22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurður Stefánsson:

Jeg skal vera stuttorður, því háttv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.) hefir að mestu leyti tekið af mjer ómakið.

Háttv. frsm. (B.J.) mintist á það í ræðu sinni, að eigi væri ástæða til að láta sjer vaxa í augum fjárhagsvandræðin, þar eð horfurnar væru hinar bestu. Jeg vildi í því sambandi mega benda háttv. ræðumanni á það, að ennþá eru eigi liðnir nema 3 mánuðir af þessu ári, og því eigi sjeð fyrir endann á því, hvernig árferðið verður. Jeg verð að telja það mjög óhyggilega fjármálapólitík að miða fjárhagsáætlun landsins við veðrið þann og þann daginn. Jeg held að tæplega megi byggja á þeim spádómi um meðferð fjárlaganna. Og reynslan hefir sýnt, að skjótt skipast veður í lofti. Við vitum ekki nú, hvernig heyskapurinn verður í sumar. Sama er að segja um sjávarútveginn. Og þó að alt þetta gangi að óskum þá er þó eitt af aðalatriðunum óþekt, en það er hvaða verð við fáum fyrir afurðir okkar, er framleiddar verða. Nei, útlitið er ennþá alt annað en glæsilegt. Við vitum það vel, að fjárkreppan, sem við nú eigum við að stríða, stafar mikið af því, hve illa afurðasala okkar hefir gengið síðustu ár. Það er áreiðanlega ekki hyggilegt að byggja allar vonir sínar á því, að upp muni birta áður en varir, og sníða útgjöldin eftir því. Ef maður miðar við ástandið eins og það er nú, þá gefur það sannarlega tilefni til sparnaðar á sem flestum sviðum, til þess á þann hátt að bæta þó nokkuð úr fjárhagsböli þjóðarinnar.

Eitt atriði enn skal jeg leyfa mjer að minnast á í sambandi við ræðu hæstv. fjrh. (Magn.J.) um daginn og háttv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.) nú. Það er 7. gr. fjárlaganna, sem er um greiðslur af lánum ríkissjóðs. Hingað til hafa þau útgjöld orðið áætluð með reikningslegri vissu. En nú er alt öðru máli að gegna, síðan gengi íslensku krónunnar tók að falla og er orðið eins lágt og nú er raun á orðin.

Þessi útgjöld eru áætluð um 1600000 árið 1923. ¾ þeirra verða að greiðast í útlendum gjaldeyri. Eftir genginu eins og það nú er yrðu greiðslurnar alt að 600000 kr. hærri en áætlað. Og þótt reiknað sje með því, að gengi ísl. krónunnar verði komið upp í 80 aura, er þessar greiðslur fara fram, þá nemur það þó um 300000 kr., og er það ærin fúlga fram yfir áætlun. Þetta álít jeg alvarlegt atriði. Mjer dettur ekki í hug að vera svo svartsýnn að halda, að íslensk króna lækki mikið úr þessu, en jeg efast um, að hún verði komin í fult verð þegar næsta afborgun fellur í gjalddaga.

Viðvíkjandi sköttunum er það að segja að alt er í óvissu um, hvernig þeir reynast; sjerstaklega á þetta við um nýju skattana. Jeg held, að þinginu reyndist hollast að vera ekki of bjartsýnt í þessu efni og byggja ekki um of á spádómum. En ummæli háttv. frsm. (B.J.) voru mikið til bygð á spádómum. Mjer stendur á sama, hvort hann kallar það barlóm eða öðru verra nafni að líta á málið frá þessari hlið. Jeg segi þetta aðeins til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu. Jeg ætla ekki að tala um einstaka liði, en jeg teldi heppilegast, að þeir yrðu yfirleitt lækkaðir. Þó vil jeg ekki nú binda atkv. mitt við 3. umr., svo að jeg geti ekki breytt um þá. Þegar jeg get betur áttað mig á, hvernig fjárhagurinn verður. Þá getur verið að jeg geti verið með því að hækka eitthvað, en áður en jeg veit nokkuð með vissu, vil jeg hafa vaðið fyrir neðan mig.