfje konungs 60000 60000

3. Alþingiskostnaður 176000 355000

4. Gjöld samkvæmt 10. gr. fjárlaga 153300 326500

5. Dómgæsla, lögreglustjórn o. fl. 293400 752600

6. Gjöld vegna heilbrigðismála 321400 897200

7. Til samgöngumála : Áætlað kr. Varð kr.

a. Póstmál 234600 433400

b. Vegamál 354600 334400

c. Strandferðir 244500 203600

d. Símamál 530700 1117000

e. Vitamál 121500 282500

1485900 2370900

8. Kirkju- og kenslumál:

a. Andlega stjettin 52100 469500

b. Kenslumál 467800 865300

519900 1334800

9. Til vísinda. bókmenta og lista 187800 262200

10. Til verklegra fyrirtækja 442800 431700

11. Lögboðnar fyrirframgreiðslur o. fl. 3100 36000

12. Eftirlaun og styrktarfje 123200 229100

13. Óviss gjöld 20000 254600

14. Gjöld samkvæmt sjerstökum lögum, fjáraukalögum og þingsályktunum 1968500

Samtals 4732200 11413600

Ef nú litið er á yfirlit þetta í heild og það borið saman við t. d. yfirlitið, sem jeg gaf í fyrra um árið 1920, þá kemur það fram, sem vænta mátti, að tekjurnar eru minni 1921. Þó finn jeg ekki ástæðu til að vera óánægður yfir tekjunum; Þær verða að teljast furðanlegar. Hinu er aftur á móti mikil ástæða til að vera óánægður yfir, hversu há gjöldin eru, og jeg verð að telja að sökin liggi þar mest hjá Alþingi sjálfu og þarf ekki annað til að reka sig úr vitni um það en minna á meðferð þess á fjáraukalagafrv. á síðasta þingi, er gjöldin samkvæmt frv. voru aukin um sem næst 400000 kr. frá því, sem stjórnin áætlaði. Öll þessi upphæð hefir auðvitað komið á síðastliðið ár, og það má, eins og jeg tók fram á síðasta þingi, telja litla nærgætni við ríkissjóð og landsmenn að bæta slíkri byrði á jafnerfitt ár, ekki síst þegar litið er til þess, að flestar þessar fjárveitingar gátu vel beðið og margar af þeim alóþarfar.

Um tollana er það að segja, að samanlagðir eru þeir hvort árið um sig nærri jafnháir, en útflutningsgjald er minna 1921 en 1920; munurinn er um 140000 kr. Stimpilgjaldið hefir lækkað um nálega þó miljón vegna verðfalls á innlendum og útlendum vörum. Skipin hafa engar tekjur gefið, en 1920 borguðu þau 350000 kr. Reikningar þeirra eru ekki gerðir upp að fullu fyrir árið 1921, en víst, að þau hafa ekki unnið fyrir sjer á árinu, og veldur því hinn gífurlegi halli á strandferðum ,,Sterlings“. Til þess að reyna að draga úr þeim halla yfirstandandi ár hefir fyrsta strandferðin verið feld niður, og ættu að sparast við það 30–50 þús. kr.

Bankarnir hafa einnig gefið minni tekjur síðastliðið ár en 1920, vegna þess að þeir hafa lagt svo mikið af gróða sínum til hliðar til að standast áfallið eða væntanlegt tap á skuldum. Raunverulegar tekjur hafa 1921 orðið á 2. milj. kr. minni en 1920.

Um gjöldin er það að segja, að þau eru yfirleitt nokkru lægri en 1920. Hækkun er ekki svo að muni, nema á alþingiskostnaði og legukostnaði þurfamanna. Hinir liðirnir eru talsvert lægri, t. d. á síðasta liðnum, sem jeg las upp, munar um 900 þús. kr.

Í teknayfirlitinu hjer að framan taldi jeg afborgun frá Landsversluninni 1100000 kr. og enskt lán l½ milj. kr. En hvorugt þetta eru tekjur í eiginlegum skilningi. En þótt þessar fjárhæðir sjeu taldar til teknanna, vantar samt um 200000 kr. til að tekjurnar nægi fyrir gjöldum. Þá vaknar sú spurning, hvort vjer höfum á árinu tapað sem svarar þessum upphæðum öllum eða samtals 2800000 kr. Svo illa hefir samt ekki tekist til, því að fyrst og fremst höfum vjer á árinu borgað í afborganir af skuldum um 1200000 kr. og vjer höfum eignast hús á Akureyri, Siglufirði, Reykjavík og Hafnarfirði, sem teljast mega að minsta kosti 100000 kr. virði. Í landhelgissjóð höfum vjer fengið um 300000 kr. á árinu og viðlagasjóður mun hafa grætt um 200000 kr. Ef þessar fjárhæðir allar eru dregnar frá áðurnefndum 2800000 kr., verður eftir 1 milj. kr., sem ætti þá að vera tap á árinu 1921, og býst jeg við, að það láti nærri að öllu athuguðu.

Eins og sjest af hinu framansagða, verður ekki annað sagt en að landsbúskapurinn hafi gengið illa á undanförnu ári, enda mun enginn hafa búist við honum góðum, og flestar þjóðir munu hafa sömu söguna að segja. Það hefir verið reynt af fremsta megni að draga úr gjöldunum, og vona jeg, að það sjáist af yfirlitinu, sem jeg las upp, sjerstaklega ef það er borið saman við gjöldin 1920. Skal jeg í þessu sambandi nefna t. d. 16. gr., því að útgjöldin þar eru undir áætlun. Hið sama er um vegabætur. Hinsvegar má ekki gleyma því, að á síðastliðnu ári hefir orðið margt að framkvæma, sem ekki var búist við, er fjárlögin voru samin, t. d. raforkuveitan til Holdsveikrahælisins. Geðveikrahælisins og Vífilsstaðahælisins, auk raforkutaugalagninga í fjölda opinberra húsa, og nemur þetta alt sjálfsagt 200000 kr., og ekki varð komist hjá þessu, ef hið opinbera átti að njóta hagnaðarins af raforkuveitunni, enda voru ljóstæki öll að verða ónóg eða ónýt á sjúkrahælunum. En 75000 kr. af þessum kostnaði verður endurgreitt, því að það er lánað Reykjavíkurbæ til þess að fá raforkuveitu að Laugarnesi og Kleppi. Ýmislegt fleira mætti tína til, en það yrði of langt mál, en áreiðanlegt er það, að reynt hefir verið að spara á þeim sviðum, sem því hefir orðið við komið.

Jeg tók það fram áður, að Landsverslunin hefir endurgreitt ríkissjóði rúmlega miljón af skuld sinni, og auk þess hefir verslunin greitt alt, sem þurft hefir til stofnunar tóbakseinkasölunni, svo að ríkissjóður hefir ekkert þurft að leggja fram til þessa. Skuld Landsverslunar er því mjög tekin að minka, en annars er þess að geta, að hún hefir ekki til þessa getað gert til fullnaðar reikning sinn fyrir árið sem leið, vegna þess, að hún hefir ekki fengið alla reikninga, sjerstaklega um erlend viðskifti.

Um fjárhag ríkissjóðs árin 1921, 1922 og 1923 skal jeg þá ekki fara fleiri orðum, en jeg tel mig neyddan til við þetta tækifæri að fara nokkrum orðum um hið enska lán, sem tekið var í nafni ríkissjóðs á síðastliðnu sumri, vegna þess að það mál hefir að mestu verið einhliða rætt í blöðum og

jeg tel Alþingi eiga kröfu á að vita, hvað rjett er í því efni.

Þegar auðið var að birta lántökuskilmálana, sendi jeg öllum blöðunum hjer í bænum stuttorða skýrslu um lánskjörin, og þykist jeg vita, að sú skýrsla sje kunn öllum háttv. deildarmönnum, og hirði jeg því eigi að endurtaka hana hjer orði til orðs.

Eins og kunnugt er var lánið 500000 sterlingspund og afföll lánveitenda 15%, vextir 7% og lánstíminn 30 ár. Fyrsta afborgun á fram að fara 1. sept. 1923. Þetta eru aðalatriðin. Láni þessu hefir verið skift þannig, að ríkissjóður hefir tekið af því 1½ milj. kr., Landsbankinn hefir fengið 1/5 af láninu og Íslandsbanki afganginn, gegn því, að hann greiði Landsbankanum 1 milj. kr. í Kaupmannahöfn af sínum hluta, og dregst sú upphæð frá inneign Landsbankans hjá Íslandsbanka hjer. Um skiftingu lánsins var ekkert ósamkomulag milli bankanna, en hinsvegar var Landsbanki óánægður með að þurfa að borga í dönskum krónum allmikinn hluta skaddar, sem hann taldi sjer ekki skylt að greiða annarsstaðar en hjer á landi. Með því að dregist hefir matið á hlutum Íslandsbanka, er ekki enn gert út um hlutakaup ríkissjóðs í bankanum, en til þeirra kaupa var enska lánið fyrst og fremst tekið. En bankinn hefir sett ríkissjóði fullnægjandi tryggingu fyrir því, sem hann hefir þegar fengið af láninu svo að ekkert er að óttast, þótt ekki verði af kaupum á hlutum í bankanum. Hins vegar var það sjálfsagt, og í samræmi við vilja síðasta þings, að láta bankann fá fjeð eins fljótt og hægt væri til þess að lina viðskiftakreppuna. Ríkissjóður gat ekki komist af án þess að taka það af láninu, sem jeg áður nefndi, því að hann var orðinn til muna skuldugur í Danmörku, vegna vaxtagreiðslu og afborgana þar. Landsbankinn óskaði einnig að fá hlutdeild í láninu, þar sem hann mundi þess eigi megnugur að fá lán til svo langs tíma á eindæmi sitt. Hinsvegar varð eigi hjá því komist, þar sem lánið var tekið til hlutabrjefakaupanna, að ætla Íslandsbanka þá fjárfúlgu, er ætla mátti, að nægileg væri til þessara kaupa.

Um lán þetta hefir töluvert verið rætt, og hafa sumir haldið því fram, að það hefði alls ekki átt að taka, vegna þess, hversu dýrt það sje, en aðrir, að það hefði átt að vera miklu stærra, jafnvel helmingi stærra en það var. Það ræður nú af líkum, að það er ekki auðvelt fyrir stjórnina að gera aðiljum með svo ólíkar skoðanir til hæfis, og því síst að undra, þótt hún hafi orðið fyrir aðkasti út af þessu máli, þegar skoðanir eru svo sundurleitar. Hið rjetta liggur venjulega milli þess, sem lengst fer, og þess, sem skemst fer og einmitt í þessum ólíku skoðunum virðist mjer felast nokkur sönnun þess, að stjórnin hafi farið hinn rjetta meðalveg.

Háttv. deild er það kunnugt, að á síðasta þingi var jeg ekki hvatamaður lántöku fyr en samþykt var að kaupa hlutabrjef í Íslandsbanka, enda var lántaka þá óhjákvæmileg. Að hærra lán var tekið en til þessara kaupa, var bæði af því, að Landsbankinn taldi sjer þörf á föstu láni og að ríkissjóði var eins og áður er drepið á, ekki auðið að standa skil á afborgunum og vöxtum erlendra lána, vegna þess hversu Alþingi hefir undanfarin ár hlaðið miklum gjöldum á hann, þrátt fyrir aðvaranir núverandi og þáverandi stjórnar. Af þessu er það auðsætt, að ekki varð hjá því komist að taka lán, enda var það bein afleiðing af gerðum Alþingis og samkvæmt tilætlun þess. Um þetta verður ekki með rjettu deilt, en um hitt má jafnan deila, hvort lánið var of hátt eða of lágt, en einsog ræður af líkum lít jeg svo á, að þar hafi hið rjetta meðalhóf verið notað. Að mínu áliti gat alls ekki verið um það að ræða að taka lán til greiðslu allra skulda landsmanna eða mests hluta þeirra, því að með því hefðum vjer örfað þjóðina til áframhaldandi eyðslu, þar sem hún hefði þá miklu minna orðið vör við hversu hún var stödd, er engin tregða var á kaupum við útlönd. Sparnaður er hið eina, sem getur leitt oss út úr því ástandi, sem nú er, og mun jeg ef til vill víkja lítið eitt að því síðar.

En þá er að athuga lánskjörin og þegar um þau er dæmt, verður að hafa í huga fjármálaástandið í heiminum yfirleitt. Þegar erfitt er um fje og vextir háir, getur enginn búist við kjörum er þola samanburð við lánskjör góðu áranna. Ef þetta lán er með harðari kjörum en önnur lán, tekin um svipað leyti af áþekkum lántakanda, er ástæða til að vera óánægður, en annars ekki. Til þess að komast að raun um þetta, verður að bera þetta lán saman við önnur lán, sem tekin voru um svipað leyti. En áður en jeg fer út í það atriði, skal jeg geta þess, að stjórnin gerði mjög miklar tilraunir til þess að fá betri lánskjör, en það tókst ekki. Í þessum erindagerðum fór bæði sendiherra vor í Kaupmannahöfn og L. Kaaber bankastjóri Landsbankans til Lundúna og þeir komust báðir að raun um, að lán með betri kjörum en þetta var ekki auðið að fá, og til sannindamerkis um, að reynt hafi verið að útvega lán annarsstaðar og til að sýna álit ensks fjármálamanns um lánskjörin, skal jeg, með leyfi hæstv. forseta. leyfa mjer að lesa upp þýðingu af brjefi frá Kjær, bankastjóra við British & North European Bank í Lundúnum, dags. 23. ágúst f. á.

Brjefið er þannig:

„London 23. ág. 1921.

Herra konsúll Kaaber,

Hótel Cecil, London.

Um leið og jeg staðfesti símskeytaskifti okkar, vil jeg bæta því við, að jeg hefi átt í samningum við marga aðalbankana og fjármálafjelög hjer, sem vjer höfum gott samband við, meðal annara

Lloyds Bank Ltd,

Imperial & Foreign Corporation Ltd,

British, Foreign & Colonial Corporation,

Lazard Bros,

Seligan Bros,

og reynt að stofna fjelag til að taka að sjer lán hins íslenska ríkis, en ætíð kom það í ljós, að hjer í London þektu menn lítið til ástandsins á Íslandi, sjerstaklega vegna þess, að Ísland hefir ekki áður tekið lán í Englandi.

Með því að jeg nú hefi fengið að vita, að til mála hefir komið að taka lán þetta í Skotlandi með aðstoð hins nafnkunna firma Helbert. Wagg & Co. Ltd., þannig, að Ísland fái 84 af hundraði hverju með 7% vöxtum til 30 ára og uppsegjanlegt eftir 13 ár, hlýt jeg í samráði við bestu sjerfræðinga okkar að ráða yður til að taka þessum skilmálum, með tilliti til hinna erfiðu ástæðna, sem nú eru alstaðar, og að athuguðum öllum kringumstæðum.

Þess má geta að Noregur fekk aðeins 83 af hundraði af 6% láni er hann tók hjer nýlega og þó hefir það land ætíð verið meðal þeirra lántakenda hjer, sem best kjör hafa fengið.

Eigi má heldur gleyma því, að ef íslenska lánið ætti að bjóða út opinberlega, yrði útboðið vegna hins mikla kostnaðar, sem því er samfara, til stimpilgjalds o. fl., að hljóða um ca. 90 af hundraði, og með 7% vöxtum þolir slíkt lán samanburð við lán, sem hin best stæðu ensku fjelög hafa tekið nú í seinni tíð, og þess vegna er það sannfæring mín, að Ísland eigi að taka því tilboði, sem það nú hefir, einkum þar sem það er mikilsvert fyrir Ísland að ráða sem fyrst nokkra bót á hinum erfiðu viðskiftum við önnur lönd.

A. Kjær“.

Frumrit þessa brjefs er til sýnis þeim háttvirtu deildarmönnum, er kynnu að óska að sjá það, en jeg ábyrgist að þýðingin sje rjett.

Jeg vænti þess, að meira tillit verði tekið til álits þess, sem felst í brjefi þessu, en til órökstuddra sleggjudóma þeirra manna, sem ekki þekkja til þessara hluta. Jeg get ekki krafist þess, að almenningur og háttv. deild geti í öllum atriðum myndað sjer rökstudda skoðun um þetta mál, en finst stjórnin eiga sanngirniskröfu á því, að hv. deild og almenningur taki meira tillit til, hvað algerlega óvilhallir, ástandinu kunnir fjármálamenn álíta um þetta efni, heldur en ókunnugir, pólitískir mótstöðumenn, sem telja það æðstu skyldu sína að lasta alt, sem stjórnin gerir. Þess má og geta, að þegar sá bankastjóri Landsbankans, sem jeg nefndi áður, fór til Englands, áleit hann, að auðið mundi að fá betra lán þar en þetta, og taldi hæpið að taka það; en er hann hafði rannsakað horfurnar á staðnum, áleit hann rjett að taka lánið, og sama var álit sendiherra vors í Kaupmannahöfn.

Mörgum þykja afföllin af láninu mikil, en um það atriði er óhætt að fullyrða, að við þeim var ekki að búast minni. Englendingar vita vel, hvers virði sterlingspundið er. Þeir vissu, að það stóð, þá er lánið var tekið hjer um bil 4 kr. hærra hvert pund en á venjulegum tíma, ef miðað er við danska krónu. Þeir ganga ennfremur út frá, að mestur hluti láns til langs tíma, eins og þetta, verði ekki endurgreiddur, fyr en nokkurnveginn jafnvægi er komið á gengið. Og þeir eru miklu meiri fjesýslumenn en svo, að þeir láti lántakendur stinga þeim gróða í vasa sinn. Þeir segja beinlínis við lántakendurna: „Þjer fáið t. d. 22 kr. fyrir hvert sterlingspund, en þegar þjer borgið pundið aftur, eru allar líkur á, að þjer þurfið ekki að láta nema 18–19 kr. fyrir hvert þeirra. Þessi mismunur er okkar eign, því að hið háa gengi er á okkar peningum, en ekki ykkar; þjer ráðið hvort þjer gangið að eða frá. Okkar fje komum við altaf út fyrir þetta verð“. Við þetta verða allir lántakendur að sætta sig, ef þeir hafa aðra mynt en Englendingar. Þetta sýnir meðal annars brjef það, sem jeg las upp áðan. Það sýnir, að Norðmenn urðu í fyrra að sæta verri kjörum en vjer í þessu efni, og þó eru þeir ekki ókunnugir á peningamarkaðinum enska, eins og vjer. Ef vjer nú athugum, hvaða verð hefir verið hjer undanfarið á sterlingspundum, sjest, að það er ekki lítil fjárhæð í íslenskum krónum, sem fengist hefir fyrir þessi 425000 sterlingspund, sem útborguð voru. Sterlingspundið hefir verið selt hjer á 26–28 kr., og ef miðað er við lægstu töluna, 26 kr., jafngilda þessi pund 11050000 kr. íslenskum. Núeru allar líkur á því, ef vjer förum hyggilega að í fjármálum vorum og kappkostum framvegis að versla skuldlaust eða skuldlítið við önnur lönd, eins og hver hygginn bóndi kappkostar í verslun sinni við kaupfjelag sitt eða kaupmann, að vjer þurfum ekki að borga nema 18–20 kr. fyrir hvert pund, þegar vjer endurgreiðum lánið, því að það er til svo langs tíma, að óhugsandi verður að teljast, að gengisbreytingarnar verði eigi löngu áður en lánið er alt borgað horfnar eða orðnar hverfandi litlar. En ef gengið er út frá, að vjer verðum að meðaltali að endurgreiða hvert pund með 20 kr., þurfum vjer að borga 10 milj. kr., og þá borgum vjer rúmlega 1 milj. kr. minna en vjer fengum. Með öðrum orðum, afföllin eru horfin, og þó laglegur skildingur umfram. Svona er líklegt að fari þótt ekkert verði um það fullyrt.

Nú kynni einhver að segja, að það sje ekki rjett að reikna sterlingspundið eins hátt og hjer er gert, vegna þess, að miklu af láninu hafi verið breytt í danskar kr., og þá hafi ekki fengist meira en 21–22 kr. fyrir hvert sterlingspund. En við þessu er því að svara, að ef vjer hefðum ekki tekið lán þetta og notað hluta af því til að greiða skuldir í Danmörku, hefðum vjer orðið að nota til þessara skuldalúkninga ensk pund, ef greiðsla hefði annars verið möguleg, því að andvirði fyrir langmestan hluta hinna útfluttu vara er greitt í enskri mynt, og danskar krónur hefir ekki verið hægt að fá lengi, því að það, sem oss hefir áskotnast þar, hefir alt farið í skuldir eða fyrir vörur. En þessi ensku pund til skuldalúkninga hefðum vjer orðið að kaupa á minst 26 kr. sterlingspundið. Jeg tek sem dæmi ríkissjóðinn. Hann þarf að borga í Danmörku um miljón á ári í vexti og afborganir. Þessa miljón hefir hann síðastliðið ár borgað af enska láninu. En hefði lánið ekki verið tekið og hann hefði keypt sterlingspund til að greiða þessa upphæð, hefði hann orðið að gefa minst 26 kr. fyrir pundið. Þetta er nægilegt til að sýna, að sterlingspundið hefir verið oss í raun og veru meira virði en hið danska gengi þess segir til, vegna þess að danskar krónur var ekki unt að fá. Um þann hluta lánsins, sem notaður hefir verið í Englandi, er auðsætt, að vjer höfum haft allmikið meira fyrir hvert sterlingspund en hið danska gengi þess. Því að hvort sem bankarnir hafa notað þennan hluta til skuldalúkningar fyrir sjálfa sig eða til að selja þessi sterlingspund einstaklingum, verður að telja þau í því verði, sem þau hafa verið seld í íslenskum krónum.

Með því sem jeg hjer hefi tekið fram þykist jeg hafa sýnt fram á það með rökum, að allar líkur eru á því, að vjer þurfum ekki að borga eins margar íslenskar krónur til að endurborga lán þetta og vjer höfum fengið fyrir það, og að afföllin hverfi á þann hátt og nokkur gróði verði aukreitis, sem hafa mætti upp í vaxtagreiðslur. Annars er rjett að taka það fram hjer, að það er ekki nýtt í sögu okkar, að vjer verðum að borga afföll á láni. Vjer tókum lán í Danmörku árið 1919, að upphæð 4½ milj. kr., og urðum að borga í afföll á því og stimpilgjald 450000 kr., og svarar það til hjer um bil 1 milj. kr. affalla á hinu enska láni, þótt ekkert tillit sje tekið til þess að enska lánið er til 30 ára, en danska lánið til 20 ára. Og þessi afföll á danska láninu getum við alls ekki búist við að vinna upp í gengismun, og megum þakka fyrir, ef þau vaxa ekki vegna þess, að okkar króna verði lægri en hin danska. Yfirleitt verð jeg að segja það, að jeg bíð alveg rólegur sögunnar dóma um það, hvort þessara tveggja lána verði hagstæðara fyrir oss, hvort sem mjer verður það auðið eða ekki að sýna það með komandi tíma landsreikningum.

Töluvert hefir einnig verið um það rætt, að hægt hefði verið að spara 7% af afföllunum, með því að hafa enga milliliði við lántökuna. En þetta stafar af ókunnugleik þeirra, sem þessu halda fram, og er bygt á því, að firmu þau, er söfnuðu loforðum um þátttöku í láninu. buðu það ekki út opinberlega, heldur söfnuðu áskriftum án þess, og lögðu með því á sig miklu meiri vinnu og fyrirhöfn en ef opinbert útboð hefði verið. En þessi firmu settu það aftur á móti upp fyrir þessa fyrirhöfn, að þau fengju í sinn vasa það, sem opinbert ritboð kostaði, og það mundi að öllu meðtöldu hafa orðið sem næst þessum mismun, því að í Englandi er lagður skattur á slíka lánsfjársöfnun, ef hún er gerð með opinberu útboði. Og jeg fæ ekki betur sjeð en að oss megi á sama standa, hvort þetta fje hefir farið í enska ríkissjóðinn og annan kostnað eða til firma þeirra, er lánið útveguðu. Vjer erum jafnríkir eða jafnfátækir fyrir það. En svo er annað atriði, sem veldur því að sjálfsagt var að fara þannig að sem gert var, og það er það, að vjer gátum ekki, þar sem vjer erum alveg óþektir á enska lánsmarkaðinum, vitað, hvort vjer fengjum lán með opinberu útboði þar, og hefði nú svo farið, að ekkert eða lítið sem ekkert hefði fengist á þann hátt, hefði það gerspilt lánstrausti okkar. Hver og einn hlýtur að skilja að það var miklu hyggilegra að fela þetta firmum, sem njóta trausts í Englandi, en tefla á tvísýnu um hitt, þar sem annaðhvort ekkert eða sáralítið tap var um að ræða. Brjefið frá enska bankastjóranum, sem jeg las upp áðan, sýnir, að jeg fer hjer með rjett mál, og þykist jeg ekki þurfa frekari vitna við. Alt tal um fjeð til milliliðanna er því á misskilningi bygt. Hefði þetta fje ekki farið til firmanna, sem útveguðu lánið, hefði það farið í okkar útlendu lán í Danmörku, en vjer hefðum aldrei notið góðs af því.

Jeg hefi ekki orðið annars var en að ánægja væri yfir lánstímanum, og jeg sje því ekki ástæðu til að ræða um það atriði. Aðeins vil jeg benda á að eftir því, sem lánstíminn er lengri eftir því gætir affallanna minna. Geta má og þess, að Danir tóku fyrir hjer um bil 2 mánuðum 30 milj. dollara lán með svipuðum afföllum og vjer hið enska lán, en þar sem danska lánið er til 20 ára. eru afföllin í raun og veru sem næst þriðjungi hærri.

En þá eru vextirnir af láninu. Jeg játa það, að þeir eru háir, en jafnframt fullvissa jeg um það að ómögulegt var, þrátt fyrir margar tilraunir, að fá þá setta niður. Og ýms ríki hafa orðið að sætta sig við jafnháa og jafnvel hærri vöxtu. Indland, hið auðuga, frjósama land með undir 300 milj. íbúa. þurfti að ganga að sömu vaxtakjörum og vjer um svipað leyti og er þó undir stjórn Englendinga sjálfra, og hið áður upplesna brjef bankastjórans enska sýnir, að úrvalsfjelög ensk hafa orðið að sæta svipuðum kjörum og vjer. Og jeg leyfi mjer að segja, að vjer gátum alls ekki vonast eftir betri kjörum en auðug ensk fjelög, sjerstaklega vegna þess, að enski peningaheimurinn þekkir oss svo lítið. Allir geta sagt sjer sjálfir, sem sanngirni vilja beita að það er alt annað að koma sem lánbeiðandi til lánveitanda, er þekkir beiðandann og veit að hann er skilsamur, eða koma óþektur í þeim efnum á erfiðustu tímum. Hingað til höfum vjer ætíð tekið okkar útlendu lán í Danmörku. en líklega skilja flestir það að það er ekki heppilegt að rígbinda sig í þeim viðskiftum við sama staðinn. Með þessu er ísinn brotinn og jeg er sannfærður um, að það er oss beinlínis og óbeinlínis mikill hagur að hafa komist að á enskum markaði.

Því hefir verið haldið fram, að tolltekjur vorar sjeu veðsettar fyrir láninu, en það er ekki rjett. Veðsetning er engin, en hitt er rjett, að meðan lán þetta er ógreitt er því lofað, að þær verði ekki veðsettar neinum, og þar sem engum mun hafa dottið í hug að gera slíkt, sjest ekki, að nein hætta sje þessu loforði samfara. Vjer höfum aðeins lofað að gera ekki það, sem vjer áður vorum staðráðnir í að gera aldrei.

Sá hluti lánsins, sem gengið hefir til bankanna (og eins og jeg tók fram, er það langmestur hluti þess), er þeim afhentur með þeim skilmálum, að þeir eiga eftir þeim hlutföllum, sem þeir hafa tekið það, að endurgreiða það ríkissjóði að kostnaðarlausu. Ríkissjóður þarf því eigi að borga nema vexti og afborganir af 1½ miljón kr., nema bankarnir geti eigi staðið í skilum, sem engin hætta virðist á.

Að síðustu vil jeg fara nokkrum orðum um fjárhagsástand vort yfirleitt. með sjerstöku tilliti til viðskiftanna við útlönd. Um þetta atriði er það öllum kunnugt, að skuldir við önnur lönd eru orðnar miklar, og af þessu hefir leitt fall á okkar peningum. Hagstofunni hefir verið falið að safna skýrslum hjer að lútandi, miðuðum við síðastliðin áramót, en ennþá eru þessar skýrslur ekki fullgerðar nje allar upplýsingar fengnar, og þess vegna get jeg ekki stuðst við þær beinlínis í þeim atriðum, sem jeg drep á hjer á eftir, en jeg er þess fullviss, að síðar á þessu þingi verður hægt að láta háttv. þm. þessar skýrslur í tje. Jeg geri ráð fyrir að í báðum deildum verði kosin sjerstök nefnd, viðskiftanefnd, til að fjalla um viðskiftamálin yfirleitt því að ekkert mál sem nú er á döfinni, er jafnmikilsvert sem það. Og með hliðsjón af skýrslum hagstofunnar verða þær nefndir að gera tillögur sínar. En þótt skýrslur þessar sjeu enn ófullgerðar, þykist jeg geta fullyrt það, að erlendar skuldir eru svo miklar, að vjer verðum að taka alvarlega í taumana, til þess að komast á rjettan kjöl aftur, og því virðist rjett að reyna að gera sjer grein fyrir, hver úrræði beri að taka í þessu efni.

Skuldir við útlönd safnast fyrir þá sök einkum að meira er keypt af erlendum varningi en selt þangað. Með öðrum orðum, skuldirnar safnast vegna þess að verðhæð hins innflutta erlenda er meiri en hins útflutta innlenda, eða með enn öðrum orðum, vjer tökum meira út erlendis en vjer leggjum inn. En hvað er þá til ráðs fyrir þann, sem er kominn í skuldir fyrir þessa sök? Jeg sje ekki að honum standi nema 3 leiðir opnar, ef hann hefir ekki fje til að greiða skuldina þegar í stað og hún getur ekki staðið afborgunarlaus. Hann getur í fyrsta lagi tekið lán til þess að greiða hana. Hann getur í öðru lagi lagt meira inn. Hann getur í þriðja lagi tekið minna út. Lánsleiðin er ekki bót til langframa, því að skuldin þarf að greiðast, þótt síðar sje, og það með vöxtum. Hinar leiðirnar eru því affarasælli, ef færar eru, því að þær bæta úr til langframa.

Þannig er þetta um einstaka menn, og alveg hið sama er um þjóðirnar, nema þar er miklu meira í húfi. Ef þetta er heimfært upp á vora þjóð, er því aðeins um það tvent að velja til varanlegrar frambúðar, að auka framleiðsluna eða draga úr erlendum kaupum, draga úr innflutningnum, eða þetta hvorttveggja saman. Aukning framleiðslunnar væri vitaskuld skemtilegasta lausnin, og að sjálfsögðu ber að leggja áherslu á hana. En framleiðslan getur naumast aukist í stórum stíl á skömmum tíma og getur því ekki í skjótri svipan komið oss að haldi til verulegra bóta á því ástandi sem nú er. Það sem ræður skjótast, best og áreiðanlegast úr, er að draga úr erlendu kaupunum, að spara. Þetta hefir mjer verið ljóst síðan 1920, er jeg bar fram hjer á þingi frumvarp um takmörkun innflutnings, frumvarp, sem þá var samþykt með miklum meiri hluta. En síðasta Alþingi dró mjög úr framkvæmd þessara laga, og það var ilt. Það hefði átt að herða á innflutningshöftunum, en ekki lina á þeim. Og jeg fæ ekki betur sjeð en þetta þing verði að taka föstum tökum á þessu máli og draga stórkostlega úr innflutningnum. Alt annað virðist mjer vera skottulækning á því ástandi, sem nú er. Að taka ný lán virðist mjer vera nokkurnveginn sama og að gefa sjúkum manni morfín, í stað þess að skera burtu meinsemdina, og meinsemdin er erlendu skuldirnar, og að skera þær burtu er að borga þær. Það svíður í bili að skera meinið að spara, en það er varanleg bót, ef rjett er á haldið. Morfínið, lántökurnar, eigum vjer ekki að nota nema meðan verið er að sækja lækninn, og þá er það gagnlegt. En vjer höfum lækninn við hendina. Læknirinn er sparnaðurinn. Hví ekki að nota hann nú þegar?

Síðan á síðasta þingi hefir og það komið fyrir, sem gerir enn nauðsynlegra en áður að spara erlend kaup, og það er hið raunverulega gengisfall hinnar íslensku krónu. Það er fram komið vegna þess, að útlendir menn áttu hjer inni fje, sem þeir gátu ekki fengið, og buðu því öðrum erlendis til kaups inneign sína með afföllum, og þegar þetta fór að verða algengt, sáu bankarnir sjer ekki fært að selja erlendan gjaldeyri, þótt til væri, fyrir íslenska peninga, nema með gengismun. Bankarnir litu sem sje þannig á, að af því að þeir gátu ekki fullnægt eftirspurninni eftir útlendum gjaldeyri, væri ekki annar kostur fyrir hendi en að heimta gengismun á honum, því annars græddu þeir, sem fengju gjaldeyri hjá þeim, í hlutfalli við þá, sem keyptu hann annarsstaðar en slíkt hefði óheppileg áhrif á viðskiftalífið. Auk þess álitu þeir að gengismunurinn mundi koma fyr eða síðar og þá mundu þeir tapa, er þeir þyrftu að greiða skuldir sínar erlendis, skuldir, sem stofnaðar væru fyrir erlendan gjaldeyri. Stjórnin hefir ekki viljað viðurkenna opinbera gengisskráning, þótt báðir bankarnir hafi óskað þess, en þó ekki sjeð sjer annað fært en að láta hlutlaust, þótt þeir seldu sterlingspund með hærra gengi en ef miðað er við danska kr. Og nú verður Alþingi að skera úr því, hvort viðurkenna skuli gengismuninn opinberlega eða ekki.

En hvort sem gengismunurinn verður viðurkendur opinberlega eða ekki. Þá er það víst, að fyrst um sinn verður reiknað með honum í viðskiftalífinu, og þar hefir hann stórkostleg áhrif. Hann gerir allar aðfluttar vörur dýrari, sennilega nokkru meiru en gengismuninum nemur, og heldur með því dýrtíðinni í landinu. Ef afurðir vorar eru seldar fyrir erlenda peninga, vinst sjálfsagt nokkuð upp af þessum halla aftur, en þess verður og að gæta að einmitt vegna gengismunarins þurfa afurðirnar að seljast hærra verði en ella mundi því að framleiðslan verður hans vegna dýrari. Það er því engum efa undirorpið, að gengismunurinn er böl, enda er víst í raun og veru ekki deilt um það, heldur um það, hvort við verðum að sætta oss við þetta böl og viðurkenna það eða ekki. Jeg held, að við getum ekki losnað við hinn raunverulega gengismun að fullu og öllu fyr en fjármálum vorum er þannig komið gagnvart öðrum löndum, að bæði þær skuldir, sem ekki eru samningsbundnar, eru greiddar að fullu og að útfluttar vörur sjeu þeim mun meiri að verðmæti en innfluttar, sem nemur vöxtum og afborgunum af samningsbundnum erlendum skuldum. Og í þessu sambandi verður að muna það, að eftir því, sem samningsbundnu skuldirnar eru hærri, kemur þessi jöfnuður síðar. Því að eftir því þarf meira til vaxta- og afborganagreiðslu á ári hverju. Einmitt af þessari ástæðu eru erlendu skuldirnar hættulegar og ef ekki er athugað í tíma, getur svo farið, að þær gleypi verulegan hluta framleiðslunnar, jafnvel meiri hlutann, og þá munu allir sjá hvert stefnir.

Af þessu vona jeg að það sjáist, að besta ráðið til að koma gengismálinu í lag er minkun innflutnings. Jeg er sannfærður um, að vjer getum, án þess að mjög tilfinnanlegt sje, sparað 6–8 milj. kr. á ári nú fyrst um sinn, og ef til vill þarf þess ekki nema 2 ár, ef til vill 3. Og það er áreiðanlega betra að taka nærri sjer í fá ár en eiga á hættu skuldabasl og alt annað, sem því er samfara um ófyrirsjáanlegan tíma. Jeg ber virðingu fyrir þeim manni, sem neitar sjer um ýms þægindi nokkurn tíma, til þess að geta losnað úr skuldunum, en jeg á erfitt með að líta þann mann rjettu auga, sem jeg veit, að er skuldum hlaðinn, en hefir ekki menningu í sjer til að gera alvarlega gangskör að því að losna undan byrðinni, heldur stendur undir henni fyrirhyggju- og aðgerðarlaus uns hún sligar hann.

Skemtilegast og eðlilegast væri, að nægileg minkun innflutningsins kæmi af frjálsum eða óafvitandi samtökum landsmanna um sparnað, og jeg veit með vissu, að töluvert sterk alda gengur nú um landið í þá átt. Þetta sjest meðal annars á því, hversu mikið innflutningur hefir minkað á síðastliðnu ári, þótt til þeirrar minkunar liggi einnig aðrar ástæður. En þetta er ekki einhlítt, því að í hverju þjóðfjelagi eru jafnan nokkrir, sem eru með öllu andvaralausir í þessum efnum, og aðrir, sem telja sig hafa ráð á að neita sjer ekki um neitt, athugandi ekki það, að hver eyrir, sem fleygt er út fyrir erlendan óþarfa, er korn í skuldamælirinn. Og báða þessa flokka manna verður að neyða til að fylgjast með í sparnaðarhreyfingunni, og jeg sje ekki, að það verði gert á annan hátt en með lögboðnum innflutningshöftum. Jeg veit vel, að þau verða víða óvinsæl og koma hart niður á ýmsum en um það tjáir ekki að fást.

Jeg hefi töluvert um það hugsað, hvernig haga ætti höftum þessum, og get hvenær sem er komið með ákveðnar tillögur um það, ef krafist verður og þurfa þykir. Annars skal jeg taka það fram hjer, að jeg vildi á síðastliðnu hausti herða allverulega á innflutningshöftunum, en fjekk það ekki í gegn í stjórninni með því að samverkamenn mínir þar töldu það fara í bága við gerðir síðasta þings.

En í sambandi við þetta er þess að geta, að það er efamál eins og nú er komið, hvort innfl.höftin ein geta ráðið bót á ástandinu, sem er í peningamálunum. Allir vita að hjer er að rísa upp ný stjett manna, er hafa það starf með höndum að skifta á íslenskum og útlendum gjaldeyri, og afleiðingin af þessu er þegar orðin sú, að peningaverslunin fer að allmiklu leyti utan við bankanna, vegna þess að þeir vilja ekki og sjá sjer ekki fært að fylgjast með í kapphlaupinu um erlenda gjaldeyrinn. En þetta er hættulegt fyrir alla. Allir hljóta að sjá, að það er ógerningur fyrir bankana að stofna skuldir erlendis til hjálpar atvinnuvegunum, ef þeir eiga á hættu að fá ekki greiðslu erlendis fyrir afurðirnar, því að þá getur svo farið, að þeir standi með tvær hendur tómar, er greiðsludagur kemur. Það verður því að finna ráð til að veita erlenda gjaldeyrinum í gamla farveginn, gegnum bankana. Stórmikið í þessa átt mundu innflutningshöftin vinna, vegna þess að þau draga úr eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri, og þar með úr háu boðunum í hann, sem venjulegast munu koma frá þeim, sem flytja inn miður þarfan varning, því að sá varningur þolir mesta álagning.

Jeg er orðinn nokkuð langorður og sje mjer því ekki fært í þetta skifti að fara lengra út í þetta efni, þótt margt sje enn ósagt um það, en sennilegt er, að tækifæri verði til síðar að víkja nánar að þessum efnum og þá áskil jeg mjer að skýra betur, hvað fyrir mjer vakir.

Þegar þeir, sem nú óska að taka til máls, hafa lokið erindum sínum, legg jeg til, að frv. þessu verði vísað til fjárveitinganefndar og þessari umræðu frestað. Jeg hygg, að það muni ekki geta talist brot á þingsköpunum, þótt fjárveitinganefnd fjalli einnig um tekjubálkinn, og jeg er ekki í efa um að það er heppilegra en að skifta frv. milli tveggja nefnda, eins og gert hefir verið á undanförnum þingum.