04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg vil leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þær breytingar, sem verða á núgildandi fræðslulögum, ef þetta frv. verður samþykt.

Samkvæmt 1. gr. þessa frv. verða tvær breytingar á nú gildandi lögum. Samkvæmt gildandi lögum verða börn að ganga 6 mánuði í heimavistarskóla. Þetta ákvæði hefir staðið í vegi fyrir því, að heimavistarskólar væru stofnaðir. Samkvæmt þessu frv. þarf hvert barn ekki að ganga í skólann nema 12 vikur á ári.

Önnur breyting, sem verður á núgildandi lögum samkvæmt 1. gr., er sú, að skólanefndum er heimilað að ákveða í reglugerðum skólanna að láta skólaskylduna aðeins ná til barna á aldrinum 12–14 ára.

Breyting sú, sem verður á fræðslulögunum, ef 2. gr. verður samþykt, er sú, að nú er skylt að halda uppi skóla í öllum fræðsluhjeruðum, en í þessari umræddu gr. er ákveðið, að ef fræðslunefnd geti sjeð öllum börnum fræðsluhjeraðsins á aldrinum 10–14 ára fyrir fullnægjandi fræðslu farskólalaust, með eftirlitskennara eða með eftirliti sóknarprests eða á annan hátt, þá sje henni það heimilt. Þetta er rýmkun frá því, sem var, og ættu þeir, sem voru því fylgjandi að afnema alla skólaskyldu, að geta fylgt þessu. Vitanlega eiga börnin að ganga undir próf og sanna með því kunnáttu sína. — Þessar greinar eru báðar teknar úr stjórnarfrumvarpinu.

Þá koma breytingamar samkvæmt 3. gr. Þar er aðalbreytingin sú, að prestum er skylt að hafa eftirlit með barnafræðslunni í samráði við skóla- og fræðslunefndir, svo og skyldir að vera prófdómendur við barnaprófin, þar sem því verður við komið. — Nefndin var ekki öll sammála um að skylda prestana til þessa eftirlits. Mjer og hv. l. þm. Rang. (Gunn. S.) fanst það ákvæði óþarft, því að það mun víðast vera svo, að prestarnir eru í skólanefnd. En annars er þetta ákvæði, sem hvorki gerir til nje frá.

Hins vegar var nefndin öll sammála um að hafa prestana fyrir prófdómendur, því að þeir eru í mörgum tilfellum manna færastir til þess. Hvað snertir endi þriðju greinar, um að prestum beri engin borgun fyrir þessi störf sín, fanst einum nefndarmanninum ósanngjamt, að þeir fengju ekki goldinn ferðakostnað í þessu skyni, og ber hann fram brtt. um það.

Þetta eru þá aðalbreytingarnar, sem mentmn. leggur til, að gerðar verði á núgildandi fræðslulögum. Þær eru flestar teknar úr stjórnarfrumvarpinu. Með þessu frv. rjettum við þeim mönnum hendina, sem rýmka vildu skólaskylduna. En lengra sáum við okkur ekki fært að ganga. Lög mega ekki vera svo rúm og víð, að úr þeim verði ekki nema kák í framkvæmdinni, og þau mega heldur ekki vera svo þröng, að ekki sje hægt að framfylgja þeim. Það verður að fara hinn gullna meðalveg.