10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki lengja mikið umræðurnar um þetta mál.

Háttv. frsm. sagði, að jeg hefði borið háttv. nefnd á brýn, að hún vildi ná í peninga frá öðrum. Það hefi jeg ekki sagt, en jeg sagði, að hún væri ekki eftirbátur sumra hreppsnefnda, er vildu fara í vasa annara hreppa eftir peningum.

Þá sagði hann, að jeg hefði ekki komið með nein dæmi til sönnunar máli mínu. Það eru nú hans orð, en jeg álít mig hafa fært betri rök fyrir mínu máli heldur en háttv. nefnd fyrir sínu.

Háttv. frsm. sagði, að jeg hefði ekki nefnt nein dæmi. Þetta er ekki rjett. Auk nokkurra dæma, sem jeg hefi þegar nefnt, skal jeg nefna Oddbjarnarsker; þangað hafa oft sótt menn úr fleiri hreppum en viðkomandi.

Sunnan með Breiðafirði er jeg ekki eins kunnugur og skyldi; tel þó engan efa á því, að í verstöðunum úti undir Jökli rói menn víðar að en úr viðkomandi hreppum.

Mjer finst ekki miklu muna á brtt. minni og till. háttv. nefndar. Munurinn er aðeins sá, að hún vill, að sýslutakmörkin skeri úr; það læt jeg óátalið þegar eigi stendur svo á, að heimilisfang og útræði er við sama fjörð eða flóa. — Því vil jeg þó bæta við, og um það er háttv. nefnd og fleirum þingmönnum kunnugt, að jeg vil, að þeirri meginreglu væri fylgt um land alt, að þar væri hver einn útsvarsskyldur, er hann ætti heimilisfang, en annarsstaðar ekki. En hin aðferðin, að leggja á menn vegna nokkurra vikna dvalar, veldur óánægju, ónákvæmni, ranglæti og fleiru og fleiru. Auk þess sem það byggist ekki á heilbrigðri sanngirni.

Það er síður en svo, að jeg lái þeim hv. þm., sem finst þeir þurfa að gæta hagsmuna kjördæma sinna og þykir þetta ákvæði óheppilegt, en svona er það í lögunum frá 1919, og það liggja ekki fyrir ályktanir frá neinum þingmálafundum, sem fara fram á, að því verði breytt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa brtt. mína, en legg hana undir dóm háttv. deildar. Hún er komin fram með almenningshag fyrir augum, en ekki eingöngu miðuð við mitt kjördæmi.