22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1923

Pjetur Þórðarson:

Það er sjerstaklega háttv. frsm. (B.J.), sem hefir gefið mjer tilefni til að taka til máls, með því, sem hann sagði í framsöguræðu sinni, sjerstaklega um tvo liði í samgöngumálakaflanum, en það voru símamál og vegamál.

Hann virtist vera að berjast við að sýna fram á það, ef um tvent væri að velja að vera án, annaðhvort síma eða vegi, þá taldi hann sjálfsagt að vegirnir yrðu að falla fyrri úr sögunni.

Jeg hugsa nú, að þær ástæður, sem hann færði fram fyrir þessu, hafi ekki sannfært einn einasta mann, og ekki einu sinni hann sjálfan; hann hefir því talað þetta alt fyrir gýg.

Auk þess, sem jeg hefði viljað andmæla þessari skoðun, hefir líka hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl.J.) tekið í sama strenginn og tekið fram ýmislegt til mótmæla háttv. frsm. Vil jeg samt fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 126, 2. lið, frá minni hluta fjárveitinganefndar, sem gengur í gerða. Um þessa fjárveitingu er það fyrst og fremst að segja að hún gengur að mestu leyti til innanlands framkvæmda. því að það er aðeins hverfandi hluti hennar sem gengur út úr landinu, til þess að kaupa efni til smærri brúagerða, ræsa o. þ. h. En þar er öðru máli að gegna með símana; til þeirra þarf að kaupa allmikið efni frá öðrum löndum og verða allir að hafa hugfast, að á þessu er ákaflega mikill munur, og slíkt verður að spara eftir því sem mögulegt er. Þegar það er fjárskortur, sem veldur því, að fella verður niður eitthvað af þessum nauðsynja framkvæmdum.

Mjer er það fyllilega ljóst, að nefndin hefir ekki lagt til að fella niður símalagningar og vegagerðir, nema af því að hún hefir talið það brýnustu nauðsyn, en sú nauðsyn er öllum alkunn, því að hún er hin margumtalaða peningakreppa.

En þó að háttv. minni hluti fjárveitinganefndar hafi komiðð með þessar brtt., þá er háttv flutningsm. það fyllilega ljóst að þær eiga sjer fáa formælendur, og eru því meira fram komnar til þess að sýnast en til þess að verða að raunveruleika. (B.J.: Eru þær ekki rjett prentaðar?) Já, það er áreiðanlegt, að prenta þurfti þær upp, svo að eitthvað hefir verið bogið við þær í fyrstu.

Það er engum efa bundið, að það horfir töluvert öðruvísi um þessa fjárveitingu en margar aðrar, þar sem nær því alt það fje, sem til vega er lagt, gengur í gegnum hendur landsmanna sjálfra, og kemur þeim því beint að notum, ekki aðeins á þann hátt, að það veiti atvinnu, sem annars er síst of mikil, heldur bætir það einnig vegina, og þar með samgöngurnar á landi, og er í einu orði sagt mjög til hagsbóta fyrir almenning. Jeg get því tekið undir með hæstv. atvinnumálaráðherra, er hann sagði, að engin krafa væri enn þá þekt um nokkurn vegspotta, sem ekki væri bráðnauðsynlegur, og það er undantekningarlaust orðið að staðreynd, að þau hjeruð, sem besta hafa vegina, eru blómlegustu hjeruð landsins, og því um leið mestu menningarstoðirnar undir þjóðfjelaginu. Góðir vegir og bættar samgöngur yfirleitt eru því eitt helsta lífsskilyrði þjóðarinnar. Það getur nú vel verið, að þetta sje meira áhugamál fyrir mjer en mörgum öðrum háttv. þm., af því að jeg hefi búið alla æfi í því hjeraði, sem mjög tilfinnanlega hefir altaf vantað vegi, og fyrir því hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 131. I., sem gengur í þá átt að hækka tillag til akfærra sýsluvega. Er það því von, að hæstv. atvinnumálaráðherra finnist það andstætt hvað öðru, er nokkur hluti fjárveitinganefndar leggur til að fella niður fjárveitingar til þjóðvega og akbrauta, þá skuli aðrir fara fram á ekki aðeins að halda styrknum til sýsluvega, heldur líka að hækka hann, eins og till. mín fer fram á. En þessi till. mín byggist á hinum mörgu og sanngjörnu kröfum, sem fram eru bornar og hæstv. atvinnumálaráðherra gat um, um að fá þetta fje — og eins og kunnugt er hefir vegamálastjóri yfirumsjón með útbýtingu á þessu fje, en hann er aftur bundinn við takmörk fjárveitingarinnar, og sýslufjelögin geta ekki farið fram á að fá það, nema hann leggi með því.

Jeg er því sannfærður um, að ef þessar kröfur væru ekki fyrirfram hindraðar, þá væru þær þó miklu meiri en þær eru nokkurn tíma nú. Eins og háttv. þm. er kunnugt, er þessi styrkur áætlaður í núgildandi fjárlögum 50000 krónur en fráfarandi stjórn hefir ekki sjeð sjer fært að hafa hann meiri en 40 þús. krónur.

Jeg vænti þess nú að háttv. þingmenn sjái þessa nauðsyn og greiði ekki atkvæði með því að lækka þennan styrk, heldur þvert á móti, og greiði því atkvæði með brtt. minni á þskj. 131; og sjerstaklega eru það háttv. þingbændur sem jeg vildi skjóta þessu til, því að þeim treysti jeg best til að líta með sanngirni á þetta mál.

Mjer er fyllilega ljós sú mikla nauðsyn, sem ríkissjóði er á því að minka útgjöld sín, og fyrir því hefi jeg komið með brtt. á þskj. 131, VI. lið, sem gengur í þá átt að spara honum ekki aðeins þau auknu útgjöld til framhalds sýsluvegunum, sem till. mín á þskj. 131, I. lið, fer fram á, heldur og töluvert meira.

Það skyldi enginn skilja það svo, að jeg telji ekki styrkinn til búnaðarfjelaganna nauðsynlegan, heldur geri jeg þetta fyrir þá sök, að jeg tel miklu nauðsynlegra að hækka tillagið til framhalds sýsluvegunum, Skal jeg svo taka það strax fram að samþykki hv. deild ekki þessa brtt. mína, um að hækka styrkinn til viðhalds sýsluvegunum, þá mun jeg taka aftur brtt. mína um að fella niður styrkinn til búnaðarfjelaganna.

Að lokum vil jeg aðeins minnast á þá till. sem háttv. þm. Eyf. (St.St.) kemur með um styrk til bátaferða til Grímseyinga. Jeg álít að það geri hvorki til nje frá með svo litla upphæð og að ekki þurfi að slíta þann lið út úr fjárveitingunni til bátaferða í fjárlagafrv. Svo skal jeg ekki lengja umræðurnar meira að sinni, ætla ekki að gera grein fyrir atkvæði mínu um hinar ýmsu breytingartillögur.