04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

68. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Jeg gerði nokkrar fyrirspurnir og bendingar til nefndarinnar út af þessu frv. við 1. umr. þessa máls, sem beindust í þá átt, að úr því að nefndin vildi rýmka eitthvað skólaskilduna, og færa fræðslulögin yfirleitt að ýmsu leyti í frjálslegra horf, þá gerði hún það frekar en þá kom fram. Nú hefir hv. frsm. nefndarinnar lýst yfir því, að með þessu rjetti nefndin hendina á móti þeim mönnum, sem hefðu viljað gera frekari breytingar á fræðslufyrirkomulagi því, sem nú er, eða afnema það með öllu. Þetta er að vísu vel hugsað og góðra gjalda vert, en það skýtur nokkuð skökku við hjá þeim mönnum, sem mesta fjarstæðu töldu frv. fjvn., það, sem hjer hefir verið rætt að undanförnu. Á það ekki hvað síst við háttv. frsm. Það var altaf viðkvæðið hjá honum, að frv. okkar væri hið mesta hermdarverk og fjarstæða, og var þá lítt að heyra, að hann mundi rjetta hendina móti okkur. En jeg sje á þessu, að hann hefir við rólega athugun málsins komist að raun um, að þetta var ekki svo mikil fjarstæða hjá okkur sem hann hugði í fyrstu, og er slík viðurkenning lofsverð. En jeg er nú, sem vænta mátti, ekki allskostar ánægður með þetta frv. mentmn., og er þá fyrst að athuga 1. gr. Mjer finst það rjett og sanngjarnt að láta ákvæði þeirrar greinar um heimavistarskóla einnig ná til heimangönguskóla. Háttv. frsm. sagði, að það væri svo í „praxis“, að þótt barn nyti ekki nema 12 vikna kenslu í skólanum, þá fengi skólinn styrk. Ef þetta er nú rjett, þá get jeg ekki sjeð neitt því til fyrirstöðu að taka ákvæði um þetta upp í frv., og mun jeg koma með brtt. um það við 3. umr.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að þau fræðsluhjeruð, sem sjá börnum fyrir viðunanlegri fræðslu, geti gert það án þess að halda uppi skóla, ef þau hafa eftirlitskennara eða ef sóknarpresturinn hefir eftirlit með fræðslunni. Nú hefir háttv. frsm. mentmn. (Þorst. J.) komið fram með brtt. þess efnis, að burtu falli þetta ákv. um að prestar sjeu skyldir til að hafa eftirlit með fræðslunni. Hann tók það að vísu fram, að hann legði ekki mikla áherslu á að brtt. þessi yrði samþykt, en mjer kemur það undarlega fyrir sjónir, að hann skuli ekki einmitt leggja mikla áherslu á það að nota sem best kenslukrafta prestastjettarinnar, sem eru heima fyrir í sveitunum og auk þess ber skylda til þess að láta fræðsluna til sín taka lögum samkvæmt. Það mætti nú segja sem svo, að ekki væri þörf á að taka upp slík ákvæði, þegar þau eru til í gildandi lögum. En háttv. deild mun vera það kunnugt, að prestarnir hafa ekki talið sig bundna af þessu ákvæði eftir að barnafræðslulögin komust á, og er því ekki úr vegi að taka þetta upp í frv. sem rækilega áminningu til þeirra um, hver skylda á þeim hvílir viðvíkjandi barnafræðslunni. Það eina, sem hugsanlegt er, að háttv. frsm. geti haft á móti því að halda þessari skyldu að prestunum, er það, að spara mætti kennara við þetta.

Það hagar víða svo til í fræðsluhjeruðum, að þau hafa ekki treyst sjer til að halda uppi skólum með því fyrirkomulagi, sem nú er. Af þessu hefir leitt, að hið geysiháa fjárframlag úr ríkissjóði til barnafræðslunnar hefir mjög farið fyrir ofan garð og neðan hjá sveitunum. Jeg hefi nú ekki heyrt, að háttv. frsm. (Þorst. J.) vilji láta hækka styrkinn til sveitaskóla, þar sem eftirlitsfræðsla er, en til þeirra hefir fyrirfarandi verið veitt 5000 krónur á ári.

Ef nefndin hefði nú viljað breyta þessu, en ekki ætlast til þess, að kaupstaðaskólarnir væru þar einir um hituna, hefði hún komið fram með einhverjar slíkar brtt. í fjárlögunum.

Það má að vísu segja, að þetta hefðu aðrir getað látið til sín taka, en það var þó óneitanlega best viðeigandi, að hún kæmi fram með þær till., ef henni annars væri ekki alveg sama um þó sveitaskólarnir væru olnbogabörn í þessu efni.

Þá sagði háttv. frsm. (Þorst. J.), að ekki væri þörf á að skylda prestana til þess að hafa eftirlit með fræðslumálum sjerstaklega, því að þeir væru víðast í skólanefndum og ljetu þau mál því mikið til sín taka. Það er nú að vísu svo, að prestar eru víða í skólanefndum, en innan sumra prestakalla eru margar skólanefndir, og er presturinn venjulega ekki nema þá í þeirri, sem er í þeirri sveit, sem hann er búsettur í. Þess vegna tel jeg rjett að taka slík ákvæði sem þessi upp í frv., og væri ef til vill ástæða til að kveða hjer skýrara á um þetta en nú er í frv., og má athuga það til 3. umr.

Þá hefi jeg ekki fleira að taka fram að svo stöddu, en mjer þykir vænt um jafnskýlausa viðurkenningu og þá, sem háttv. frsm. (Þorst. J.) hefir gefið um það, að mentamálanefndin getur gengið í rauninni ekki svo skamt í áttina til tillagna fjvn. um þetta mál, því það tel jeg spor í rjetta átt.