16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

54. mál, fiskimat

Frsm. (Ólafur Proppé):

Fiskimatið fer nú eftir fiskimatslögunum frá 1909. Síðan hafa orðið allmiklar breytingar á útflutningi og sölu fiskjar og fiskiafurða, svo full nauðsyn er orðin á að endurskoða þau lög. — Á síðasta þingi var gerð breyting á þessum lögum, en það hefir komið í ljós síðar, að hún var ekki nægileg.

Þessvegna hefir þetta frv. komið fram. Er það að mestu sniðið eftir lögunum frá 1909 og síðari viðauka við þau. Aðeins hefir verið bætt inn ákvæðum, er nauðsynleg þóttu. Frv. er samið af yfirfiskimatsmönnunum, í samráði við skrifstofustjóra atvinnumáladeildarinnar. Sjávarútvegsnefnd hefir haft frv. til meðferðar og engar verulegar breytingar gert á því.

Samkvæmt lögunum frá 1909 var skyldumat einungis á fullverkuðum fiski til Spánar og Ítalíu; síðar þótti nauðsynlegt að telja Portúgal með. Aðalbótin, sem frv. þetta fer fram á, er skyldumat á óverkuðum fiski, er til Suðurlanda er seldur eða innanlands. Hefir það ekki verið í framkvæmdinni, þótt ákvæði hafi verið til um það, af því að menn hefir greint á um skilning á því. En mat þetta er nú orðið mjög nauðsynlegt, því nú er fenginn töluverður markaður á Ítalíu fyrir óverkaðan fisk, sem ekki þektist 1909. Í öðru lagi er það eitt af aðalskilyrðunum fyrir góðum markaði, að fiskurinn sje vel undirbúinn í söltuninni. Ella getur hann aldrei orðið góð vara. Með ljelegri söltun getur fiskurinn þó ef til vill orðið 2. eða 3. flokks vara, en það er engan veginn nægilegt. Íslenski fiskurinn verður að vera betri en annara þjóða, til þess að geta staðist samkepnina.

Hið sama gildir um hinn svokallaða Labradorfisk. Ítalskir kaupmenn fara nú fram á, að á honum sje skyldumat.

Jeg mun eigi taka fyrir einstakar greinar frumvarpsins, þar eð greinargerðin er allítarleg, enda samin af skrifstofustjóra atvinnumáladeildarinnar og matsmönnunum.

Það er ekki neinum vafa undirorpið, að framleiðsla fiskjar er dýrari hjá okkur heldur en hjá nokkurri annari þjóð, og þeim mun meiri nauðsyn ber til, að við vöndum vöruna svo vel, að hún beri af allri annari samskonar vöru. Því aðeins getum við haldið velli í samkepninni við aðrar þjóðir.

Jeg vona að háttv. deild taki máli þessu vel og vísi því til 2. umr. Það er komið frá sjávarútvegsnefnd og þarf því ekki að vísa því til nefndar.