13.03.1922
Efri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg ætla að bæta nokkrum orðum við greinargerð frv. Háttv. deildarmönnum mun vera kunnugt um það, að háttv. 2. þm. G.-K. (B. K) hefir borið fram frv. á þskj. 44, sem fer í sömu átt og þetta frv. Nefndin hafði það frv. til meðferðar, en þótti rjettara að bera fram nýtt frv. heldur en að breyta hinu, því að þær breytingar hefðu orðið með því móti, að um nýtt frv. hefði hvort sem er verið að ræða.

Það getur að vísu verið álitamál, hvort ekki hefði verið rjettara að breyta hinu frv., en það er í sjálfu sjer lítilfjörlegt atriði, og skal jeg ekki fjölyrða um það. Jeg þarf ekki að fara út í þau atriði, sem háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) talaði um við 1. umræðu síns frumvarps. Nefndin var því sammála, enda hefir hún tekið hans frv. upp í frv. sitt. Nefndin hefir aðeins gert skýrari ákvæðin um útsvarsskyldu þeirra manna, er búskap reka, verslun eða aðra arðsama atvinnu í öðrum hreppi en þeir hafa lögheimili sitt, því oft vilja rísa deilur um það mál. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál og vona, að frv. verði vísað til 2. umr. Jeg tel ekki þörf á að vísa því til nefndar, þar sem það er borið fram af nefnd.