22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Það stendur svo á, að frsm. að fyrri hl. fjárlaganna (M.P.) er veikur og getur ekki komið, svo jeg hefi tekið að mjer að segja nokkur orð um þennan kafla.

Áður en jeg byrja að ræða hinar einstöku greinar frv., skal jeg segja nokkur orð um hag landsins alment. Því hefir verið óspart haldið fram, að voði sje fyrir dyrum hvað snertir fjárhag landsins, og mun jeg segja nokkur orð því til skýringar, þegar svo mjög er þeyttur lómslúðurinn.

Jeg hefi nú með póstinum fengið brjef og skilríki fyrir því, að útlendir fjármálamenn hafa reiknað út hag landsins og komist að þeirri niðurstöðu, að hann sje alls ekki svo bágborinn og að engin ástæða sje að tala um, að nokkur voði sje á ferðum. Þegar dregnar eru frá umsamdar skuldir landssjóðs, nema skuldir landsins rúmum 16 miljónum króna. Hafa þær minkað um 12 miljónir á síðasta ári, þrátt fyrir illa sölu og margt andstreymi. Í þessum skuldum eru taldar allar verslunar- og bankaskuldir. (Í þeim tólf miljónum, sem jeg nefndi, mun vera talinn Íslandsbankahlutur úr láni landsins, en þær eru aftur taldar í 16 miljónunum). — Nú stendur alt í blóma; fiskurinn veður uppi og útlitið er hið besta, bæði til lands og sjávar. Jeg hygg því ekki, að það sje ofsagt, að allar líkur sjeu til, að allar skuldirnar, sem eftir eru verði borgaðar upp á þessu ári og við verðum í byrjun næsta árs langt komnir að gleyma því, að fjárkreppan hafi verið til. En þótt mönnum þyki þetta nokkuð mikið bjartsýni, getur samt engum fundist gapalega áætlað, að helmingurinn af skuldunum verði borgaður í árslok, og þá ættu ekki að vera nein tormerki á að semja um borgun á afganginum, svo að það sýnist lítil ástæða til að þeyta lómslúðurinn dag og nótt út af þessu.

Þetta skal jeg látið sagt um hag landsins alment, og gæti jeg fært frekari sönnur á mál mitt, ef þurfa þætti, en jeg býst við, að aðrir háttv. þm. fái innan skamms þær frjettir, sem jeg hefi þegar fengið um þetta efni.

Jeg mun þá fyrst taka til meðferðar frv. stjórnarinnar og bera það saman við fjárlögin í fyrra, og síðan gera grein fyrir afstöðu nefndarinnar. Jeg hefi tekið hjer saman nokkrar tölur í frv. stjórnarinnar, sem beint sýna, að þær stafa af dýrtíðarlækkuninni. Til þess telst í 9. gr. kr. 50000, í 10. gr. kr. 28320. í 11. gr. kr. 72400. í 12.gr. kr. 191536 og í 13. gr. kr. 129410, eða samtals kr. 471666. Aðrar lækkanir á 9.–13. gr., sem ekki geta talist til dýrtíðarlækkunar. nema kr. 245300, en þar á móti kemur hækkun á 7. gr., sem nemur kr. 79843, svo lækkunin alls í þessum kafla verður kr. 637123.

Á síðari kaflanum nemur dýrtíðarlækkunin á 14. gr. kr. 358530, 15. gr. kr. 53870, 16. gr. kr. 134460 og 18. gr. kr. 28887, eða alls kr. 575747. En samtals nemur öll lækkunin á þessum kafla kr. 696456.

Dýrtíðarlækkunin á báðum köflunum nemur því kr. 1047413, en aðrar lækkanir kr. 286346, svo lækkunin verður alls kr. 1333759.

Af þessu geta menn sjeð, að þótt stjórnin hafi viljað spara, hefir henni samt ekki tekist að verða sparsamari en fjárveitinganefnd í fyrra.

Hjer skal jeg til samanburðar skýra frá atgerðum nefndarinnar. Lækkanir hennar nema kr. 486880, en hækkanir kr. 112100, svo lækkunin verður samtals um kr. 375000. Dragi maður frá hallann sem var á fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar kemur út kr. 177200 sem hreinn ágóði fyrir landssjóðinn. Þar við bætast kr. 20000, sem gleymst höfðu, svo nefndin skilur þá við frv. með jafnmiklum ágóða og hallinn var á stjórnar frv.

Nefndin hefir lagt ríka áherslu á að skila frv. hallalausu; en jeg skal taka fram frá mínu eigin brjósti, að mjer finst hún hafi gengið helst til langt í því efni. Jeg vil að vísu sem frsm. ekki ásaka nefndina, heldur aðeins skýra frá gerðum hennar og að jeg var henni í ýmsum atriðum ósammála.

Þá kem jeg að tekjukaflanum.

Nefndin hefir lagt til, að erfðafjárskatturinn verði hækkaður um 25 þús. kr. og hefir hún fyrir sjer í því efni síðustu skýrslu fráfarinnar stjórnar. Þar sem skatturinn hefir reynst 70000 kr. Aftur á móti þótti nefndinni tóbakstollurinn of ríflega áætlaður, af því að á síðasta ári hefir hann ekki reynst meiri en 400000 kr., og hefir því lagt til, að hann yrði færður niður um 100000 kr. Sama er að segja um vörutollinn. Nefndin býst við, að þjóðin muni verða sparsamari nú en á undanförnu ári, og því flytja minna inn; hefir hún því lagt til að liðurinn yrði lækkaður um 200000 kr. Aftur á móti sjer nefndin enga ástæðu til, að pósttekjurnar verði minni nú en á síðasta ári, og leggur því til að sá liður verði hækkaður um 100000 kr. Sama er að segja um símatekjurnar, og hefir nefndin hækkað þann lið um 75000 kr.

Tekjuliðirnir lækka þá alls um 100000 kr.

Áætlunin er ákaflega varleg og má búast við miklum mun meiri tekjum, einkum ef — eins og nú er útlit fyrir — verður góðæri.

Um 7. lið 2. gr. skal jeg geta þess, að þar eru áætlaðar 600000 kr. tekjur af útflutningsgjaldi. En þar að lútandi lög munu falla úr gildi í árslok, nema samþykt verði að framlengja þau. Það liggur fyrir frv., er fer í þá átt, og er því ekki auðið að segja neitt um þennan lið fyr en sjeð er, hvaða byr það frv. fær í háttv. deild.

Jeg má segja, að ekki eru fleiri atriði í tekjukaflanum, sem nauðsyn er að fara orðum um. Býst jeg ekki við miklum umræðum um hann, enda er áætlunin varleg frá hendi stjórnarinnar og ekki síður frá nefndarinnar hendi.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni.