13.03.1922
Efri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) tók það fram, að ekki hefði verið þörf á nýju frv. Um það vil jeg ekki deila. Jeg vísa til þess, sem jeg sagði áðan. Þá benti hann á, að breyting frv. gengi fulllangt viðvíkjandi útsvari þeirra, sem vinna í öðrum hreppum yfir stuttan tíma, en eru úr sömu sýslu, t. d. við útræði. Jeg tel sjálfsagt að taka þetta atriði til athugunar til næstu umr., og býst jeg við, að nefndin geri það.

Sami háttv. þm. talaði um óánægju út af reikningsárinu, að það væri miðað við fardaga- en ekki almanaksár. Jeg hefi ekki orðið var við þessa óánægju, en hinsvegar vil jeg ekki neita því, að hún geti átt sjer stað.

Sömuleiðis talaði hann um óánægju yfir, að gjalddagi á sveitargjöldum væri aðeins einn, og vildi hafa þá tvo eða fleiri. Jeg skil ekki, að þeir hreppar, sem vilja haga þessu svo, geti ekki gert það án lagabreytingar.

Þá sný jeg mjer að ræðu hæstv. atvrh. (Kl. J.). Jeg get verið honum þakklátur fyrir það, hve vel hann tók í aðalatriði þessa máls, að hægt væri að leggja útsvar á laxveiði. Nefndin er honum alveg sammála í því efni. En hann talaði einnig um tilhneigingu til að færa niður tímann, sem gerði menn útsvarsskylda. Það mun hafa verið alment sagt, því að þessa verður ekki vart í frv. Engar breytingar farið fram á í þá átt, og svo hefir heldur ekki verið gert á undanförnum þingum. Hjer er farið fram á 3 mán., og er það orðið gamalt og miðað við þann tíma, sem gildir um aðrar atvinnugreinir. Hæstv. atvrh. (Kl. J.) vítti það, að í greinargerð frv. er talað um að leiðrjetta misskilning á framkvæmd laganna. Það getur verið, að þetta sje ekki heppilega orðað, en það, sem fyrir nefndinni vakti, var að leiðrjetta og bæta úr óskýrum ákvæðum, sem hafa orsakað það, að lögin hafa verið framkvæmd með öðru móti en til mun hafa verið ætlast í upphafi.

Þá hefir verið um það talað, að lögin eigi að endurskoða, og því sje óþarfi að vera að breyta þeim nú. En jeg tel sjálfsagt að gera þegar í stað þær breytingar, sem sýnilega eru til bóta, því ekki er að vita, hvenær endurskoðun laganna fer fram. Hún getur dregist, og er þá betra að bæta úr þegar í stað en að lifa í voninni. Eins er það gott, að þetta mál hafi verið rætt og undirbúið. Það verður til þess, að endurskoðun laganna getur borið betri árangur, þegar úr henni verður.