13.03.1922
Efri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg lít eins á málið og háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.). Þetta var í lögum, að leggja mátti útsvar á atvinnurekendur innan sama flóa og lögheimili atvinnurekandans var. Þessu var breytt af allshn. 1919. Jeg var þá í nefndinni, og náði breytingin fram að ganga svo að segja umræðulaust. Nú kemur strax fram óánægja, sem hefir við talsvert miklar ástæður að styðjast. Það er mjög svo óviðeigandi, að maður, sem rekur atvinnu innan sinnar eigin sýslu, aðeins í annari sveit en sinni eigin, þurfi að gjalda útsvar annarsstaðar en í sinni sveit. Það virðist því vera sanngjörn miðlun, sem háttv. 2. þm. S.-M. fer fram á. Það hefir ekki verið venja að leggja útsvar á þá, sem stunda róðra í Bolungarvík víðsvegar frá Djúpinu. En til þess var þó full heimild. Annað mál, hefði hjer verið að ræða um menn úr annari sýslu, þá hefði eflaust verið lagt á þá, og þá ekki nema rjettmætt. Þrátt fyrir alt, þá verð jeg að álíta, að breyting þessi sje ekki bráðnauðsynleg á þessu þingi. En hvað viðvíkur laxinum, eins og hæstv. atvrh. gat um, þá finst mjer alt öðru máli að gegna, en finst þó ekki nauðsynlegt að hraða þessu svo mjög, þar sem það liggur við borð, að grandskoða og breyta sveitarstjórnarlögunum og ákveða nýja gjaldstofna fyrir sveitirnar.

Jeg heyrði að hæstv. atvinnumálaráðherra lagði með þessu og finst, eins og jeg tók áður fram, engin nauðsyn að hraða þessu eina atriði eða breytingu. Vegna alls þessa leyfi jeg mjer að koma með svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Í trausti þess, að stjórnin verði við áskorunum Alþingis um endurskoðun á skattaálöguákvæðum sveitarstjórnarlaganna og leggi fyrir næsta þing frumvarp um breytingar á þeim, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.