22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1923

Fjármálaráðherra (Magn.J.):

Jeg get fyrir mitt leyti tekið undir með háttv. frsm. (B.J.) viðvíkjandi brtt. við tekjuliðina. Þær eru eins og hann tók fram, í samræmi við reynslu síðasta árs. Það er máske óvissast að gera ráð fyrir auknum símatekjum, en þó er áætlunin lægri en raun varð á síðasta ár.

Af þeim liðum, sem ekki hafa verið gerðar brtt. við, er óvissastur 2. liður í 2. gr., um tekju- og eignarskatt. Það er nýr skattur, sem ekki hefir reynslu við að styðjast og sjálf skattalagningin er svo stutt á veg komin, að þar er við engin gögn að styðjast, aðeins getur maður gert sjer hugmynd um árangurinn. en eftir því útliti virðist ekki óvarlega farið.

Annað, sem jeg vildi athuga við tekjuskattinn. er, að mikill munur er á milli þess sem á er lagt, og þeirrar upphæðar sem að lokum greiðist í ríkissjóð, einkum þegar mikill áramunur er hvað afkomuna snertir. Þó ekki sje slíku til að dreifa, mun allajafnan mega reikna með 20% afföllum, og þyrfti þá hinn niðurjafnaði skattur að nema um 1 miljón.

Annars get jeg tekið undir með háttv. frsm. (B. J.), að það er ekki rjett að vera altaf að þeyta lómslúðurinn. Hagurinn batnar ekkert við það eitt.

Það er nú von um og útlit fyrir að fjárhagurinn fari batnandi, enda væri ekki gott annað. Samt má ekki blanda vonum sínum saman við raunveruleikann eða yfirstandandi ástand.

Mjer þykir vel farið hve gætilega háttv. fjárveitinganefnd hefir farið með frv., og álít það einu rjettu leiðina; því þótt útlitið sje gott og menn geri sjer fagrar vonir, er of snemt að fara að taka forvexti af þeim strax.