08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

68. mál, fræðsla barna

Magnús Jónsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 197, sem fer fram á, að síðari málsgrein 3. greinar falli niður.

Við síðustu umr. kom fram brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), um að prestum yrði greiddur ferðakostnaður fyrir þær ferðir, sem þeir yrðu að fara í prófdómaraerindum, og hygg jeg, að hún hafi verið feld af því að menn hafi skilið hana svo, að ætlast væri til, að prestum yrði greiddur allur ferðakostnaður, sem af eftirlitinu leiddi.

Jeg get ekki sjeð, hvaða sanngirni er í því, að prestar fái enga borgun fyrir þetta starf. Menn eru altaf að vitna í tilskipun frá 18. öld, sem virðist ganga aftur ljósum logum hjer í háttv. deild. Hygg jeg algerlega óþarft verk að vera að vekja hana upp aftur, og ekki annað en hótfyndni, því allir vita, að hún er aðeins dauður bókstafur eins og svo margar aðrar tilskipanir, sem dagað hafa uppi og orðið að engu, enda jafnvel spurning, hvort þær eru ekki beinlínis úr gildi fallnar með fræðslulögunum.

Margt af því, sem hefir verið gert á síðari árum, einkum um samsteypu prestakalla, sýnir, að ekki hefir verið ætlast til, að eftir þessum tilskipunum væri farið. Hversvegna voru þær ekki vaktar upp þegar allar samsteypurnar fóru fram hjer á háttv. Alþingi? Þær eru allar miðaðar við það ástand, er hver prestur sat við sína kirkju svo að segja.

Það mætti máske gera það að reglu að leggja ýmsar kvaðir á embættismenn ríkisins, sem þeir fengju enga borgun fyrir, en það er ekki rjett að taka prestastjettina eina fyrir og leggja á hana töluverðan kostnað, þar sem prestarnir eru einna verst haldnir af öllum embættismönnum landsins.

En sje sparnaðurinn aðalatriðið í þessu máli, má alveg eins líta á þá hlið þess, að fátækum prestum gæti orðið mikill bagi að þessari álagning, en ríkissjóð á hinn bóginn munar sáralítið um hana.

Jeg vona, að háttv. þdm. sjái, að þetta er sanngirniskrafa og fallist á þessa litlu breytingartillögu.