10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Baldvinsson:

Ákvæðin í þessu frv. um útsvarsálagningu á slægjuafnot hafa orðið þess valdandi, að brtt. á þskj. 225 er fram komin. Þakka jeg þeim háttv. þm., sem hafa flutt hana, en verð hins vegar að furða mig á því, að háttv. frsm. landbn. (Þorl. J.) skuli ekki geta fallist á jafnsanngjarna tillögu. Fyrir brtt. á þskj. 229 liggja að nokkru sömu rök.

Sú breyting á sveitarstjórnarlögunum að því er laxveiðina snertir, sem frv. fer fram á, mun fram komin vegna þess, að mönnum hefir ekki þótt rjett, að þeir, sem laxveiðirjett eiga í veiðiám, en hafa veiðina sjálfum sjer til skemtunar eða leigja veiðina öðrum á sama hátt, geti sloppið við útsvar. En hitt verð jeg að telja vafasamt, að rjett sje, svo sem orðalag frv. gerir, að ýta undir hreppsnefndir að leggja útsvar á mann, þótt hann kæmi sjer til skemtunar til þess að veiða lax í einn eða tvo daga með veiðistaf. Hitt býst jeg aftur við, að flestir telji rjettlátt, að leggja skatt á ár eða veiðivötn, þó veiðin sje eingöngu notuð til skemtunar. Það er einmitt þetta, sem brtt. á þskj. 229 gerir ráð fyrir, að leggja megi útsvar á veiðiár, þótt utanhreppsmenn eigi þær, án þess þó jafnframt að gefa nokkuð undir fótinn með það, að leggja útsvar á menn, sem aðeins veiða þar 2–3 daga. Myndi slíkt útsvar líka helst koma niður á kaupstaðabúum, sem kaupa sjer rjett til að veiða nokkra daga í þessum ám. Munu allir, sem kunnugir eru þessu, vita, að þetta er bara til skemtunar, en bændur hafa hinsvegar drjúgar tekjur af. Virðist því rangt að leggja skatt á veiðendur, en ekki þá, sem tekjurnar hljóta.

Háttv. frsm. mintist á það, að jarðirnar hjer í kringum Reykjavík sjeu svo rúnar af gæðum og gripum, að hrepparnir hafi ekki lengur neitt til að leggja útsvar á. Kennir hann þetta nálægð þeirra við höfuðstað landsins og skaðlegum áhrifum hans. Þetta tel jeg ekki rjett álitið. Jarðirnar í Mosfellssveitinni hafa aldrei verið neinar landkostajarðir. Og þegar litið er til hins hrjóstruga jarðvegs þar, þá getur það varla dulist, að búskapurinn er þar betri en vænta mætti eftir landgæðum. Verð jeg að halda því fram, að Reykjavík hafi alls ekki plokkað neitt af þeim. Og þótt lengra sje litið, eins og t. d. til Borgarfjarðar, þá er sama að segja um hann. Þaðan kaupa menn hjeðan slægjuafnot, og taka bændur víst fult gjald fyrir og ábatast á kaupunum. Ætti að mega leggja á það sem tekjur hreppsmanna, en ekki hinna, sem kaupa slægjurnar. Annars stafar ekkert gott af þessum eltingaleik og væri betur, að hrepparnir gengju ekki eins langt í þessum efnum sem þeir gera, eða þm. fyrir þeirra hönd virðast vilja vera láta.

Þá vil jeg benda á annað. Í brtt. á þskj. 225 er talað um, að leggja megi útsvar á hvalveiði og atvinnu útlendra skipa við verkun á síld á höfnum inni. Þetta hefir lengi staðið í sveitarstjórnarlögunum, en virðist nú úrelt orðið. Því eins og menn vita, þá er nú á leiðinni frv. til laga um fiskiveiðar í landhelgi, og er þar tekið fram, að útlendingar megi ekkert hafast við inni á höfnum til að gera að fiski eða til neins slíks, heldur aðeins til að leita skjóls gegn stormi eða annari hættu. Nú er hjer um bil áreiðanlegt, að þetta frv. verður samþ., og er þá heldur hjákátlegt að samþykkja jafnframt ákvæði sem þessi, sem gera ráð fyrir tekjum af atvinnurekstri, sem bannaður er með lögum. Með því væri ef til vill útkjálkasveitum landsins freistað til þess að leyfa útlendingum að vera í landhelgi, þótt lögin bönnuðu það, bara til að fá útsvarið í sveitarsjóðinn. Er því auðsætt, að frv. gerir ráð fyrir alt öðru ástandi en verður þegar frv. um fiskiveiðar í landhelgi hefir verið samþykt. Get jeg því, af þessum ástæðum, tekið undir það með háttv. þm. Barð. (H. K.), að rjettast sje að vísa þessu máli til stjórnarinnar.