17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

34. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Jeg vil leiðrjetta eitt atriði í ræðu háttv. samþingismanns míns, frsm. meiri hl. allshn. (J. Þ.). Hann sagði, að jeg hefði ekki skýrt rjett frá því, að meiri hlutinn hefði tvisvar beitt bolmagni við nefndaskipun í bæjarstjórn. Hann kvað það aðeins hafa skeð einusinni, og það var í vetur. En það skeði líka 1920, þegar skipað var í fastar nefndir. Þá var háttv. þm. (J. Þ.) ekki á fundi, og getur því ekkert um þetta fullyrt. Mjer gramdist satt að segja þetta tiltæki allmjög í fyrstu, en þegar allir meiri hluta fulltrúarnir tóku að afsaka sig á eftir og kváðu þetta aldrei skyldu koma fyrir aftur, hjelt jeg, að það væri alvara. Fyrir því hætti jeg við að flytja frv. um þetta efni í fyrra í góðri trú.

Auk þess lít jeg svo á, að enda þótt tilsk. frá 20. apríl 1872 hafi auðvitað ekki haft hlutfallskosningar fyrir augum, þá sje hún samt svo orðuð, að hún leyfi bæjarstjórninni það að ráða fundarsköpum sínum, og hæpin held jeg að sú röksemd sje, að bæjarstjórnin geti þetta ekki, og margir lögfræðingar munu vera á því, að hún hafi vald til þess. En um þetta þýðir nú ekki að fást, þar eð úrskurður hefir fallið í bæjarstjórninni á þá leið, að hún geti það ekki.

Finst mjer, að ekki verði tekið til greina, hvað meiri hlutinn vill í þessu máli, því að sannað er, að hann hefir beitt minni hlutann ofríki. Ekki er heldur mikið mark takandi á umsögn borgarstjórans, því að hann stendur einn að henni, en bæjarlaganefndin hefir ekki tjáð sig mótfallna frv.