13.03.1922
Efri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Mjer virðist undarlegt, að nefndin skuli hafa borið fram nýtt frv., í stað þess að breyta frv., sem fyrir lá. Það hefði sparað tíma og kostnað, að halda sjer við það frv., en úr því, sem komið er, sje jeg ekki ástæðu til að gera þetta að deilumáli.

Jeg verð að telja það álitamál, hvort þessar breytingar gangi ekki fulllangt. Hjer er felt ákvæði úr lögunum frá 1919, sem jeg tel vafasamt, að bót sje í að fella. Jeg vil láta það standa, að ekki megi leggja útsvar á fiskiveiðar, þótt reknar sjeu úr öðrum hreppi, en innan sömu sýslu, en tel hitt of langt farið, að þetta megi ekki gera við sama flóa, þótt margar sýslur liggi að. Þetta ákvæði fellur burtu, ef frv. er samþykt óbreytt. Jeg teldi heppilegra að halda þessu ákvæði og vil skjóta því til nefndarinnar, að hún athugi þetta til næstu umræðu, því að öðrum kosti mun jeg bera fram till. í þessa átt.

Sveitarstjórnarlögunum hefir verið vísað til stjórnarinnar til endurskoðunar, því að menn hafa mikið við þau að athuga. Það væri æskilegast, að þessi endurskoðun gæti farið fram sem fyrst, í stað þessara eilífu smábreytinga. En þó eru þær betri en að búið sje áfram við gallana. Á Austurlandi er t. d. almenn óánægja út af því, að reikningsár hreppanna er fardagaár, en ekki almanaksárið. Mönnum hefir komið það illa. Auk þess þykir mönnum óheppilegt, að útsvarið skuli eiga að greiðast í einu lagi, og væri heppilegra, að það væri gert í tvennu lagi. Margt fleira finna menn að þessum lögum, þó að jeg hirði ekki að telja það fram hjer, en þessu skýt jeg fram stjórninni til athugunar.