22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Þeir töluðu báðir um tekju- og eignarskattinn, núverandi fjrh. (Magn.J.) og hinn fyrverandi (M.G.). Jeg er sannfærður um, að áætlun nefndarinnar er mjög varleg, því að í Reykjavík einni er lagður á skattur, sem nemur allri áætlunarupphæðinni. (Fjrh.: Það er ekki búið að greiða hann). Nei, að vísu og það kann að verða sumum um megn. En þessi tala gefur góðar vonir, og á þeim vonum verður hæstv. fjrh. (Magn. J.) að byggja. En líka má hann vel byggja á fögrum vonum um gengi atvinnuveganna. Það liggur í augum uppi, að þegar menn hafa minkað skuldir sínar um 10 milj. kr. á hörðu ári, þá munum vjer því betur búa í veltiári.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.) mintist á reikning þann, sem jeg gerði í fyrri ræðu minni. Jeg skal nú geta þess, að skrifari nefndarinnar gerði þennan útreikning og hann hafði enga ástæðu til þess að láta annað koma fram en hið rjetta. Vitanlega er ekki ugglaust, að þetta standi alveg heima, en varla mun það miklu skakka.

Ekki vil jeg þrátta við háttv. þm. (M.G.) um það hvor sje sparsamari fjvn. eða fyrverandi stjórn. Hygg jeg að báðar hafi verið fullsparsamar. Þó vil jeg geta þess fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, að hann setti sjer fyrir mark og mið að skila frv. hallalausu, en það gerði stjórnin ekki. En vitanlega eru þetta aðeins tillögur hjá nefndinni, en eftir þeim tillögum verður hún að reikna, þótt hún viti ekki, hvort þær ganga fram. Það er vilji nefndarinnar, sem kemur fram í till., en vilji háttv. deildar kemur fram í því sem samþykt verður.