15.03.1922
Efri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg lagði á móti frv. þessu við fyrstu umræðu; þó ekki fyrir þá sök, að jeg væri á móti því að leggja á laxveiðiafnot. En jeg taldi þetta frv. svo smávægilegt, að það svaraði ekki kostnaði að koma því gegnum þingið. Það má búast við, að brtt. komi fram við frv. ekki síst í háttv. Nd., því altaf er óánægja með ýms ákvæði sveitarstjórnarlaganna og nóg tilhneiging til málalenginga í þinginu, oft engu síður um smámál. Þar sem nú samþykt var í fyrra þingsályktun um að skora á stjórnina að taka sveitarstjórnarlöggjöfina sem fyrst til endurskoðunar, finst mjer rjettast að láta þetta bíða, og nú er vitanlegt, að byrjað er á undirbúningi undir slíka endurskoðun. Hagstofan er þegar byrjuð að senda fyrirspurnir út um land viðvíkjandi fátækralögunum, og virðist rjettast, að þau og sveitarstjórnarlögin sjeu endurskoðuð samtímis, Þó að sjerstaklega þurfi að athuga um tekjustofna sveitarsjóðanna, þá er það margt fleira, sem athuga þarf, t. d. það, hvort ekki sje rjett að breyta reikningsári þeirra og miða það við nýár, í stað þess, að það er nú miðað við fardaga. Þetta mun vera vilji margra sveitarstjórna víða um land. Víða er óánægja með sveitfestistímann og fleira og fleira.

Jeg lít svo á, að þingið verði að treysta því, að stjórnin geri sitt besta í þessu efni. Vil jeg því leggja það til, að þessu frv. verði vísað til stjórnarinnar, og leyfi mjer að afhenda hæstv. forseta tillögu til svo hljóðandi rökstuddrar dagskrár:

„Í því trausti, að stjórnin leggi fyrir Alþingi næsta, ár, eða svo fljótt sem því verður við komið, ítarlega endurskoðun á allri sveitarstjórnarlöggjöfinni, tekur deildin fyrir mesta mál á dagskrá“.