10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki ganga á það samkomulag, sem háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) lýsti yfir, að við hefðum gert okkar í milli í þessu máli. Jeg ætla aðeins að taka til athugunar mótmælin, sem fram komu gegn því, sem háttv. frsm. (Þorl. J.) sagði um ástandið hjer í nágrenni Reykjavíkur. Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) kvað háttv. frsm. þar hafa mælt um of. En jeg skal í því sambandi aðeins benda á tvær jarðir, sem dæmi upp á það, hver áhrif hinn takmarkalausi heyflutningur af jörðunum hefir á ræktun þeirra, og sem sýnir ljóslega, hver áhrif þetta hefir á framtíð þjóðarinnar, að því leyti sem hún byggist á landbúnaðinum eða ræktun landsins. Báðar þessar jarðir eru ofan fjarðarins.

Annari jörðinni fylgja 5 hjáleigur, og var á þeim búið góðum búum með sæmilegum efnum og góðri afkomu, en á heimajörðinni rekið stórt bú. — Nú eru hjáleigurnar allar komnar í eyði og á heimajörðinni hefir undanfarin ár nálega enginn búskapur verið í hinni rjettu merkingu þess orðs. Það hafði sem sje verið tekinn upp sá siður að leigja út slægjurnar og taðan flutt í burtu og jörðin þannig komin í örgustu niðurníðslu. Það má því um þessa jörð segja, að hún sje að mestu leyti glötuð sem tekjustofn fyrir viðkomandi hreppsfjelag, því hinn eiginlegi ábúandi á jörðinni er ekki fær um að inna af hendi til hreppsins nema sem svarar einum tíunda hluta þess, sem ætla má, að goldist hefði, ef jörðin væri í góðri rækt.

Á hinni jörðinni var fyrir nokkrum árum stór búskapur, um 300 fjár og stórt hrossa- og kúabú, en nú er þar nálega enginn búpeningur, því alt heyið er flutt til Reykjavíkur. Afleiðingin verður því sú, að þær jarðir, sem þannig eru leiknar, ganga mjög fljótt úr sjer, og að því rekur, sje ekki tekið í taumana, að þær eyðileggjast með öllu sem tekjustofn þess hrepps og sýslufjelags, sem þær eru í, og ætti þetta að vera nægilegt til að skýra, hversu nauðsynleg og sanngjörn þessi álagningarákvæði eru. Jeg veit að vísu vel, að þau eru enganveginn nægileg til að fyrirbyggja þetta, en ættu þó að eiga þátt í að reisa dálítið rönd við, að þessi siður verði alment tekinn upp, og að jarðirnar þess vegna fari algerlega í niðurníðslu. Ástandið yrði eflaust ennþá verra, ef þessara ákvæða nyti ekki við.

Afleiðingin af þessari heysölu hefir líka komið fram í því, að menn úr kaupstöðunum hafa heldur viljað leigja slægjur og spekúlera með heyið en fara í kaupavinnu. Mætti telja fleira til, ef þörf þætti.